Helga Vilborg og Stjáni Sverris

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Ég held ég hafi ekki verið búin að nefna að það er búið að ákveða svona nokkurn vegin hvað við eigum að gera í Eþíópíu. Það er alltaf eitthvað sem getur breyst en nú er allavega áætlað að við verðum í Addis og Kristján kenni á prestaskólanum. Hann grínast með það að hann eigi að kenna grísku og hebresku en reyndin er sú að hann á að kenna fög sem tengjast hans menntun, bókhald og þvíumlíkt . Ég kem hugsanlega til með að kenna eitthvað í tónlistardeildinni þar líka. Fyrsta á árið verðum við samt á málaskólanum. Kristján var einmitt í gær að ganga frá kaupum á flugmiðum út svo nú er ákveðið að við förum frá Íslandi 2. ágúst og verðum þá komin til Addis að kvöldi 3. ágúst. Þetta er farið að verða nokkuð raunverulegt núna og tilfinningarnar gagnvart því mjög blendnar. Ég er samt núna að verða alveg róleg yfir þessu öllu og farin að hlakka meira til. Ég er sannfærð um að það er fyrirbænum trúsystkina að þakka. Þetta er auðvitað heilmikið fyrirtæki og margt sem er erfitt. Að kveðja allt og alla heima og fara langt út í heim í fjögur ár. En svo fór ég líka meira að hugsa um hvað þetta eru í raun og veru mikil forréttindi. Að fá að ferðast svona, læra nýtt tungumál og fá að starfa fyrir Guð. Ég hef satt að segja verið pínu óróleg í vetur yfir mörgum hlutum og oft velt því fyrir mér hvort þetta sé raunverulega það sem við eigum að gera en núna hef ég fengið mikinn frið fyrir því að svo sé og er sannfærð um að Guð er að leiða okkur þennan veg. Og þetta er raunverulega bara alveg ótrúlega spennandi allt. Ég er líka farin að hlakka til að hitta vini mína sem ég hef ekki séð í 10 ár og sjá hvernig hlutirnir eru í Eþíópíu núna.

En aftur til Osló....
Hér er nú bara komið alveg þokkalegt íslenskt sumar. 15 stiga hiti og sól upp á hvern dag. Það er reyndar spáð rigningu um helgina en það er bara gott fyrir gróðurinn. Magga Salla og Inga voru að fara núna rétt áðan. Við ætlum nú kanski að reyna að hittast eitthvað aftur á morgun líka. Það var rosa gaman að hitta þær.
Á föstudaginn ætlum við svo að leggja í hann til Gjövik.

Annars er nóg að gera hjá mér. Alltaf eitthvað verið að biðja mig að syngja og svo er lika verið að vinna í söngleiknum um samversku konuna. Þetta er nú orðið dáldið tæpt en ég vona að þetta eigi eftir að ganga því þetta er mjög fín tónlist sem krakkarnir hafa samið og ætti að geta orðið mjög flott. Reyndar dáldið mörg lög og mikill texti sem ég þarf að læra en það hlítur að hafast einhvernvegin. Ég vona bara að ég fari að fá röddina bráðum aftur. Ég held stundum að ég sé að drukkna úr kvefi!!!

Stubbarnir eru bara sprækir. Dagbjartur Eli er svo rólegur að maður þarf að passa að gleyma honum ekki. Hann lætur í sér heyra ef hann er svangur en annars bara brosir hann og hlær og spjallar. Honum finnst alveg æði að láta lesa og synga fyrir sig. Jóel og Margrét Helga eru óðum að losna við gröftinn úr augunum og Jóel er loksins að verða betri af þessu endalausa kvefi sem hefur verið að hrjá hann og farinn að sofa flestar nætur í einum strekk. Margrét Helga er eins og lítil aðstoðarmamma. Hún fékk í gær að skúra og þfvo gluggana og fannst það alveg frábært. Vonandi að það verði jafn eftirsóknarvert þegar hún verður eldri (á samt ekki von á því.....)

En nú er að koma háttatími....

mánudagur, apríl 25, 2005

Vorið komið en engin Lóa!

