Helga Vilborg og Stjáni Sverris

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Norskur búðingur

27.feb.2005

Þá virðist sem allir séu loks orðnir nokkurnveginn frískir. Jóel byrjaði aftur að kasta upp þegar Margrét Helga hætti og svo bættist Kristján í hópinn. Ég fékk bara illt í magann og er enn svona pínu skrítin en þetta er allt að koma. Dagbjartur Elí er enn kvefaður en það virðist nú vera á batavegi. Með dáldið ljótan hósta ennþá og nefkvef.
Mamma og pabbi komu á föstudaginn hlaðin pinklum og mat. Það er eins og það sé ekki til neitt ætilegt hér í Noregi! Æ, það er nú bara svo frábært að fá eitthvað íslenskt þegar maður býr svona í útlandinu. Annars er merkilegt að þau skyldu komast inn í gegnum tollinn með allt þetta duft sem þau voru með, 6 dósir af soya ungbarnaþurrmjólk og 4 pakka af royal búðingi. Við hjónin fylltumst nefnilega um daginn svo ótrúlegri löngun í royal súkkulaðibúðing um daginn. Kristján gerði heiðarlega tilraun til að kaupa einhvern norskan búðing til að uppfylla þessa löngun en útkoman varð vægast sagt skelfileg! Búðingurinn sem keyptur var var ss. tilbúinn til átu á pakkningunum. Þegar honum var hellt í skál leit hann út eins og eitthvað sem maður hefur alls engan áhuga á að bera inn fyrir varir sínar. Hann var nú samt smakkaður- en hann var álíka á bragðið (ef bragð skyldi kalla) og útlitið sagði til um! Þannig að fyrst von var á ferð frá Fróni varð bara að fá nokkra pakka af almennilegum búðingi! Svona verður maður nú skrítinn á að búa í útlegð.Enn nóg um búðinginn.
MH og JK réðu sér varla fyrir fögnuði þegar amma og afi birtust. Þau fengu auðvitað líka helling af gjöfum, leikföngum og bókum og nú hafa þau ömmu og afa til að gera allt mögulegt með sér. Í nótt fengu þau að gista á gestaherberginu hjá ömmu og afa og núna eru þau á leið í bíó að sjá Bangsímon og fílinn. Þegar Jóel var fyrst spurður hvort hann vildi kúra hjá ömmu og afa misskildi hann það eitthvað og hélt að hann ætti að fara með þeim til Íslands. Hann vildi nefnilega fyrst þegar hann var spurður bara vera hjá mömmu og svo var allt í einu allt í lagi og hann ætlaði að fara hátt upp í skíin og til ömmu og afa!
Dagbjartur Elí virðist bara sáttur við nýju mjólkina. Hann virðist a.m.k. mun rólegri og ekki svona illt í maganum. Hann gubbar auðvitað eitthvað ennþá sem er bara ósköp eðlilegt en ekki með svona gusum og látum. Vonandi bara verður þetta honum til góðs. Það þurfti samt að fá soya að heiman því eina soya ungbarnamjólkin sem til er hér er rándýr mjólk sem þarf að fá resept fyrir (nutramigen). Til þess að fá reseptið þyrfti ég fyrst að fá uppáskrift frá lækni heima um að hin börnin mín hafi þurft soya og síðan að finna einhvern lækni hér sem gæti skrifað upp á mjólkina fyrir DE- það var þ.v. bara einfaldara að hafa þetta svona!
Ég gef honum alltaf brjóstið á undan en megnið fær hann úr þurrmjólk. Ég er með eitthvað meiri mjólk núna en áður en það er langt frá því að það dugi fyrir þennan stóra strák. Hann drekkur allavega alltaf 120 ml. eftir að hann fær brjóstið. Hann fær allavega það sem ég hef og einhver mótefni með því.

