Helga Vilborg og Stjáni Sverris

mánudagur, janúar 31, 2005

Jamm og jæja...

31. jan.2005


Vaknaði aftur í nótt með verki. Var reyndar í allan gærdag með samdrætti á 7- 10 mín fresti.
En í nótt ss. ákvað ég bara að að bíða og sjá. Vaknaði á sama tíma og fyrri nótt með verki á 4 mín fresti sem hættu svo á sama tíma um hálfsjö. Ég er voðalega eitthvað þreytt í maganum þetta er búið að vera svo lengi þótt þetta séu kanski ekkert voðalega sárir verkir fyrir utan þá sem ég fæ á nóttunni. Ég var svo að koma úr skoðun áðan og allt lítur vel út. Barnið búið að skorða sig blóðþrýstingurinn eðlilegur, hjartslátturinn fínn hjá barninu og góðar hreyfingar. Það er ss. ekkert annað að gera en bara bíða. Í sl. fæðist þetta barn næsta mánud. Ljósmóðirin pantaði fyrir mig tíma á spítalanum í overtidskontroll eins og það heitir á norsku. Þegar hún sagði hvenær ég hefði verið sett fékk hún þær upplýsingar að óvenju margar konur settar á sama tíma væru komnar framyfir! Þetta kanski liggur eitthvað í loftinu. Ég fékk síðan tíma á föstudaginn. Þá verður ákveðið hvenær ég verð sett af stað ef til þess kemur. Þykir nú líklegt að það verði þá ekki fyrr enn á mánud. Ef allt er í lagi. Annars finnst mér að barnið ætti að koma á fimmtudaginn, á afmælisdaginn hennar ömmu fyrst það er búið að láta bíða svona eftir sér.
Þrátt fyrir spennu í loftinu á heimilinu er allt gott af okkur annars að frétta. Veðrið er gott, 5°hiti og sól. Mjög óvenjulegt hér á þessum árstíma.

Munið að kíkja á myndasíðuna!


http://sverrisson.myphotoalbum.com


Búinn að eiga, loksins

Já, ég er búinn að eiga. Í nótt eignaðist ég, ekki svo lítinn mannkarl, með skegg og krullur. Hann talar þýska mállýsku og segist heita Marteinn Lúther. Hann er sumsé afar fljótur til máls og er nú þegar búinn að skrifa litla bók þar sem hann tekur á umdeildum málefnum. Ég veit ekki, þetta er einhvern veginn allt allt öðruvísi en ég bjóst við að þetta yrði. En ég elska hann Martein minn eins og hann er. Nú er bara að vona að Helga Vilborg fari að eignast sitt barn.


sunnudagur, janúar 30, 2005

gengur hægt...

30.jan.2005

Jæja, ætli tilkynningaskyldan verði ekki að standa sig. Barnið er nú ekki farið að láta sjá sig ennþá en í nótt hélt ég í alvöru að nú væri þetta að koma. Er búin að vera með reglulega samdrætti síðan í gærkvöld sem náðu hámarki milli 4 og 5 í nótt. Ákvað bara aðeins að bíða með að vekja Kristján og fannst líka fínt ef krakkarnig gætu náð að sofa út og við gætum svo bara gert þetta í rólegheitum. En nei svo bara sofnaði ég og verkirnir aðeins létu mig ranka við mér við og við en ekki meira en það. Svo hafa verið svona 7- 10 mín á milli í allan dag þannig að þetta getur varla tekið marga daga í viðbót.
Annars fór krúsin á skauta með pabba sínum í dag á meðan mamma og stubbur höfðu það huggulegt heima.
Vonandi á eftir að draga til tíðinda á næstunni.

To be continued.....


Erum komin með myndasíðu:

http://sverrisson.myphotoalbum.com






föstudagur, janúar 28, 2005

Loksins geta allir commenterað

Nú er búið að stilla síðuna þannig að allir geta kommenterað. Endilega skrifið komment á það sem þið lesið. Ok.