Mánudagur 25. apríl

Jæja, þetta er nú að verða ágæt pása. En ég hef samt afsökun. Ég er búin að vera meira eða minna veik sl. 2 og hálfa viku og er auk þess búin að vera með gesti. Ég var einmitt svo fegin að vera veik áður en Agla Marta og Maggi kæmu- gerði auðvitað ráð fyrir að vera þá orðin frísk. En daginn sem þau komu fékk ég hita aftur og er enn ekki orðin góð. Hef ekki orðið svona veik í mörg ár. Það er greinilega eitthvað í loftinu hér í Noregi sem við ekki þolum. Nema þetta sé partur af programmet, ég meina kristniboðaþjálfuninni.

Það var voða gaman að fá AMS og MVS í heimsókn. Það hefði nú samt verið skemmtilegra að vera frískur að taka á móti þeim, heimilið hefði nú getað verið í betra ásigkomulagi osfrv. En svona er þetta bara. Á fimmtudeginum fórum við með lest hérna upp í fjall og skoðuðum Holmenkollen og þaðan svo niður í Frognerseteren og í Vigelandsparken þar sem fullt er af skemmtilegum höggmyndum. Ég var ekki búin að koma þangað áður heldur. Á föstudaginn var svo allur miðbærinn skoðaður á einu bretti, Akershus slott, stríðsmynjasafnið, Akerbrygge (þar sem sest var niður á Mc Donalds þrátt fyrir að við hjónin værum búin að sjá Supersize me tiltölulega nýlega!!). Svo auðvitað Konungshöllin, hallargarðurinn og Karl Johansgate sem enn er undirlögð af framkvæmdum sem á að vera lokið fyrir hátíðarhöldin á 17. maí.

Þau áttu svo flug um hádegi á laugardag þannig að sá dagur fór bara í að pakka og svoleiðis.

Svo ég haldi nú áfram með veikindasögurnar þá eru krakkarnir búin að vera með sýkingu í augunum, Jóel einna verstur og ég smitaðist svo líka. En á fimmtudaginn sl. fórum við á læknavaktina og fengum dropa og smyrsl í augun svo þetta er allt að koma svo nú geta þau aftur farið í barneparken

Annars man ég ekki eftir neinum fleiri stórvægilegum uppákomum. Helgina áður en AMS og MVS komu til okkar fórum við reyndar í smá ferð upp að Sognsvatni sem er svona útivistarsvæði. Þar var kaldara en við bjuggumst við enda enn ís á vatninu. Við erum orðin voða góð í matpökkunum- spyrjið bara hjónin á Hofteignum!! Á sunnudeginum fórum við svo á samkomu í Misjonssalen. Krökkunum finnst rosa gaman í sunnudagaskólanum þar.

Annars er planið í næstu viku þannig að ég á von á Möggu Söllu í heimsókn frá Bergen og vonandi líka Ingu Gísla frá Kristiansand. Það verður gaman að hitta þær. Svo er meiningin að við förum í ferðalag næstu helgi að heimsækja Esther Daníelsdóttur og fjölskyldu en þau starfa fyrir hjálpræðisherinn rétt utan við Gjövik.

Ég reyni að láta ekki líða svona langt á milli næstu skrifa.....



Gullkorn:

MH: Þegar ég er orðin stór ætla ég að verða hjúkrunarfræðingur eins og amma Magga og Jóel ætlar að verða orgelspili (organisti)
J: Nei ég ætla að verða læknir (drengurinn sem urrar á alla lækna sem ætla að skoða hann!!)
MH: Ég ætla að verða ljósmóðir
AMS: Hvað gerir ljósmóðir
MH: Hún lýsir svona upp í munninn, svona....