En nú held ég að ég noti tækifærið og leggi mig á meðan fólkið er úti og Dagbjartur Elí sefur.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Barnaheimili

Miðvikudagur 23.feb.2005


Gubb hér og gubb þar, hreinsa upp piss af gólfinu, blanda mjólk, gefa brjóst, klæða í, stilla til friðar, hreinsa hor úr nösum, lesa bækur.....
..... já það gengur á ýmsu á Sinsenveien 21A! En þetta fylgir víst þessum litlu yndislegu manneskjum sem Guð hefur gefið okkur.
Margrét Helga og Jóel eru bæði búin að vera með gubbupest. Hvort á eftir öðru að sjálfsögðu. Þau eru aldrei veik bæði í einu. Núna byrjaði Jóel og Margrét Helga tók við í gær og var kastandi upp í alla nótt. Ég er því ekki að ýkja þegar ég segi að ég hafi nánast ekkert sofið í nótt, því það þurfti auðvitað að gefa litla stúf líka svo við foreldrarnir vorum á hálfgerðum hlaupum í alla nótt. Ég er sjálf líka búin að vera eitthvað slöpp í maganum, listarlaus og svoleiðis. En þetta gengur allt saman yfir.
Við erum farin að hlakka til að fá mömmu og pabba í heimsókn en þau koma á föstudaginn, hlaðin farangri! Hér berast bögglar á nánast hverjum degi og það eru eins og jólin hjá krökkunum! Dáldið sniðugt að eignast svona lítinn bróður- maður fær svo marga pakka!

Systkinin eru farin að hafa mikinn áhuga á bókstöfum.MH þekkir orðið mjög marga stafi, allavega stafina okkar í fjölskyldunni. Svo fóru þau með pabba í bæinn um daginn og lærðu P- bílastæðamerkið. Þau fóru ss. með pabba í leiðangur á laugardaginn að skoða skriðdýrasafn og út að borða á peppes pizza. Það fannst þeim ekki leiðinlegt.

Annars er kalt í Oslo alveg niður í 12 ° frost. En nú er svefnleisið farið að segja til sín. Ég bíð góða nótt í bili.

föstudagur, febrúar 18, 2005

2 vikna

18. feb. 05

Hér er eins og gefur að skilja nóg að gera svo lengra líður á milli skrifa en áður. Í dag er Dagbjartur Elí tveggja vikna gamall og virðist bara nokkuð sáttur við að tilheyra þessari fjölskyldu. Hann er auðvitað vanur hamagangnum í systkinum sínum frá í móðurkviði og kippir sér því lítið upp við þetta. Greyið litla er reyndar kominn með kvef. Kanski ekki skrítið þar sem stóru systkini hans eru síhóstandi og með hor í nös eins og sönnum leikskólabörnum sæmir. Hann hefur sem betur fer ekki fengið hita en er með hósta sem er verstur á morgnana, þá hefur slímið legið í honum. Hann var dáldið slappur fyrsta daginn sem hann fékk kvefið, latur að drekka og svoleiðis en er nú óðum að hressast. Við höfum bara ákveðið að vera ekkert að flækjast með hann út fyrr en hann er orðinn alveg góður. Á þriðjudaginn fór hann í fyrsta skipti í bað og fannst það sko ekki slæmt, bara alveg rosalega notalegt og svaf eins og lítið lamb á eftir. Leikurinn hefur hins vegar ekki verið endurtekinn vegna kvefsins.

Kristján ákvað að vera heima þessa viku líka, fannst allt í lagi að taka tveggja vikna frí vegna fæðingarinnar. Enda hefur ekkert veitt af því. Næstu viku er svo frí í skólanum og vikuna þar á eftir verða mamma og pabbi hér og svo verður komið fram í mars og vonandi að glitta í vorið þannig að þetta getur ekki verið betra.

Af stóru stubbunum er allt gott að frétta. Þau eru bara alltaf í barnepark á daginn, fara á kóræfingar aðrahverja viku, sem þeim finnst Nb alveg æðislegt. Í dag er þeim svo boðið í afmælisveislu til Tuvu vinkonu sinnar sem er 4 ára. Við fórum því í leiðangur í gær og keyptum afmælisgjöf. MH var sko alveg með það á hreinu að það ætti að vera barbie og fann eina litla dúkku og mömmu. Jóel var voða hrifinn af öllu dótinu í búðinni og vildi helst kaupa allt sem hann fann, var kominn með allskonar kassa undir arminn. Við keyptum líka gjöf handa litlu Elise sem fæddist viku á undan DE.