Enn á ný snjóar í Oslo

28. jan. 2005

Jæja, eitthvað ætlar þetta að ganga hægt. Verð nú að viðurkenna að ég er farin að verða dálítið óþolinmóð þótt ég reyni eftir fremsta megni að vera það ekki! Kanski er það vegna þess að hin tvö eru fædd nákvæmlega á settum degi. En við þessu er víst ekkert að gera nema bíða. Ætli ég þurfi ekki bara dripp að lokum, það mætti segja mér það. Ég fæ alltaf smá verki á kvöldin sem ná hámarki um miðnætti og detta svo niður og er svo með seyðing yfir daginn þannig að eitthvað er í gangi. Spurning hversu langt þetta er komið og hversu langan tíma það á eftir að taka. Erfitt að segja þar sem ég hef hingað til ekki fengið neina verki að ráði nema rétt undir lokin- þrátt fyrir að vera með dripp!!

Annars er það að frétta að við fengum heimsókn í gær frá Íslandi. Magga Sverris kom við. Hún er hér í kynnisferð á vegum Reyjkavíkurprófastdæmis vestra ásamt fríðu föruneyti. Það var mjög gaman að hitta hana. Það er svo stíf dagskrá hjá þeim þarna að það gæti orðið erfitt að hittast aftur en ef mér tekst að koma krílinu í heiminn fyrir sunnudaginn ætlar hún að koma akút á spítalann!

Við ákváðum að gefa krökkunum frí á leikskólanum í dag. Þau finna auðvitað að við erum spennt og eitthvað er öðruvísi í andrúmsloftinu en venjulega. Þeim finnst voða gaman á leikskólanum en ég held þeim hafi líka þótt voða notalegt að fá að vera bara heima hjá mömmu og pabba í dag. Voru heillengi að dunda sér saman í herberginu sínu að lesa og spjalla saman áðan. Svo höfðum við bara nestistíma í stofunni, sungum allar vísurnar úr Dýrunum í Hálsaskógi og nú eru þau farin út í snjóinn að leika með pabba á sleðanum. Það er að bæta aðeins í snjóinn núna og fullt af fínum sleðabrekkum.

Undanfarna daga höfum við verið í stöðugu sambandi við mömmu og pabba á skypeinu. Krökkunum finnst ekkert smá sniðugt að tala við ömmu og afa í gegnum tölvuna og MH er búin að koma sér upp þeirri venju að láta þau lesa fyrir sig. Mér heyrist hún alveg vera með á hreinu hvaða bækur eru í boði því hún bara pantar og fær svo sögu! Jóel er nú ekki eins þolinmóður að sitja en syngur stundum nokkrar syrpur af lögum.

Annars held ég að litla sé farin að kvíða því dáldið að mamma fari á spítalann. Passar voða vel upp á mig og tekur svona köst þar sem ég má helst ekki fara á klósettið. Þið sem eruð að biðja fyrir okkur megið gjarnan muna sérstaklega eftir litlu systkinunum, að allt gangi vel á meðan fæðingin stendur yfir og líka dagana á eftir. Þetta er auðvitað heilmikil breyting fyrir þau og allt öðruvísi að upplifa þetta með þeim núna heldur en með MH þegar Jóel fæddist. Hún var náttúrulega svo lítil þá. Auk þess sem það er dáldið mikið öðruvísi að vera fjarri ættingjum og vinum á Íslandi. Við erum samt mjög heppin og þakklát fyrir allt þetta góða fólk hér sem er búið að bjóða fram aðstoð sína.

Jæja en þá vitið þið það ekkert barn enn en vonandi ekki langt í það...

PS Kristján er að vinna í því að setja upp myndaalbúm á netinu svo vonandi kemur að því að hægt verði að fylgjast með okkur þannig líka.









Með 10 í útvíkkun...verð að rembast!

Það er sumsé þannig að ég og Þórbergur erum einu íslensku karlmennirnir sem hafa fundið til allra einkenna óléttu og er ég nú svo langt genginn að mig langar að rembast. - Maður er skelfilega eitthvað víraður í þessu öllu og uppspenntur allur. En það hlýtur eitthvað að fara að gerast. Allavega á Drottinn orð sem gleðja, fræða og uppörva; verði ykkur að góðu.