Fyrogflamme mæla með:

Tónleikum Gospelkórs Reykjavíkur 16. og 17. maí í Fíladelfíu!!!!!
Með kórnum spila megnið af meðlimum Mezzoforte og Jagúar
Tónlist eftir gospeltónsnillinginn Kirk Franklin
Nokkuð sem engin má missa af!!!!

föstudagur, apríl 15, 2005

Nattevakten på Sinsen

Ég er að hugsa um að skrifa spennusögu með þessu nafni og nota manninn minn sem fyrirmynd að aðalpersónunni. Hann er orðinn aðstoðarmaður lögreglunnar í Osló virðist vera.
Þetta byrjaði allt á mánudaginn þegar Kristján og Jóel fóru í bæinn á bókasafnið og sitthvað fleira. Í bæjarferðinni sáu þeir lögguna vera eltast við búðarþjófa og ákváðu að hlaupa á eftir þeim, Jóel til mikillar skemmtunar. Í fyrrinótt hófst svo vinnan fyrir alvöru. Um þrjúleitið um nóttina vöknuðu MH og JK svo ég fór inn til þeirra og sofnaði þar. Ég vaknaði síðan við það að síminn hringdi um kl. 5 og Kristján svaraði og hljómaði eins og hann ætti von á einhverjum. Stuttu síðar hringdi dyrabjallann og einhverjum var hleypt inn. Þá ákvað ég að líta fram og sjá hvað um væri að vera. Sé ég þá hvar lögregluþjónn í fullum skrúða stendur á miðju stofugólfinu og virðist vera að taka skýrslu af Kristjáni sem sat með Dagbjart Elí í fanginu og var að gefa honum pelann. Fyrst hélt ég að einhver hefði brotist inn til okkar en reyndin var svo að það voru tveir náungar að brjótast inn í bíla á lóðinni og Kristján hafði séð þá og hringt á lögguna- og þeir náðust!
Svo nú gengur hann undir nafninu Nattevakten...

Í gær þurfti öll fjölskyldan að byrja í bólusetningum. Ég hafði reynt að undirbúa MH og JK eins vel og ég gat. Sagði þeim sögur af því hvað þau hefðu verið dugleg að fá sprautur þegar þau voru lítil og svona svo fyrir rest var þetta bara allt í fínasta lagi. Svo í gær var byrjað á pabba til að sýna að þetta væri nú ekkert svo agalegt. Bara pínu sárt og svo bara búið... En pabbi leit ekkert voðalega vel út eftir stungurnar, voðalega hvítur í framan og sagðist vera flökurt. Pabbi var svo sendur fram og fékk vatna að drekka en nú var svo komið að systkinin neituðu alfarið að gangast undir þessa aðgerð. Þau fengu því að fara aðeins fram og leika sér og gleyma sér smá stund á meðan mamma fékk sprauturnar. Það gekk mun betur með mömmu enda sagði læknirinn að þetta væri nokkuð algengt, þe karlmenn reageruðu oft svona á meðan konurnar ættu mun auðveldara með þetta.
Eftir smá stund frammi að teikna fékkst svo Jóel til að koma inn til læknisins og sýna honum hvað hann væri duglegur að teikna. Svo þegar mamma sagði að nú þyrfti læknirinn aðeins að sprauta leist honum ekki á blikuna. Ég bara hélt honum á meðan og hann var síðan fljótur að jafna sig. Margrét Helga kom svo bara eins og ekkert væri, settist í fangið á mér og grét ekki neitt. Dagbjartur Elí var ekki mikið sáttari við þessa meðferð en bróðir hans og Margréti Helgu fanst voða sniðugt að bara strákarnir skildu gráta, ekki stelpurnar!
Svo var farið í bæinn og krakkarnir fengu ís í verðlaun og reyndar líka nýja skó því þau vantaði sumarskó, ómögulegt að vera í kuldaskóm í vorinu! Svo nú spóka þau sig um í glænýjum íþróttaskóm- svakalega sæl með sig í sólinni og blíðunni. Það er nefnilega “sól og blítt úti” eins og Jóel segir alltaf.

mánudagur, apríl 11, 2005

Vor hor

(Ekki kanski smekklegur titill en lýsir ástandinu á heimilinu nokkuð vel....)