Í gær fengum við góðann gest. Helgi Hróbjartsson á leið hér um Fjellhaug og leit við hjá okkur. Hann borðaði síðan með okkur súpu og brauð og mikið var spjallað um Eþíópíu og ýmislegt fleira. Sonur hans eignaðist litla dóttur sama dag og DE fæddist. Hún varð fyrir súrefnisskorti í fæðingunni og er enn á spítalanum undir eftirliti. Biðjið endilega fyrir henni og foreldrum hennar. Hún heitir Soffia.

Annars erum við þ.e.a.s aðallega Kristján komin á fullt í pappírsmál vegna ferðarinnar til Eþíópíu. Við þurfum að endurnýja vegabréfin okkar og fá vegabréf fyrir krakkana. Til að DE geti fengið vegabréf þarf hann að komast í þjóðskránna heima sem hefur ekki gengið alveg smurt fyrir sig en vonandi fáum við fljótlega fæðingavottorð sem þeir taka gilt heima. Svo þurfum við að fara að huga að sprautum og ýmsu fleiru sem þessu fylgir.

Ætli ég fari ekki að reyna að gera eitthvað hér á meðan sá stutti sefur og hin eru á leikskólanum. Kanski maður þrífi og svoleiðis ef það kæmu nú gestir um helgina!


Gullmolar:

Kristján er búinn að vera að lesa ævisögu predikarans Billy Grrahams undanfarið og hefur MH sýnt þessari bók mikinn áhuga. Pabbi hennar hefur verið að segja henni frá Billy Graham og hún hefur hlustað af mikilli athygli. Um daginn var hún veik og var heima með mér og þá átti eftirfarandi samtal sér stað:

HV: Margrét Helga viltu hlusta á tónlist?
MH: Já
HV: Hvað viltu hlusta á?
MH: Billy Graham
HV: Við eigum engan disk með honum, hann er ekki tónlistarmaður heldur predikari
MH: Jú ég VIL hlusta á BG
HV setur Björn Eidsvåg í tækið
MH: Er þetta Billy Graham?
HV: Nei þetta er Björn Eidsvåg
MH: Nei þetta ER Billy Graham- (snýr sér að bróður sínum) Dagbjört Elí, þetta ER Billy Graham!


Annað skemmtilegt samtal:

MH: Mamma má ég ekki lána Dagbjört Elí flíspeysuna mína svo honum verði ekki kalt á fótunum? (hún kallar litla skinnið iðulega Dagbjörtu)

HV: Jú það máttu
MH: einu sinni þegar ég var lítil þá var Dagbjört Elí stór og þá lánaði hann mér flíspeysuna sína:
HV: Nei veistu þú ert elsta barnið, þegar þú varst lítil var Dagbjartur Elí ekki til. Þú ert elsta systkiniðalveg eins og mamma og pabbi. Mamma er elst af sínum systkinum og pabbi elstur af sínum systkinum.
MH; Nei þú ert ekkert elst, þú ert bara múttí- pabbi segir alltaf múttí og pabbi minn heitir bara Kristján Fór Sverrisson! (litla konan segir alltaf f í stað þ)


Það eru komnar nokkrar nýjar myndir á http://sverrisson.myphotoalbum.com
Endilega kíkið!

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Út í fyrsta skipti

Sunnudagur 13. feb. 05


Í gær fór Dagbjartur Elí í fyrsta skipti út í göngutúr. Það var bara voða stutt hérna á lóðinni enda hitinn undir frostmarki. Fjölskyldan þurfti aðeins að viðra sig. Honum virtist bara líka þetta vel, var vel dúðaður í ull og flís og pakkað ofan í svefnpoka.
Við fórum hins vegar ekkert út í dag. Það var 5 gráðu frost og hífandi rok. Margrét Helga og Jóel fóru ekki einu sinni út. Kristján er enn eitthvað hálfslappur og þau bæði kvefuð þannig að við áttum bara rólegan dag heima með Badda grís og Nemó og púsli, playmo og fleiru.