Prédikarinn 11:1. Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.2. Skiptu hlutanum sundur í sjö eða jafnvel átta, því að þú veist ekki, hvaða ógæfa muni koma yfir landið.3. Þegar skýin eru orðin full af vatni, hella þau regni yfir jörðina. Og þegar tré fellur til suðurs eða norðurs á þeim stað, þar sem tréð fellur, þar liggur það kyrrt.4. Sá sem sífellt gáir að vindinum, sáir ekki, og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki.5. Eins og þú veist ekki, hvaða veg vindurinn fer og hvernig beinin myndast í móðurkviði þungaðrar konu, eins þekkir þú heldur ekki verk Guðs, sem allt gjörir.6. Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott.7. Indælt er ljósið, og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina.8. Því lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár og minnast þess, að dagar myrkursins verða margir. Allt sem á eftir kemur er hégómi.9. Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.10. Og hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.
Prédikarinn 12:1. Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: Mér líka þau ekki2. áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið3. þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar, og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana,4. og dyrunum út að götunni er lokað, og hávaðinn í kvörninni minnkar, og menn fara á fætur við fuglskvak, en allir söngvarnir verða lágværir,5. þá menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum, og þegar möndlutréð stendur í blóma og engispretturnar dragast áfram og kaper-ber hrífa ekki lengur, því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss og grátendurnir ganga um strætið6. áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn7. og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.8. Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi!

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Ró ró og rambinn

Bara svona fyrir ykkur sem eruð að tékka og fylgjast með. Ég er ekki komin af stað!Reyni að vera með reglulegar fréttir...

þriðjudagur, janúar 25, 2005

konur með 2 í útvíkkun...

25. jan 2005


Ekki hefur nú fjölskyldan stækkað enn- bara bumban á mér!
Í gærkvöld var ég með það mikla verki (svona miðað við mig þá voru þetta verkir!!)
Að ég hélt kanski að barnið ætlaði að fara að koma. Svo upp úr miðnætti bara hætti allt saman. Ég ákvað síðan að hafa samband við fæðingadeildina í morgun því ég gæti allt eins verið gangandi um með 8 í útvíkkun án þess að finna fyrir því svona miðað við fyrri reynslu. Þær voru svo almennilegar þarna sögðu mér bara að koma og láta tékka á þessu. Svo ég er tiltölulega nýkomin heim. Það kom ss. í ljós að barnið er ekki fastskorðað eins og læknirinn var búinn að segja. Það liggur vel niðri í grindinni en er vel hreyfanlegt. Það er svo sem bara eðlilegt þegar maður er að eiga þriðja barn og ekkert víst að það skorði sig yfir höfuð. Jæja. Ég er nú bara komin með 2 í útvíkkun sem fyrir margar konur væri hreinasta kvöl og pína en ég hef hingað til ekki fengið neina verki fyrr en rétt svona í lokin. Nú bara slappar maður af og leyfir litla krílinu bara að hafa það huggulegt þarna áfram,því virðist bara líða mjög vel þarna inni. Þetta getur alveg tekið einhverja daga í viðbót. Ég er samt aðeins rólegri núna að vera búin að sjá spítalann og hitta eitthvað af starfsfólkinu sem virðist upp til hópa einstaklega almennilegt og elskulegt (átti nú svosem ekkert von á öðru- en samt það er alltaf öðruvísi að vera svona í útlöndum) Ég fer þá bara á kóræfingu í kvöld öllum þar örugglega til mikillar undrunar!
Af öðrum fjölskyldumeðlimum er allt gott að frétta. Kristján er alveg heima þar sem bekkurinn er á námskeiði í þróunarhjálp sem haldið er utan við bæinn. Hann tók ekki sénsinn á því að vera að fara neitt enda veitir mér ekkert af því að hafa hann. Ég er orðin bísna þreytt og það tekur á að klæða lítið fólk í útigalla og koma því af stað í leikskóla og annað. Þau hafa auðvitað fundið hvað við erum orðin óþreyjufull og spennt og í gær var MH ekki á því að leifa móður sinni að fara í göngutúr. “Ég vil bara hafa þig heima mamma, ég ætla bara að taka broddana þína og skóna og úlpuna..!” Þegr ég kom til baka var hún enn skælandi og komin í úlpu og stígvél og ætlaði út að sækja mömmu! Hún var líka orðin mjög þreytt litla skinnið.
Núna eru þau úti með pabba að leika á sleðanum. Það finnst þeim gaman.
Jæja, þá er ég búin að koma þessum fréttum til skila. Þannig að það er bara að bíða og sjá....

sunnudagur, janúar 23, 2005

ekkert enn...

