Já, við sem sagt skelltum okkur heim um páskana. Þetta var mjög svo skyndileg ákvörðun þar sem við höfðum alls ekki hugsað okkur að koma neitt heim fyrr en í sumar, sáum ekki fram á að það yrði mögulegt fjárhagslega. Svo var það hér á föstudaginn fyrir pálmasunnudag að við litum út um gluggann á næstum tóm bílastæðin. Þeir bílar sem voru eftir var verið að pakka áður en eigendurnir leggðu í hann. Norðmenn flýja ss. allir upp til fjalla á páskum og Osló verður eins og draugabær! Allt í einu fengum við svo svakalega löngun til þess að skreppa bara heim á klakann. Ég hafði nú oft leitt hugann að því að það gæti verið gaman þar sem við komumst ekki heim um jólin en eins og fyrr sagði sýndist okkur það ekki raunhæfur möguleiki. Eftir þessar vangaveltur okkar hjóna fór Kristján svo að sækja börnin í barnepark en á meðan stökk ég í tölvuna á icelandair.is. Þar fann ég síðan alveg hræbillega miða í þann tíma sem passaði akkurat fyrir okkur. Við tókum síðan smá tíma til að ákveða hvað við ættum að gera en ekki gátum við beðið lengi því þetta var sífellt að breytast á netinu og auðvelt að missa af tilboðinu. Eftir að hafa hringt í pabba og svo í mömmu sem var stödd í Köben tókum við þá ákvörðun að skella okkur á þetta. Ég reyndi fyrst að athuga með miða á laugardeginum því þá hefðum við kanski náð brúðkaupinu hjá Ragnheiði og Óla en við rétt misstum af því og fengum miða á sunnudag.
Þegar við vorum búin að fá miðana hringdi ég í Óskar Einars því ég mundi að Gospelkórinn átti að syngja á afmælissamkomu Lindarinnar í Fíló á sunnudeginum. Ef flugið yrði á áætlun myndi ég líklega ná að syngja með. Pabbi ákvað að segja engum frá því að við værum að koma og láta þetta koma á óvart, þannig að Agla Marta systir hafði ekki hugmynd um þetta. Flugvélin lenti á tilætluðum tíma og ég var komin inn í Fíladelfíu tveimur mín. Áður en kórinn byrjaði að syngja. Þetta var mjög skemmtilegt því ég bara labbaði upp á svið og allir göptu af undrun. Agla Marta hélt að eitthvað hefði komið fyrir og ég bara komið í skyndi. Það var alveg stórkostlegt að fá að syngja með kórnum, þvílík vítamínsprauta fyrir mig!
Um kvöldið komum við síðan ömmu og Diddu á óvart sem vissu heldur ekkert. Agla Marta og Maggi og Gunnar og Úlla fóru á undan upp með Dagbjart Elí í bílstólnum. Amma og Didda skildu fyrst ekkert í þessu en amma þekkti síðan drenginn. Ég held þeim hafi bara fundist þetta nokkuð sniðugt.
M argréti Helgu og Jóel fannst alveg æðislegt að koma heim. Þegar við fyrst sögðum þeim frá þessu dansaði Jóel og söng: Við erum að fara til Íslands! Þegar þau komu á Karlagötuna til mömmu og pabba þar sem við gistum, hlupu þau upp og föðmuðu dótið og réðu sér varla fyrir kæti.