DE er farinn að vera dáldið órólegur á kvöldin. Oftast svona í kringum miðnætti. Þetta lítur dáldið út eins og maginn sé að angra hann auk þess sem hann er farinn að gubba dáldið mikið og vill vera sídrekkandi. Kæmi svo sem ekki á óvart að hann þyrfti að fá soya mjólk eins og systkini hans þurftu. Það hefur sem sé ekkei gengið sem skyldi með brjóstagjöf hjá mér frekar en fyrri daginn. Mér finnst eins og það sé eitthvað aðeins meira núna en síðast en Dagbjartur Elí er svo stór og þarf svo mikið að hann fær megnið af dagsþörfinni úr þurrmjólk. Maður gleymir því stundum hvað hann er ungur því hann er að mörgu leiti meira eins og 2, 3 mán. barn. Hann drekkur það mikið og fötin sem hann er í núna eru föt sem ég notaði ekki á systkini hans fyrr en þau voru um tveggja eða þriggja mánaða.
Annars sefur hann vel á nóttunni hefur hingað til sofið frá 2- 6 og sofnað svo strax eftir að hann er búinn að fá að drekka á morgnanna og sofið þá til 9, jafnvel 10. (Það tekur NB hátt í tvo tíma að gefa honum þar sem hann fær brjóstið fyrst og svo pelann!!- það gengur ágætlega a.mk ennþá á kvöldin og snemma á morgnanna en er erfiðara á daginn þegar sinna þarf fleirum.)

Við eigum svo von á heimsókn bráðum. Amma og afi á Karló koma eftir tæpar tvær vikur og verða hjá okkur í 10 daga. Margrét Helga sagði við ömmu sína þegar DE fæddist að hún yrði að koma strax og sjá hann! Svo þau fá nú að sjá hann fljótlega! Það verður voða gaman.

Á morgun fer Kristján svo í skólann. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta á eftir að ganga hjá okkur fjórum. Ef Jóel verður sæmilega duglegur að klæða sig ætti þetta að verða í fínu lagi. Hann hefur verið dáldið að mótmæla upp á síðkastið. Eflaust bæði aldurinn og líka þessar nýju aðstæður. Hann er voða hrifinn af litla bróður en finnur samt að hann fær kanski ekki alveg eins mikið að hafa mömmu eins og áður. Ég reyni eins og ég get að nota hvert tækifæri til að knúsa hann og kúra með honum. Hann er nefnilega algjör knúsukall hann Jóel minn. Það gildir það sama með MH. Þegar DE sefur reynum við að eiga huggulegar stundir saman og lesum, syngjum, spilum eða leikum okkur saman.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Vikugamall prins

Föstudagur 11. feb.-05

Í dag er Dagbjartur Elí vikugamall. Hann er algjört ljós. Drekkur og sefur og þegar hann er vakandi liggur hann og fylgist með því sem gerist á heimilinu. Hann er meira að segja búinn að brosa nokkrum sinnum til okkar. Hann kippir sér ekkert upp við hávaðann í systkinum sínum enda vanur því úr móðurkviði. Hann hefur breyst svo mikið á
þessari viku og maður er alltaf að sjá nýja svipi í honum. Yfirleitt finnst mér hann vera algjör blanda af systkinum sínum. En auðvitað er hann bara hann sjálfur.
Margrét Helga og Jóel taka þessu öllu með ótrúlegu jafnaðargeði. Þetta hefur hingað til gengið mjög vel. Vonandi að það verði eins í næstu viku þegar Kristján fer að fara í skólann og ég verð ein með þau þrjú. Það tekur kanski einhvern tíma að finna taktinn en það kemur. Þar sem DE er líka svo ótrúlega rólegur og góður hef ég svo sem ekki miklar áhyggjur.
Ég er sjálf óðum að hressast og jafna mig eftir fæðinguna. Kristján og Margrét Helga eru reyndar búin að vera með einhverja kvefpest en það er allt á uppleið.
Það er búið að vera rosalega gott veður hér þannig að það fer nú að líða að því að við förum með litla prinsinn í göngutúr. Það þarf bara fyrst að þrífa kerruna. Hún er orðin dálítið skítug eftir að MH og J hafa verið sótt í henni á leikskólann. Það er óttalegt drullusvað þar stundum svo gallarnir og kerran verða eftir því. En nú fær DE að hafa kerruna fyrir sig svona að mestu allavega. Það fer líka að verða auðveldara fyrir þau að ganga þegar líður á vorið. Margrét Helga vill reyndar oft ganga sjálf í leikskólann enda ekki mjög löng leið, en Jóel hefur átt erfiðara með það, sérstaklega þegar allt var á kafi í snjó og hann kappklæddur.