23. janúar 2005


Jæja, í dag á barnið að koma þ.e.a.s. miða við allar áætlanir. Mér sýnist það samt ekki ætla að vera jafnstundvíst og systkini þess sem komu á nákvæmlega áætluðum fæðingardegi, Jóel meira að segja daginn fyrir. Reyndar hef ég sofið frekar illa þrjár síðustu nætur vegna samdráttarverkja þannig að eitthvað er í gangi, svona mjatlandi. Í nótt hélt ég reyndar að þetta myndi halda áfram, var búið að standa yfir í einn og hálfan tíma þegar það fór að minnka og hætti svo alveg. Þetta er bara svona með mig. Vatnið er enn á sínum stað svo maður bara bíður. Bara spurning hvað þetta á eftir að standa yfir í marga daga í viðbót. Ég er samt fegin að vatnið er ekki farið að drippa því það er eitthvað voða stúss og vesen, allt aðrar reglur en heima. Ef það gerist (svona eins og gerðist í hin skiptin) þá er standard að taka blóðprufur af mömmunni og svo af barninu eftir það er fætt á sex tíma fresti fyrsta sólahringinn. Auk þess sem gangsett er í einum hvelli eftir max sólahring. Þeir eru svo voðalega hræddir við sýkingar eða eitthvað svoleiðis. Það var ekkert svona vesen heima sem mér finnst líka bara allt í lagi. Ef barnið er sprækt og mamman sömuleiðis... en nóg um það.

Annars er ekkert nýtt. Það er aftur farið að kólna en það er mjög fallegt veður. Sólin skín og 6° frost.

Vonandi hefur fjölskyldan stækkað næst þegar hér verður skrifað!!

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Aftur kominn vetur

20. jan 2005

Enn hefur ekkert dregið til tíðnda en það verður vonandi fljótlega!
Annars bara allt gott að frétta af okkur fyrir utan smá kvef. Jóel er orðinn nokkuð hress, farinn að fara aftur á leikskólann. Var reyndar bara heima einn dag en það held ég hafi verið skinsamlegt hann hefur allavega ekki orðið verri. Annars er kominn vetur hér aftur, allt á kafi í snjó. Jóel kom hrópando til mín í morgun og sagði “mamma við getum farið á sleðanum íleikskólann í dag! “ Ég sagði að væri nú ekki nægur snór til þess, það var bara smáföl í gærkvöld sem ég hélt að yrði að engu en viti menn það var bara allt á kafi í morgunn svo drengurinn hafði rétt fyrir sér. Þeim finnst þetta ekkert leiðinlegt systkinunum. Annars var maður orðinn svo góðu vanur. Mér er reyndar ekkert illa við snjó í hófi.

Jæja, bóndadagurinn á morgun! Spurning að gera eitthað fyrir eiginmanninn. Ég held hann vilji helst bara fá barn!- Sjáum til hvað gerist aldrei að vita!!!

