Þriðjudagur
8. feb 2005
Jæja þá er ég komin heim með “litla” prinsinn. Mér finnst hann reyndar ósköp smár í samanburði við systkini hans!
Mig langar til að byrja á því að þakka fyrir allar góðar kveðjur sem við höfum fengið, bæði hér á síðunni og í gegnum tölvupóst. Það eru greinilega margir búinir að vera að lesa framhaldssöguna!
Fæðingin gekk mjög vel. Ég reyndar fann mjög fyrir því að hann var stærri en hin því hann sat smastund fastur á öxlunum en þetta tókst! Vatnið ss. fór að fara hjá mér á fimmtudagskvöldið svo þá hringdi ég á fæðingadeildina. Sú sem svaraði sagði mér að ég skyldi bara bíða heima þar til hriðirnar kæmu en þá sagði ég henni minar fyrri fæðingasögur. Sagði henni m.a. ef ég fengi einhverjar almennilegar hríðir væri bara mjög stutt eftir og ekki víst að ég næði að koma auk þess sem ég væri búin að vera með hríðir síðan á laugardag!
Hún sagði þá að ég skyldi koma, sem betur fer. Ég var skoðuð og íljós kom að útvíkkun var komin vel á veg svo þeir vildu ekki að ég færi heim. Við vorum nú samt að velta því fyrir okkur þar sem ég hef ekki hingað til getað fætt án þess að fá dripp og gerðum því ekki ráð fyrir því að nokkuð myndi gerast. En ég er sannfærð um að fyrir Guðs handleiðslu ákváðum við að bíða (þeir ætluðu ss. ekkert að gera fyrr en um morguninn þar sem það var næturvakt og ekki nægur mannskapur). Við fengum því auka rúm inn á skoðunarherbergið og áttum bara að reyna að sofa. Kl. 4 var ég alveg að sofna. Allir verkir dottnir niður fyrir hálftíma..... þá byrjaði ballið.Ég vakti Kristján: “Þú verður að hringja á þær, barnið vill út!!” Einum og hálfum tíma síðar eða kl. 5:32 að norskum tíma kom Dagbjartur Elí í heiminn.Og ég segi það satt- á þeim tímapunkti er er ekki séns að ég hefði komist út í leigubíl- ég varð bara að koma barninu út! Ég fæddi ekki einu sinni á fæðingastofu heldur í móttökuherberginu.
Við fengum alveg frábæra lljósmóður sem hafði greinilega mikla reynslu og ég hugsa að fyrir hennar fyrirsjálni hafi m.a. fæðingin gengið jafn vel og hún gekk. Hún var þegar búin að átta sig á því að þetta barn væri að.m.k. 4 og hálft kg.
Drengurinn mældist svo 4818 gr. 39 cm höfuðmál og 53 cm langur. Ég er samt alveg viss um að hann sé lengri því hann passar ekki í fötin sem systkini hans notuðu fyrstu vikurnar og það ekki á breyddina heldur lengdina fyrst og fremst. Þau mældust 53 og 54 cm.En það skiptir nú ekki öllu máli. Hann er heilbrigður og í mínum augum alveg fullkominn!
Eftir fæðinguna fór Kristján svo fljótlega heim til að vera þar þegar Margrét Helga og Jóel vöknuðu. Við Dagbjartur Elí biðum hins vegar nokkra tíma á fæðingadeildinni áður en við fórum á sjúkrahótelið þar sem við áttum að vera í 3 sólarhringa.
Þetta var ægilega huggulegt, sérherbergi með baði og sjónvarpi og góður matur. Svo eru ljósmæður á vakt allan sólarhringinn sem maður getur hringt í til að fá aðstoð. Einnig fara fram fræðslufundir fyrir foreldra og læknisskoðun o.þ.h. á meðan á dvölinni stendur. Þetta var mjög fínt en kanski ekki eins persónulegt og heimaþjónustan sem boðið er uppá heima. Hefði eflaust líka verið léttara ef Kristján hefði getað verið hjá okkur en hann og krakkarnir komu bara í heimsókn á daginn.