Ég gleymdi alveg að segja frá því að Dagbjartur Elí fæddist með tvo jaxla sinhvoru megin í efri góm . Annar er kominn alveg í gegn en bara glittir aðeins í hinn. Þetta hefur eflaust eitthvað með Noreg að gera því hún Ingunn litla vinkona okkar Kjellingland (dóttir Möggu Söllu) í Bergen fæddist líka með tvær tennur!

Ég veit að einhverjir voru að velta fyrir sér nafngiftinni, hvort þetta væri út í bláinn eða hvort nafnið kæmi úr fjölskyldunni. Dagbjartur er í höfuðið á Línu ömmu, föðurömmu sem heitir nefnilega Dagbjört Lína en Elí er út í bláinn, okkur bara fannst það svo fallegt nafn og þessi tvö passa vel saman. Við erum allavega afar ánægð með nafnið og vonum að hann verði það líka.

En nú ætlum við hjónin að fara að kósa okkur með mynd og einhverju góðu í gogginn!
Góða helgi!!

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Komin heim

Þriðjudagur


8. feb 2005

Jæja þá er ég komin heim með “litla” prinsinn. Mér finnst hann reyndar ósköp smár í samanburði við systkini hans!
Mig langar til að byrja á því að þakka fyrir allar góðar kveðjur sem við höfum fengið, bæði hér á síðunni og í gegnum tölvupóst. Það eru greinilega margir búinir að vera að lesa framhaldssöguna!

Fæðingin gekk mjög vel. Ég reyndar fann mjög fyrir því að hann var stærri en hin því hann sat smastund fastur á öxlunum en þetta tókst! Vatnið ss. fór að fara hjá mér á fimmtudagskvöldið svo þá hringdi ég á fæðingadeildina. Sú sem svaraði sagði mér að ég skyldi bara bíða heima þar til hriðirnar kæmu en þá sagði ég henni minar fyrri fæðingasögur. Sagði henni m.a. ef ég fengi einhverjar almennilegar hríðir væri bara mjög stutt eftir og ekki víst að ég næði að koma auk þess sem ég væri búin að vera með hríðir síðan á laugardag!
Hún sagði þá að ég skyldi koma, sem betur fer. Ég var skoðuð og íljós kom að útvíkkun var komin vel á veg svo þeir vildu ekki að ég færi heim. Við vorum nú samt að velta því fyrir okkur þar sem ég hef ekki hingað til getað fætt án þess að fá dripp og gerðum því ekki ráð fyrir því að nokkuð myndi gerast. En ég er sannfærð um að fyrir Guðs handleiðslu ákváðum við að bíða (þeir ætluðu ss. ekkert að gera fyrr en um morguninn þar sem það var næturvakt og ekki nægur mannskapur). Við fengum því auka rúm inn á skoðunarherbergið og áttum bara að reyna að sofa. Kl. 4 var ég alveg að sofna. Allir verkir dottnir niður fyrir hálftíma..... þá byrjaði ballið.Ég vakti Kristján: “Þú verður að hringja á þær, barnið vill út!!” Einum og hálfum tíma síðar eða kl. 5:32 að norskum tíma kom Dagbjartur Elí í heiminn.Og ég segi það satt- á þeim tímapunkti er er ekki séns að ég hefði komist út í leigubíl- ég varð bara að koma barninu út! Ég fæddi ekki einu sinni á fæðingastofu heldur í móttökuherberginu.
Við fengum alveg frábæra lljósmóður sem hafði greinilega mikla reynslu og ég hugsa að fyrir hennar fyrirsjálni hafi m.a. fæðingin gengið jafn vel og hún gekk. Hún var þegar búin að átta sig á því að þetta barn væri að.m.k. 4 og hálft kg.
Drengurinn mældist svo 4818 gr. 39 cm höfuðmál og 53 cm langur. Ég er samt alveg viss um að hann sé lengri því hann passar ekki í fötin sem systkini hans notuðu fyrstu vikurnar og það ekki á breyddina heldur lengdina fyrst og fremst. Þau mældust 53 og 54 cm.En það skiptir nú ekki öllu máli. Hann er heilbrigður og í mínum augum alveg fullkominn!