mánudagur, janúar 17, 2005

Allt með kyrrum kjörum

Mánudagur


17. jan. 05


Hér sit ég enn. Þ.e.a.s. ekkert barn komið ennþá. Býst svosem ekki við neinu fyrr en um helgina í fyrsta lagi. Var í mæðraverndinni í morgun. Blóðþrýstingurinn hefur eitthvað aðeins hækkað en það er nú bara eðlilegt svona undir lokin. Þetta var svona síðast líka. Ekki svosem neitt hár 104/80. Læknirinn vildi samt að ég kæmi aftur á fimmtudaginn svona til öryggis. Þaðer voðalega mikið eftirlit hérna eins og ég hef örugglega minnst á áður. Tvöfalt fleiri skoðanir í mæðravernd en heima! Annars var allt í góðu- barnið vel skorðað og komið langt niður í grindina. Ég vona að ég geti fætt án þess að fá dripp í þetta skipti en það verður bara að koma í ljós.
Ennars er nokkurnvegin allt við það sama. Krakkarnir spenntir og svona. Jóel er alveg hræðilega kvefaðu og með ljótan hósta eina ferðina enn en þetta er víst aldurinn.
Nú eru mamma og pabbi komin með skype svo hægt er að hringja í þau á netinu. Við keyptum okkur svona heyrnatól svo nú er hljóðið líka miklu betra. Töluðum líka við Baldur frænda og Agnesi og það kom bara rosa vel út. Þetta er algjör snilld. Gunnar bróðir er líka með svona svo í gær var smá fjölskyldufundur á netinu. Krakkarnir eru ekkert smákrúttleg með þessi heyrnartól. Þau héldu hvort um sig heila tónleika fyrir afa og ömmu og Gunnar frænda í gær. Ég hvet alla vini og vandamenn sem tækifæri hafa til að setja þetta upp hjá sér. Þetta er víst voða lítið mál (segir elskulegur eiginmaður minn sem finnst lítið til tölvukunnáttu konu sinnar koma- ekki að ástæðulausu- hvað get ég gert að því þótt öll tölvugenin hafi farið í bróður minn og restin í systur mína!! Ég hef bara aðra hæfileika og önnur áhugasvið og hana nú!!)

Varðandi fæðinguna er ég að spá í að stefna á 21. jan. Þá á Ingrid Alexandra prinsessa (dóttir Mette Marit og krónprinsins) eins árs afmæli svo þá verður flaggað í fulla söng um allt land eins og Norðmönnum einum er lagið!!

föstudagur, janúar 14, 2005

Brebånd!!

Föstudagur 14 jan

Nú bara bloggar maður daglega svona þegar við erum orðin sítengd netinu.

Fann súkkulaðirúsínur úti í búð í gær. Ég hef alltaf haldið að þetta væri íslensk uppfinning. Hef allavega aldrei rekist á þetta neins staðar annarsstaðar. En allavega þá voru þetta Kaliforniurúsinur- rosagóðar.

Systkinin eru orðin dáldið spennt eftir að við fengum vögguna. Nú er þetta að verða meira sýnilegt fyrir þeim. Margrét Helga vildi ekki fara að sofa í gærkvöldi og það er voða mikill galsi í Jóel. Þetta er nú örugglega bara eðlilegt.

Horfðum á 10 fréttir Rúv í gærkvöld- reyndar var þá klukkan orðin ellefu hér- þetta er allt annað líf!!

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Sól, sól skín á mig...

Fimmtudagur 13. janúar

Enn er ekkert lát á blíðunni hér, bara eins og vorið sé á næsta leiti. Það er samt spurning hversu lengi þetta varir. Þetta er víst heitasti janúarmánuður í Osló síðan 1930 og eitthvað.
Reyndar var nú dáldið hvasst í gær en það gekk fljótt niður. Núna skín sólin og hitinn er 5°

Nú er vaggan komin í hús og svona það allra nauðsynlegasta þannig að allt ætti að vera til reiðu fyrir nýjan fjölskyldumeðlim. Margrét Helga og Jóel eru orðin mjög spennt. MH er svo mikil mamma með dúkkurnar sínar, gefur þeim ýmist pela eða brjóst. Í gær var hún búin að troða einhverju inn á sig svo það var eins og hún væri orðin voða barmmikil! Í gær fórum við ss. til Fagermoen að sækja vögguna. Ég var búin að útskýra fyrir þeim að þegar litla barnið er tilbúið þá ætlar mamma hennar Tuvu að passa þau þannig að þegar ég sagði þeim í gær að við værum að fara í heimsókn til þeirra hélt Jóel að nú væri mamma að fara á spítalann! En svo var nú ekki. Við erum bara róleg yfir þessu öllu saman.