Jæja nú er vorið loksins komið. 5° hiti í morgun kl.6:30 ig 12° núna þegar þetta er skrifað. Það er reyndar dáldið hvasst en sólin skín. Við getum reyndar lítið notið veðurblíðunnar eins og er vegna kvefpestar, öll fjölskyldan takk fyrir. Við Jóel vorum með hita í gær og MH og DE hósta og hósta og Kristján er eitthvað hálftuskulegur líka. Krakkarnir voru heima í dag en geta vonandi farið í barneparken á morgun.
Annars var nóg að gera um helgina. Á laugardaginn fékk ég smá frí frá húsmóðurstörfum og fór út að borða með kórnum. Svo voru tónleikar/samkoma um kvöldið í misjonssalen. Í gær voru svo vortónleikarnir og ég söng þótt ég væri nú hálftæp eitthvað. Gekk svona sæmilega miðað við ástandið.

Nú er bara vonandi að við förum að skríða saman svo við getum notið norsku vorblíðunnar.

Takk fyrir kommentin- alltaf jafngaman að lesa þau!

föstudagur, apríl 08, 2005

Skemmtilegt bréf

Fengum í gær nokkuð athyglisvert bréf í pósti frá Oslo likningskontor (nk. þjóðskrá). Ég gríp hér niður í hluta þess:

"Folkeregisteret mottok en telefon fra Dagbjartur E. Kristjansson som opplyste at familien ikke har hensikt å bosette seg i Norge, men flytter til bake til Island i midten av juni 2005"

(Lausleg þýðing: Hagstofan fékk símtal frá Dagjarti Elí Kristjánssyni sem tilkynnti að fjölskyldan hafi ekki hugsað sér að setjast að í Noregi heldur flytji aftur til Íslands um miðjan júní 2005)

fimmtudagur, apríl 07, 2005

no comment...

Hvernig er það annars, eru allir hættir að nenna að lesa það sem ég skrifa?
Ég sakna allvega að fá ekki komment- er þetta kanski aftur orðið eitthvað vesen?

Í rigningu ég syng...

Fimmtud. 7. apríl

Fór á kóræfingu á þriðjudagskvöldið. Tónleikar/samkoma framundan á laugardaginn. Ég hef nóg að gera um helgina því ég á síðan líka að syngja á vortónleikum skólans á sunnudaginn. Ætla að hitta Torill á eftir því við ákváðum að sameina krafta okkar. Höfum hugsað okkur að syngja og spila og kenna allavega eitt lag. Vona bara að röddin verði komin í lag, er búin að næla mér í einhverja leiðinda hálsbólgu sem leggst á raddböndin, frekar slæmt.

Í gærkvöld fórum við Kombi stelpurnar (bekkjarsystur Kristjáns og við eiginkonurnar) aftur til Ski þar sem við vorum í haust og héldum samkomu í kristniboðshúsinu þar. Það er voða notalegt að koma þarna, svo vel tekið á móti okkur. Mér tókst að selja 10 geisladiska, 3 Joyful, 3 Sálmadiska og 4 Kanga ekkert smá ánægð með það. Þarf að fara að vera duglegri að koma þessu á framfæri. Maður er alltaf hálffeiminn við að flagga því sem maður hefur gert sjálfur- ég allavega er þannig. Nú bara vantar mig fleiri Kanga og sálmadiska og e.t.v. líka Joyful svo ég verð bara að biðja Öglu Mörtu og Magga að koma með sendingu þegar þau koma.

Annars rignir í Osló í dag. Það er allavega ekki frost og hefur eiginlega ekki fryst, nema kanski á nóttunni, síðan við komum heim úr páskafríinu. Vonum að vorið sé væntanlegt í fullum skrúða sem fyrst...

Ps. Mundi allt í einu að Mummi frændi á afmæli í dag... ef hann eða einhver í fjölskyldunni les þetta: Innilega til hamingju með daginn!!