Eftir fæðinguna fór Kristján svo fljótlega heim til að vera þar þegar Margrét Helga og Jóel vöknuðu. Við Dagbjartur Elí biðum hins vegar nokkra tíma á fæðingadeildinni áður en við fórum á sjúkrahótelið þar sem við áttum að vera í 3 sólarhringa.
Þetta var ægilega huggulegt, sérherbergi með baði og sjónvarpi og góður matur. Svo eru ljósmæður á vakt allan sólarhringinn sem maður getur hringt í til að fá aðstoð. Einnig fara fram fræðslufundir fyrir foreldra og læknisskoðun o.þ.h. á meðan á dvölinni stendur. Þetta var mjög fínt en kanski ekki eins persónulegt og heimaþjónustan sem boðið er uppá heima. Hefði eflaust líka verið léttara ef Kristján hefði getað verið hjá okkur en hann og krakkarnir komu bara í heimsókn á daginn.

Á sunnudeginum var barnalæknir sem skoðaði Dagbjart Elí. Við skoðunina heyrði hún einhver aukahljóð svo hún vildi að hann færi í hjartaómun. Við þetta brá okkur auðvitað mjög en okkur var sagt að líklegast væri þetta ekki neitt en ómunin væri til þess að taka af allan vafa. Það kom svo í ljós að það er lítið gat sem á að lokast eftir að barnið er fætt. Meðan barniðer í móðurkviði fer blóðið þar út í stað þess að fara til lungnanna. Svo þegar barnið er fætt á það að lokast svo blóðið renni beint til lungnanna. Þetta er víst ekkert óeðlilegt að það taki einhvern tíma þar til það lokast en þar sem gatið er aðeins stærra en mörkin vilja þeir fá hann aftur í ómun þegar hann er 4- 6 vikna, svona til öryggis. Guð gefi að þá verði allt í lagi. Hann er a.m.k. mjög frískur og sprækur og lítur vel út.

Þar sem Dagbjartur Elí er stór þarf hann mikið! Við sváfum lítið síðustu tvær næturnar á hótelinu því hann vildi bara liggja á brjóstinu. Kl. 3 aðra nóttina þegar ég var búin að vera að gefa honum stanslaust frá kl. 10 um morguninn bað ég um að fá þurrmjólk handa honum. Miðað við mína fyrri reynslu af brjóstgjöf vissi ég bara að hann var svangur. Þegar dvölin okkar var liðin var hann búinn að klára alla þurrmjólk sem til var á hótelinu- sem var nú ekki mikil reyndar og fór samt sársvangur heim! Þær voru svona frekar tregar að gefa mér þetta en það bara varð svo ég fengi, og við bæði, smá svefn. Það var varla að ég gæti borðað eða komist sturtu!

En nú erum við ss. komin heim. Það var ósköp gott. Systkinin eru mjög hrifin af bróður sínum og vilja endilega fá að hjálpa til við að hugsa um hann, sérstaklega Margrét Helga. Það er alveg yndislegt að sjá svipinn á Jóel þegar hann fær að halda á litla bróður sínum, hann skynjar að þetta er eithað alveg stórmerkilegt! Ég held samt hann sé ekki alveg búinn að átta sig á að þessi litla manneskja eigi eftir að vera hjá okkur alltaf , spurði mig þegar við vorum á hótelinu: “Mamma má hann svo koma í heimsókn til okkar?”. Hann segir samt öllum að nú sé hann orðinn stóri bróðir og er voða stoltur af því.
Þegar ég talaði við MH í síman fyrst eftir að DE var fæddur sagði hún: “En mamma mig langaði svo að fá litla systur” Hún var alltaf svo viss um að þetta gæti ekki annað en verið stelpa en nú er hún svo ánægð með “litla drenginn okkar” syngur fyrir hann og talar við hann og fær að gefa honum pelann. Svo vill hún helst að hann sofi uppí hjá henni. En ég sagði henni að hann fengi ekki einu sinni að sofa í mömmu og pabba rúmi, það væri best fyrir hann að sofa í vöggunni sinni.