Annars er ég búin að liggja í bóklestri frá því við komum úr jólafríinu. Reyndar búin með báðar bækurnar sem ég fékk í jólagjöf og eina sem Kristján fékk. Mamma og pabbi gáfu mér Kleifarvatnið hans Arnalds sem mér fannst mjög spennandi og skemmtileg aflestrar. Ég hef ekkert lesið áður eftir Arnald en verð eiginlega að fara að gera það. Svo fékk ég sænska bók frá manninum mínum “Gömda” eftir Lisu Marklund. Alveg svakaleg saga. Þetta er sönn saga sem fjallar um heimilisofbeldi, bara alveg ótrúlega roslaeg og áhrifamikil! Svo var ég að enda við Baróninn eftir Þórarinn Eldjárn. Hún er líka mjög skemmtileg, sérstaklega endirinn!
Nú þarf ég að fara að glugga í Kárahnjúkabókina eftir Ómar sem við fengum frá tengdamömmu. Þetta er algjört æði að geta sökkt sér svona í lestur. Hef ekki gert þetta í mörg ár. Gallinn er bara að ég áþað til að detta út og gera ekkert annað á meðan lestururinn stendur yfir. Sérstaklega ef bækurnar eru mjög spennandi. En hvenær á maður að leifa sér þetta nema þegar maður er kasólettur!

Annars er nú ekkert mikið nýtt að frétta. Ég er reyndar á morgun að fara að hitta strák sem er hér á tónlistarbrautinni. Krakkarnir þar eru að semja söngleik út frá 4. kaflanum í Jóhannesarguðspjalli um samversku konuna við brunninn. Ég á að syngja nokkur lög. Áætlað er að þetta verði sett upp í maí. Mér fannst mjög gaman að vera beðin uum þetta. Ég bæði farin að sakna þess að syngja ekki meira og svo er þetta líka ein uppáhaldssagan mín í Biblíunni. Þetta verður mjög spennandi.
Jú reyndar er ein stórfrétt!! Við erum búin að fá breiðbandstengingu!! Nú á allt að vera miklu auðveldara í sambandi við internetið. Við höfum verið á biðlista og í gær ss. fengum við tilkynningu um að það væri tvær línur lausar.

En svo lengi sem ég ekki verð komin á fæðingardeildina skrifa ég fljótt aftur.
KV
HVS

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Bongóblíða

Þriðjudagur 11. janúar

Það mætti halda að það væri bara komið vor í Oslo, amk íslenskt vor. Undanfarna daga hefur verið alveg ótrúlegt veður, frá 5 og allt upp í 9 stiga hiti og sól og bjart. Ég sem var búin að búa mig undir svakalegan fimbulvetur! Hélt það væri svo svakalega kalt hér í janúar sérstaklega en það virðist nú vera allur gangur á því, rétt eins og á Fróni. Annars er þetta fínt fyrir konu í mínu ástandi myndi ég segja og fyrst það er svona bjart líka þá saknar maður snjósins ekki eins mikið.
Lífið er farið að ganga aftur sinn vanagang. Kristján er byrjaður í skólanum og krakkarnir í barneparken. Nú eru ekki nema ein og hálf vika eftir af áætluðum meðgömgutíma hjá mér. Barnið búið að skorða sig og þrýstingurinn niður í grindina orðinn allverulegur. Þetta getur því farið að koma hvenær sem er, við erum allavega tilbúin þó ég reyni að passa mig að vera ekkert að bíða of mikið, það gerir mann bara þreyttan, maður veit aldrei, kanski fer ég bara framyfir í þetta skiptið!
Við fórum reyndar að tala um það á sunnudaginn hjónin að það væri nú kanski ekkert vitlaust að fara að athuga með vöggu og annað slíkt. Ég talaði við Torill Fagermoen í gær og hún ætlar að lána okkur heilan helling, vöggu, kommóðu með skiptiborði, baðbala og ýmislegt fleira. Þau eru líka búin að bjóðast til að vera hjá krökkunum eða taka þau til sín þegar þar að kemur þannig að nú ætti allt að vera í orden.