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Komin til baka

Já, við sem sagt skelltum okkur heim um páskana. Þetta var mjög svo skyndileg ákvörðun þar sem við höfðum alls ekki hugsað okkur að koma neitt heim fyrr en í sumar, sáum ekki fram á að það yrði mögulegt fjárhagslega. Svo var það hér á föstudaginn fyrir pálmasunnudag að við litum út um gluggann á næstum tóm bílastæðin. Þeir bílar sem voru eftir var verið að pakka áður en eigendurnir leggðu í hann. Norðmenn flýja ss. allir upp til fjalla á páskum og Osló verður eins og draugabær! Allt í einu fengum við svo svakalega löngun til þess að skreppa bara heim á klakann. Ég hafði nú oft leitt hugann að því að það gæti verið gaman þar sem við komumst ekki heim um jólin en eins og fyrr sagði sýndist okkur það ekki raunhæfur möguleiki. Eftir þessar vangaveltur okkar hjóna fór Kristján svo að sækja börnin í barnepark en á meðan stökk ég í tölvuna á icelandair.is. Þar fann ég síðan alveg hræbillega miða í þann tíma sem passaði akkurat fyrir okkur. Við tókum síðan smá tíma til að ákveða hvað við ættum að gera en ekki gátum við beðið lengi því þetta var sífellt að breytast á netinu og auðvelt að missa af tilboðinu. Eftir að hafa hringt í pabba og svo í mömmu sem var stödd í Köben tókum við þá ákvörðun að skella okkur á þetta. Ég reyndi fyrst að athuga með miða á laugardeginum því þá hefðum við kanski náð brúðkaupinu hjá Ragnheiði og Óla en við rétt misstum af því og fengum miða á sunnudag.
Þegar við vorum búin að fá miðana hringdi ég í Óskar Einars því ég mundi að Gospelkórinn átti að syngja á afmælissamkomu Lindarinnar í Fíló á sunnudeginum. Ef flugið yrði á áætlun myndi ég líklega ná að syngja með. Pabbi ákvað að segja engum frá því að við værum að koma og láta þetta koma á óvart, þannig að Agla Marta systir hafði ekki hugmynd um þetta. Flugvélin lenti á tilætluðum tíma og ég var komin inn í Fíladelfíu tveimur mín. Áður en kórinn byrjaði að syngja. Þetta var mjög skemmtilegt því ég bara labbaði upp á svið og allir göptu af undrun. Agla Marta hélt að eitthvað hefði komið fyrir og ég bara komið í skyndi. Það var alveg stórkostlegt að fá að syngja með kórnum, þvílík vítamínsprauta fyrir mig!
Um kvöldið komum við síðan ömmu og Diddu á óvart sem vissu heldur ekkert. Agla Marta og Maggi og Gunnar og Úlla fóru á undan upp með Dagbjart Elí í bílstólnum. Amma og Didda skildu fyrst ekkert í þessu en amma þekkti síðan drenginn. Ég held þeim hafi bara fundist þetta nokkuð sniðugt.

M argréti Helgu og Jóel fannst alveg æðislegt að koma heim. Þegar við fyrst sögðum þeim frá þessu dansaði Jóel og söng: Við erum að fara til Íslands! Þegar þau komu á Karlagötuna til mömmu og pabba þar sem við gistum, hlupu þau upp og föðmuðu dótið og réðu sér varla fyrir kæti.