Krisjtán keypti þurrmjólk fljótlega eftir að við komum heim svo nú fær hann ábót eftir hverja gjöf og er svo rólegur og góður. Hann var ss. bara svangur. Ég bara gef honum það sem ég hef og svo fær hann restina úr pela. Það virkaði fínt með hin. Svo verður bara að koma í ljós hvort ég fæ eitthvað meiri mjólk- hef svo sem ekki verið þekkt fyrir það en maður getur ekki fengið allt!

Í gærkvöld kom dáldið af gestum, nággrannar okkar með góðar gjafir og hamingjuóskir. Þar sem öll fjölskyldan fékk sér lúr milli 3 og 5 var ekki hægt að koma MH og J í rúmið fyrr en seint og um síðir. Þau voru voða spennt yfir getstagangnum og fengu að opna pakkana fyrir Dagbjart Elí. Þau sváfu síðan frameftir í morgun, varð að vekja þau kl. Hálfellefu til að fara í leikskólann! En í dag var þeim haldið vakandi til að snúa sólarhringnum við. MH ætlaði reyndar aldrei að sofna. Var svo spennt yfir því hvað Dagbjartur Elí væri að gera en sofnaði loks þegar hann var búinn að fá að drekka og sofnaður.

Jæja, þetta er orðin meiri langlokan! En þar sem ég hef hugsað þetta sem minningabók fyrir okkur líka verðið þið bara að þola það!

Þakka enn og aftur fyrir allar kveðjurnar!!

Látum heyra frá okkur aftur fljótlega.




föstudagur, febrúar 04, 2005

Dagbjartur Elí Kristjánsson

Hann kom í heiminn kortér í sex í morgun. Fæðingin gekk mjög vel. Hann er stór og mikill um sig,rúmar 19 merkur og 53 sentimetrar, enda veitir ekki af með þessa stóru stubba hérna heima. Annars voru Margrét Helga og Jóel að vakna og now I have som explaining to do...
Ég setti inn nokkrar myndir á http://sverrisson.myphotoalbum.com

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

samdráttur í samdráttum

Fimmtudagur 3. feb 2005

Jæja ætli maður verði ekki að standa sig í fréttaflutningnum. Skilst að vinir og vandamenn fylgist stíft með hvort eitthvað sé að gerast og sumar vinkonur mínar kíkja víst á síðuna oft á dag! Fengu víst einhverjar sjokk yfir litla pistlinum hans Kristjáns um Martin Luther þótt ég hafi síðan skrifað tveimur tímum seinna!
Þetta var bra smá grín til að stytta okkur stundir.Þaðan kemur eflaust hugmyndin.
Við erum farin að halda að það sé farið að vora í Osló. Sól og fimm stiga hiti upp á hvern dag og krakkarnir koma eins og litla moldvörpur heim úr leikskólanum. Það er ss. dáldið mikil drulla á leiksvæðinu sem þau reyndar sækja alveg sérstaklega í að velta sér uppúr!
Af ófrísku konunni er það að frétta að hún er bara enn mjög ófrísk, allir samdrættir dottnir niður í bili, allt með kyrrum kjörum í alla nótt. Ég held bara að líkaminn þurfi að hvíla sig. Vonandi er þetta lognið á undan storminum...
Ég er farin að eiga frekar erfitt með gang þar sem barnið er örugglega komið svo langt niður. Sjáum hvað þeir segja á morgun þegar ég fer í skoðun. Segjast svo sem ekkert gera fyrr en maður er komin amk. 14 daga framyfir. Á mánud er ég komin 15 og þá verður gangsett í síðasta lagi.
Annars átti Bryndís vinkona mín strák í gær og sendi ég þeim hér með innilegar hamingjuóskir. Þá léttir aðeins á vinkonunum- þær eru allar að fá magasár af spenningi og mega ekki heyra síma hringja eða píp í gemsa án þess að hrökkva í kút.
Svo á auðvitað hún amma mín afmæli í dag, hugmyndin var að hún fengi þriðja langömmu barnið sitt í afmælisgjöf en útlitið fyrir það er svosem ekki bjart.
Kristján skrapp í skólann í dag til að halda fyrirlestur um resurs og forvaltning- eins og ég skil þetta fjallaði þetta eitthvað um kristniboða og penngamál. Gekk bara vel hjá honum. Sagði samt að þetta væri eins og að biðja guðfræðing að fjalla um Guð og trú- frekar svona vítt efni. Eiginlega bara hagfræðin eins og hún leggur sig!