Á sunnudaginn sungu krakkarnir með barórnum á jólaballi í kirkjunni. Margrét Helga hefur tekið svo miklum framförum. Hún er orðin svo örugg með sig. Þau stóðu bæði alveg alein með krökkunum (ég þurfti ss. Ekki að standa hjá þeim) og sungu fullum hálsi. Fyrir síðustu kóræfingu sagði MH við mig að í dag mætti syngja nafnið hennar. Hver æfing hefst á því að sungin er söngur þar sem nöfn allra barnnna eru nefnd og hingað til hefur verið voðalegt vandamál þegar hennar nafn er sungið og hú efur alveg snúist við en núna er hún svo örugg með sig og ánægð á allan hátt. Þetta er auðvitað mikið gleðiefni og jafnframt bænasvar þar sem hún átti dáldið erfitt á tímabili í haust. Jóel hefur hinsvegar verið svolítið lítill í sér allt í einu og mikill mömmustrákur en það hjálpar honum samt að MH er svona örugg því hann fylgir henni í einu og öllu.

Annars gleymdi ég smá hrakfallasögum af Jóel í síðustu skrifum. Hönum ss. tókst að fá gat á hausinn á aðfangadag. Hann datt um mottu heima hjá Hilla og Sólveigu. Fyrst leit þetta nú ekkert voðalega vel út en það tókst að tjasla gatinu saman með steristrip. Þetta var ekki svo djúpur skurður. Við sluppum því við ferð á spítalann enda með barnahjúkrunarfræðing og barnalækni í húsinu. Þetta var síðan allt saman vel gróið og fínt á gamlársdag. Jóel greyið varð síðan auðvitað líka lasinn, tók við af systur sinni en var mun fljótari að jafna sig.
Nú eru þau bæði frísk og spræk!
Þetta var nú bara smá innskot.

Ætli þetta verði ekki bara að duga í bili.
Bestu kveðjur úr blíðunni í Oslo!!

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Jólafríið

4. janúar 2005

Jæja, þá erum við komin heim frá Svíþjóð. Komum reyndar heim á sunnudaginn en ég hef ekki komið mér að því að skrifa fyrr. Við ss. Lögðum í hann þann 21. des. Það var reyndar útlit fyrir að við yrðum að fresta förinni þar sem MH var orðin lasin, komin með hita o.þ.h. Ég spurði hana um morguninn hvort hún treysti sér nokkuð til að fara í rútu og þá lifnaði yfir henni og hún spratt upp og sagði JÚ!!. Hún varð síðan bara hundlasin á leiðinni þrátt fyrir að hafa verið nokkuð hress um morguninn. Annars gekk ferðin vel og Tómas frændi tók á móti okkur í Gautaborg. Það var gaman að hitta Hilla frænda og fjölskyldu, ég hef ekki komið til þeirra síðan við vorum hjá þeim jólin ´98, þ.e. með mömmu og pabba. Mamma og pabbi flugu svo til Köben á miðvikudeginum og komu svo með lest þaðan. Litla fólkinu þótti ekki leiðinlegt að hitta ömmu og afa aftur. Á Þorláksmessu var nú engin skata en við fórum í Liseberg sem er tivolí þeirra Gautaborgarbúa.Þar var allt skreytt með ljósum og jólamarkaður með allskyns varningi. MH og J voru þó ekki með þar sem MH var lasin en það hefði verið gaman að geta ttekið þau með. Það voru nokkur tæki opin og svo var margt að skoða. Einnig var skautasvell í miðjum garðinum sem sumar litlar konur hefðu nú haft gaman af. En það er nú svo.
Á aðfangadag var MH orðin nokkuð hress. Í Svíþjóð hefjast jólin með Andrés önd í sjónvarpinu. Sama prógrammið hefur verið sýnt frá upphafi sjóvarpsins þar! Það er kl. 15. Við borðuðum síðan kl. 18 hamborgarhrygg sem mamma og pabbi komu með frá Íslandi. Eftir matinn var svo sungið og lesið jólaguðspjallið áður en ráðist var á pakkana. Krakkarnir voru í essinu sínu enda fengu þau engan smá helling af gjöfum! Jóel var svo glaður að fá lestina frá systur sinni að ég held að hún hefði næstum bara dugað! En annars voru þau mjög ánægð með allt saman, spil ,bækur,föt, DVD diska og fleira í löngum bunum.
Á jóladag fórum við í messu í íslensku kirkjunni í Gautaborg. Það var gaman að syngja jólasálmana. Litli stubbur sofnaði reyndar í messunni, var svolítið þreyttur eftir aðfangadaginn. Svo var hangikjöt á boðstólum í Röliden – Að sjálfsögðu frá Íslandi. Það var ekkert smá gott!! Mig var búið að dreyma um hangikjöt alla aðventuna.
Dagana milli jóla og nýjárs tókum við því bara rólega. Það var farið í gönguferðir, kíkt í bæinn og farið á skauta og bara slappað af. Við fjölskydan höfum ekki sofið jafnvel lengi. Margrét Helga tilkynnti strax fyrsta daginn að hún ætlaði að kúra hjá ömmu og afa og tryggði sér pláss þar allan tímann. Litli mömmustubbur svaf nánast í fanginu á mömmu sinni og fannst ekki slæmt. Svaf allar nætur og meira að segja frameftir. Þannig að þetta var eins og besta hvíldarinnlögn.
Við fórum nokkur í bíó að sjá mynd sem heitir Så som í himmelen alveg stórkostleg sænsk mynd. Ef hún verður sýnd heima mæli ég hiklaust með henni!!