Næstu daga vorum við svo að heimsækja vini og vandamenn. Þótt dagskráin væri þétt náðist ekki einu sinni að hitta alla sem við hefðum viljað hitta. Það verðu bara að bíða þar til í sumar. Krökkunum fannst alveg frábært að hitta vini sína aftur og gaman að sjá hvað þau nutu þess að leika við börn sem skildu þau. Við tókum góða törn á þriðjudeginum og fórum í Hafnafjörðinn til tengdamömmu, á Vífilstaði þar sem Þórir afi hans Kristjáns dvelst og þar hittum við hann og Kæju ömmu. Svo komum við við í Núpalindinni. Þar var mikið fjör að leika við Steinar, Óskar og Sverri og dagurinn endaði á því að við ætluðum í sund og buðum Lilju frænku með. Sundhöllin reyndist nú síðan lokuð (enn eina ferðina!!) en það voru miklir fagnaðarfundir hjá frænkunum. Á skírdag fermdist Hjördís frænka og var okkur boðið í veislu af því tilefni. Þar náðum við að hitta næstum alla móðurfjölskylduna mína. Á fösdudaginn langa var kaffboð uppi á Holti hjá Steina afa og Írisi ömmu Kristjáns þar sem við hittum næstum allt móðurfólkið hans Kristjáns. Á laugardeginum var prógrammið nokkuð þétt. Kristján fór með krakkana í sund að hitta Gunna vin sinn og strákana hans á meðan ég fór og hitti saumaklúbbinn í morgun/hádegismat í nýja fína húsinu hennar Guðrúnar Laufeyjar. Þaðan lá svo leið mín beint í biskupsbústaðinn á Bergstaðarstræti þar sem við gömlu vinkonurnar úr Austó höfðum mælt okkur mót. Meirihluti okkar býr ekki á landinu og óvíst hvenær við getum aftur hist allar. Reyndar komst Eyrún síðan því miður ekki þar sem hún lagðist með einhverja pest. Ég fékk að sjá litla prinsinn hennar Löllu og sýndi auðvitað minn í leiðinni. Svo fórum við nánast beint í mat til Gígju og fjölskyldu og þar var svo sannarlega glatt á hjalla meðal smáfólksins sem og hins fullorðna.
Páskadagsmorgun hófst með dýrindis morgunverði að hætti móður minnar. Eitthvað var nú undarlegt við að litla frökenin vildi ekki borða og hafði ekki einu sinni lyst á páskaegginu. Skýringin kom síðan fljótlega í ljós þegar sú stutta sagðist þurfa að kasta upp. Hún var því heima með ömmu meðan ég, Kristján, Jóel og pabbi fórum í messu. Við Jóel fórum svo í sunnudagaskólann þar sem ég fékk að rifja upp gamla takta því það vantaði píanóleikara.
Að venju var matur hjá ömmu á Þórsgötunni þar sem allir voru mættir nema Siggi frændi sem staddur er í Afríku. Maggi mágur bauð svo til afmælisveislu um kvöldið en þá var smáfólkið orðið svo lúið að ég fór sem fulltrúi fjölskyldunnar.
Á annan í páskum fermdist svo Árni Gunnar frændi minn og þar var að sjálfsögðu veisla líka. Þar sem allur Kangakvartettinn var þar saman kominn tókum við lagið að ósk ömmu minnar og frænkna. Það var alveg óæft og óundirbúið en voða gaman og hljómaði held ég bara ágætlega.
Þriðjudaginn hófum við á því að fara til læknis til að fá heilbrigðisvottorð vegna atvinnuumsóknarinnar til Eþíópíu. Læknirinn sem við fengum tíma hjá reyndist svo vera bróðir Þórarins Björnssonar, nýfluttur heim fra Noregi. Lítið land þetta Ísland! Við skruppum svo upp á efri hæð heilsugæslunnar til að heilsa upp á Siggu ljósmóður og sýna henni Dagbjart Elí. Ég hef verið hjá henni í mæðravernd öll skiptin, reyndar bara hálfa síðustu meðgöngu af skiljanlegum orsökum.Auk þess var hún með okkur í heimaþjónustu þegar við áttum MH og hefur reynst okkur mjög vel.
Sðían var brunað í Hafnafjörðinn í lambalæri til tengdamömmu. Við borðuðum mikið af fiski og lambakjöti í þessari ferð sem var bara alveg frábært. Svo var endað á sundferð. Þær urðu nokkrar í þessari heimsókn- eitt af því sem við söknum mikið að heiman eins og allir Íslendingar búsettir erlendis, held ég. Mamma tók sér frí í vinnunni á miðvikud. eftir páska og MH og J nutu þess að vera með ömmu sinni. Kristján fór á fund við fyrrum vinnuvetendurna í bankanum en ég skrapp með DE á mömmumorgun til Möggu Sverris upp í Hallgrímskirkju. Það var voða gaman. Þar hitti ég auðvitað fyrrum samstarfsfólk mitt. Eftir það fór ég svo til að kveðja ömmu og Diddu. Um kvöldið fórum við svo í mat til tengdapabba og fjölskyldu. Þau höfðu verið fyrir norðan alla páskana svo við bara rétt náðum að hitta þau.