Takk fyrir kommenntin- endilega haldið þið áfram. Allataf gaman að fá hlýjar kveðjur og sjá hverjir eru að fylgjast með.


miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Ekkert nýtt....

.....bara svipað ástand. Verkir í alla nótt. Reyndar sárari í nótt en undanfarið og stóðu lengur yfir. Vona bara að það þýði að fæðingin sjálf nálgist óðum! Nýjasta markmiðið er að barnið verði fætt fyrir miðnætti á morgun, afmælisdaginn hennar ömmu!

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

......

Þriðjudagur 1. feb.2005


Ég verð að viðurkenna að ég er orðin verulega þreytt. Búin að vera með hríðir (reglulega samdrætti), mis sterkar/veikar í fjóra sólarhringa en aldrei nóg til að koma barninu í heiminn.Stundum er bara eins og vanti herslumuninn. Ég ss. gat lítið sofið í nótt fyrir verkjum sem byrjuðu um ellefuleitið og hættu svo um tvö. Þá var ég orðin alveg dauðuppgefin og sársvöng svo ég fékk mér að borða og ætlaði svo að reyna að sofna en nei, þá var ennþá verið að bora undir húsinu. Ég held ég hafi áður minnst á það að það er verið að gera neðanjarðarjárnbraut sem liggur einmitt undir Fjellhaug og þeir vinna eiginlega bara í þessu á nóttunni með tilheyrandi sprengingum og hávaða. Það hefur reyndar ekkert heyrst í margar vikur þannig að við héldum að þetta væri búið en í gærkvöld byrjuðu þeir ss. aftur. Alveg ægilega skemmtilegt eða þannig. Á endanum tókst mér nú samt að sofna, skil ekki hvernig Kristján gat sofið í þessu. Ég svaf svo þar til lítill stubbur skreið uppí. Hann kom reyndar tvisvar því faðir hans gerði árangurslausa tilraun til að flytja hann yfir í sitt rúm en það leið ekki langur tími þar til hann var kominn aftur. Ég var þ.a.l. ekki mjög vel sofin eftir nóttina en lagði mig bara í dag í staðinn. Það jafnast samt ekkert á við góðan nætursvefn...
Ég var orðin svo þreytt á þessum endalausu samdráttum að ég hringdi á spítalann í eftirmiðdaginn. Þá þurfti ég að útskýra mínar undarlegu fæðingarsögur eina ferðina enn (það er eitt sem er líka að gera mig brjálaða!) en þeir segja að ég verði bara að bíða það er ekkert gert ef allt er í lagi og vatnið á sínum stað. Hún sagði ljósmóðirin að ég gæti prófað að hringja aftur fyrripartinn á morgun en ég er ekki viss um að ég nenni að standa í því, nenni ekki að fara að útskýra fæðingarskýrslurnar eina ferðina enn. Læt bara duga að eiga tíma á föstudaginn.
Jæja, þetta hljómar nú ekkert mjög bjart hjá mér núna, hef það svo sem ágætt er bara orðin þreytt. Kristján er bara alveg heima, hefur ekkert mætt í skólann enda get ég eiginlega ekki verið ein heima með krakkana núna.

Svona til að lífga aðeins upp á þetta þá er hér alveg yndisleg saga af dóttur minni í lokin. Ég tek það fram fyrir þá sem ekki vita að þá er hún vön að umgangast fólk með annan litarhátt og hefur aldrei gert neinar athugasemdir við það, eigum m.a. eþíópska vini á Íslandi auk þess sem stór hluti barnanna á leikskólanum er dökkur á hörund,svo þetta er dálítið skondin pæling hjá henni sem hér fer á eftir.
Við sátum ss. við kvöldverðarborðið og það kjaftaði á henni hver tuska (eins og oft á kvöldin) systkinin voru að ræða viðburði dagsins og voru að tala um krakkana á leikskólanum. Þá segir frk. Margrét Helga (þetta kom sko beint frá hjartanu): “Pabbi hennar Júlíu er allur í súkkulaði, svona í framan og augunum og hárinu og allsstaðar!”
Faðir umræddrar Júlíu er ss. svartur, ss. ekki eina svarta foreldrið á leikskólanum en eitthvað hefur hún verið að pæla...