Á sunnudeginum var barnalæknir sem skoðaði Dagbjart Elí. Við skoðunina heyrði hún einhver aukahljóð svo hún vildi að hann færi í hjartaómun. Við þetta brá okkur auðvitað mjög en okkur var sagt að líklegast væri þetta ekki neitt en ómunin væri til þess að taka af allan vafa. Það kom svo í ljós að það er lítið gat sem á að lokast eftir að barnið er fætt. Meðan barniðer í móðurkviði fer blóðið þar út í stað þess að fara til lungnanna. Svo þegar barnið er fætt á það að lokast svo blóðið renni beint til lungnanna. Þetta er víst ekkert óeðlilegt að það taki einhvern tíma þar til það lokast en þar sem gatið er aðeins stærra en mörkin vilja þeir fá hann aftur í ómun þegar hann er 4- 6 vikna, svona til öryggis. Guð gefi að þá verði allt í lagi. Hann er a.m.k. mjög frískur og sprækur og lítur vel út.
Þar sem Dagbjartur Elí er stór þarf hann mikið! Við sváfum lítið síðustu tvær næturnar á hótelinu því hann vildi bara liggja á brjóstinu. Kl. 3 aðra nóttina þegar ég var búin að vera að gefa honum stanslaust frá kl. 10 um morguninn bað ég um að fá þurrmjólk handa honum. Miðað við mína fyrri reynslu af brjóstgjöf vissi ég bara að hann var svangur. Þegar dvölin okkar var liðin var hann búinn að klára alla þurrmjólk sem til var á hótelinu- sem var nú ekki mikil reyndar og fór samt sársvangur heim! Þær voru svona frekar tregar að gefa mér þetta en það bara varð svo ég fengi, og við bæði, smá svefn. Það var varla að ég gæti borðað eða komist sturtu!
En nú erum við ss. komin heim. Það var ósköp gott. Systkinin eru mjög hrifin af bróður sínum og vilja endilega fá að hjálpa til við að hugsa um hann, sérstaklega Margrét Helga. Það er alveg yndislegt að sjá svipinn á Jóel þegar hann fær að halda á litla bróður sínum, hann skynjar að þetta er eithað alveg stórmerkilegt! Ég held samt hann sé ekki alveg búinn að átta sig á að þessi litla manneskja eigi eftir að vera hjá okkur alltaf , spurði mig þegar við vorum á hótelinu: “Mamma má hann svo koma í heimsókn til okkar?”. Hann segir samt öllum að nú sé hann orðinn stóri bróðir og er voða stoltur af því.
Þegar ég talaði við MH í síman fyrst eftir að DE var fæddur sagði hún: “En mamma mig langaði svo að fá litla systur” Hún var alltaf svo viss um að þetta gæti ekki annað en verið stelpa en nú er hún svo ánægð með “litla drenginn okkar” syngur fyrir hann og talar við hann og fær að gefa honum pelann. Svo vill hún helst að hann sofi uppí hjá henni. En ég sagði henni að hann fengi ekki einu sinni að sofa í mömmu og pabba rúmi, það væri best fyrir hann að sofa í vöggunni sinni.
Krisjtán keypti þurrmjólk fljótlega eftir að við komum heim svo nú fær hann ábót eftir hverja gjöf og er svo rólegur og góður. Hann var ss. bara svangur. Ég bara gef honum það sem ég hef og svo fær hann restina úr pela. Það virkaði fínt með hin. Svo verður bara að koma í ljós hvort ég fæ eitthvað meiri mjólk- hef svo sem ekki verið þekkt fyrir það en maður getur ekki fengið allt!
Í gærkvöld kom dáldið af gestum, nággrannar okkar með góðar gjafir og hamingjuóskir. Þar sem öll fjölskyldan fékk sér lúr milli 3 og 5 var ekki hægt að koma MH og J í rúmið fyrr en seint og um síðir. Þau voru voða spennt yfir getstagangnum og fengu að opna pakkana fyrir Dagbjart Elí. Þau sváfu síðan frameftir í morgun, varð að vekja þau kl. Hálfellefu til að fara í leikskólann! En í dag var þeim haldið vakandi til að snúa sólarhringnum við. MH ætlaði reyndar aldrei að sofna. Var svo spennt yfir því hvað Dagbjartur Elí væri að gera en sofnaði loks þegar hann var búinn að fá að drekka og sofnaður.
Jæja, þetta er orðin meiri langlokan! En þar sem ég hef hugsað þetta sem minningabók fyrir okkur líka verðið þið bara að þola það!
Þakka enn og aftur fyrir allar kveðjurnar!!
Látum heyra frá okkur aftur fljótlega.