Að sjálfsögðu setti flóðbylgjan í austur Asíu mark sitt á hátíðarnar. Mikið var sagt frá þessu í fréttum þar sem mjög margir Svíar urðu fyrir barðinu á náttúruhamförunum. M.a. var einn af bestu vinum Stefáns frænda míns þarna úti en hann og fjölskylda hans sluppu ómeidd þar sem þau höfðu farið í ferð þennan dag aðeins stuttu áður en flóðið skall á. Það var alveg svakalegt að fylgjast með þessu í fréttunum sem voru mjög reglulega yfir daginn og sorglegt að lesa blöðin þar sem mikið var af viðtölum við fólk sem hafði lent illa í katastrofunni. Á gamlársdag var öllum opinberum flugeldasýniningum aflýst og peniningarnir látnir renna í söfnun til stuðnings fórnarlamba og einnig var almenningur hvattur til að gera slíkt hið sama. Þrátt fyrir þð var nú talsvert skotið upp á miðnætti. Kristján keypti bara nokkur stjörnuljós handa krökkunum sem þau kveiktu á fyrir matinn.

Það var borðaður kalkúnn ala mamma. Aðalmálið var kryddið- creolakrydd og kalkúnakrydd sem fékkst nú reynda ekki í Svíþjóð en skv. innihaldslýsingu sem Agla Marta sendi frá Íslandi var hægt að redda því. Kalkúnninn smakkaðist sérlega vel enda keyptur ferskur.
Nýjársdagurinn var tekinn rólega, hugað að heimferð og slíku því sunnudaginn 2. jan. var planið að halda heim. Mamma og pabbi áttu flug þa´til Íslands og við ákváðum að taka rútuna sama dag. Það er nú aldrei auðvelt að þurfa að kveðja en allt á sitt upphaf og enda og mikilvægt að njóta þess sem maður hefur hverju sinni.
Þá erum við ss. komin aftur á Sinsen. Krakkarnir eru byrjuð aftur í barneparken en Kristján er ennþá í jólafríi. Skólinn hefst aftur á fimmtud. Ég er enn með bumbuna- ég hélt reyndar að barnið ætlaði að koma á annan í jólum þar sem ég fékk svo mikla samdráttarverki um nóttina og var svo með veika samdrætti, reglulega í nokkra daga á eftir. Þetta stafaði nú bara líklegast að því að barnið var að skorða sig enda kom það á daginn þegar ég fór í skoðun í gær að það er komið vel niður í grindina ss. Búið að skorða sig. Ætli þetta verði ekki bara á réttum tíma eins og venjulega, mér finnst allavega hæpið að ég fari framyfir- en þó veit maður aldrei! Allvega erum við tilbúin. Við Margrét Helga fórum í bargær að kaupa smá gjöf handa litla barninu. Hún er nú lengi búin að vera á því að kaupa kjól en svo sá hún svo fínan Bansímongalla í H&M sem hún keypti og var alveg alsæl með. Svo fékk hún líka að kaupa inniskó handa sér og bróður sínum.
En nú held ég að ég láti þetta gott heita í bili. Ég vil bara nota tækifærið og þakka fyrir allar góðar kveðjur og gjafir og bið öllum Guðs blessunar á nýju ári.