Eftir alveg frábæra heimsókn heim á Frón var komið að því að halda til baka til Noregs. Við fórum með morgunflugi til baka sem er nú alltaf jafn skemmtilegt eða þannig! Þetta gekk samt alveg svakalega vel með krakkana, báðar leiðir reyndar, tókum meira að segja flugrútuna á leiðinni heim til Íslands. Þau sváfu megnið af flugleiðinni öll þrjú þannig að svefninn ruglaðist lítið, fóru bara snemma í háttinn á fimmtudagskvöldið.

Við vorum síðan boðin í afmælisveislu á fimmtudeginum þegar við komum heim til Juniu Matheu Rustad Berget sem varð eins árs. Foreldrar hennar heita Geir og Ann Kristin og eru líka á leið til Eþíópíu á þessu ári. Það var gott fyrir krakkana að hafa eitthvað að hlakka til við komuna til Noregs. Ég var búin að hafa pínu áhyggjur af MH því þegar hún uppgötvaði á miðvikudeginum að við værum á leið út aftur varð hún alveg ómöguleg. Þetta hefur þó allt gengið mjög vel og þau bæði mjög sátt.

Föstudaginn tókum við svo í að jafna okkur eftir ferðina, nema Kristján þurfti auðvitað að fara í skólann. Ég leifði krökkunum bara að vera heima enda voru þau þreytt þótt þau hefðu farið snemma að sofa. Maður verður hálfruglaður á að vakna svona um miðja nótt.

Á laugardaginn fórum við í heillangan göngutúr. Gengum alla leið niður í bæ og skoðuðum Akershusslott. MH gekk næstum alla leiðina sjálf. Þetta voru amk. 7 km sem húm gekk, það er nú bísna mikið fyrir litla fætur. Veðrið var svo frábært, sól og blíða og nú er hitinn yfirleitt um 5°á morgnana og fer upp í 12° yfir daginn.

Á sunnudaginn fórum við svo í Íslendingamessu hjá Helga Hró í Nordberg sem var annar góður göngutúr fyrir litlu konuna. Hún er alveg ótrúlega dugleg að ganga. Við ákváðum samt sem áður í gær að fjárfesta í systkina kerru sem var á útsölu með góðum afslætti. Það gerir okkur kleyft að fara aðeins lengri ferðir nú þegar fer að vora. Getum þá kanski farið eitthvað í skóginn og upp í fjöll því það ganga lestir um allt hér. Við hugsum okkur svo bara að taka þess akerru með okkur því hún er svo nett og meðfærileg.

Í gær skiptum við hjónin svo um hlutverk, ég fór í skólann og Kristján var heima. Það var gestafyrirlesari frá ameríku að tala um hvernig er að vera kristniboðabarn eða TCK (ameríkanarnir hafa nú skammstafanir yfir allt!-s em merkir Third culture kid eða barn sem elst upp í fleiri ólíkum menningarheimum) og hvernig á að ala upp börn við þesar aðstæður. Það var mjög gaman og gagnlegt að hlusta á hann.

Í morgun var ég með allt gengið á heilsugæslunni þar sem DE var í 6 v. Skoðun. Hann varð reyndar tveggja mán. í gær en við vorum á Íslandi þegar hann átti tíma. Ann Kristin var líka að fara með Juniu í skoðun svo hún var samferða mér og hjálpaði mér með krakkana. Ég fór bara með DE í magapokanum og hin tvö í nýju kerrunni. Þetta er hin besta líkamsrækt!
Núna eru þau svo í barnepark, úti að leika í góða veðrin. Það verður hlýrra með hverjum deginum.

Tímitil kominn fyrir húsmóðurina að setja í vél og ganga frá eftir Íslandsferðina- hefur ss. litlu komið í verk ennþá!

Gullkorn:

Jóel að biðja Faðir vor: ......þitt er ríkið mátturinn og dýrðin að eilífu punktur og pasta!