Næstu daga vorum við svo að heimsækja vini og vandamenn. Þótt dagskráin væri þétt náðist ekki einu sinni að hitta alla sem við hefðum viljað hitta. Það verðu bara að bíða þar til í sumar. Krökkunum fannst alveg frábært að hitta vini sína aftur og gaman að sjá hvað þau nutu þess að leika við börn sem skildu þau. Við tókum góða törn á þriðjudeginum og fórum í Hafnafjörðinn til tengdamömmu, á Vífilstaði þar sem Þórir afi hans Kristjáns dvelst og þar hittum við hann og Kæju ömmu. Svo komum við við í Núpalindinni. Þar var mikið fjör að leika við Steinar, Óskar og Sverri og dagurinn endaði á því að við ætluðum í sund og buðum Lilju frænku með. Sundhöllin reyndist nú síðan lokuð (enn eina ferðina!!) en það voru miklir fagnaðarfundir hjá frænkunum. Á skírdag fermdist Hjördís frænka og var okkur boðið í veislu af því tilefni. Þar náðum við að hitta næstum alla móðurfjölskylduna mína. Á fösdudaginn langa var kaffboð uppi á Holti hjá Steina afa og Írisi ömmu Kristjáns þar sem við hittum næstum allt móðurfólkið hans Kristjáns. Á laugardeginum var prógrammið nokkuð þétt. Kristján fór með krakkana í sund að hitta Gunna vin sinn og strákana hans á meðan ég fór og hitti saumaklúbbinn í morgun/hádegismat í nýja fína húsinu hennar Guðrúnar Laufeyjar. Þaðan lá svo leið mín beint í biskupsbústaðinn á Bergstaðarstræti þar sem við gömlu vinkonurnar úr Austó höfðum mælt okkur mót. Meirihluti okkar býr ekki á landinu og óvíst hvenær við getum aftur hist allar. Reyndar komst Eyrún síðan því miður ekki þar sem hún lagðist með einhverja pest. Ég fékk að sjá litla prinsinn hennar Löllu og sýndi auðvitað minn í leiðinni. Svo fórum við nánast beint í mat til Gígju og fjölskyldu og þar var svo sannarlega glatt á hjalla meðal smáfólksins sem og hins fullorðna.
Páskadagsmorgun hófst með dýrindis morgunverði að hætti móður minnar. Eitthvað var nú undarlegt við að litla frökenin vildi ekki borða og hafði ekki einu sinni lyst á páskaegginu. Skýringin kom síðan fljótlega í ljós þegar sú stutta sagðist þurfa að kasta upp. Hún var því heima með ömmu meðan ég, Kristján, Jóel og pabbi fórum í messu. Við Jóel fórum svo í sunnudagaskólann þar sem ég fékk að rifja upp gamla takta því það vantaði píanóleikara.
Að venju var matur hjá ömmu á Þórsgötunni þar sem allir voru mættir nema Siggi frændi sem staddur er í Afríku. Maggi mágur bauð svo til afmælisveislu um kvöldið en þá var smáfólkið orðið svo lúið að ég fór sem fulltrúi fjölskyldunnar.
Á annan í páskum fermdist svo Árni Gunnar frændi minn og þar var að sjálfsögðu veisla líka. Þar sem allur Kangakvartettinn var þar saman kominn tókum við lagið að ósk ömmu minnar og frænkna. Það var alveg óæft og óundirbúið en voða gaman og hljómaði held ég bara ágætlega.
Þriðjudaginn hófum við á því að fara til læknis til að fá heilbrigðisvottorð vegna atvinnuumsóknarinnar til Eþíópíu. Læknirinn sem við fengum tíma hjá reyndist svo vera bróðir Þórarins Björnssonar, nýfluttur heim fra Noregi. Lítið land þetta Ísland! Við skruppum svo upp á efri hæð heilsugæslunnar til að heilsa upp á Siggu ljósmóður og sýna henni Dagbjart Elí. Ég hef verið hjá henni í mæðravernd öll skiptin, reyndar bara hálfa síðustu meðgöngu af skiljanlegum orsökum.Auk þess var hún með okkur í heimaþjónustu þegar við áttum MH og hefur reynst okkur mjög vel.
Sðían var brunað í Hafnafjörðinn í lambalæri til tengdamömmu. Við borðuðum mikið af fiski og lambakjöti í þessari ferð sem var bara alveg frábært. Svo var endað á sundferð. Þær urðu nokkrar í þessari heimsókn- eitt af því sem við söknum mikið að heiman eins og allir Íslendingar búsettir erlendis, held ég. Mamma tók sér frí í vinnunni á miðvikud. eftir páska og MH og J nutu þess að vera með ömmu sinni. Kristján fór á fund við fyrrum vinnuvetendurna í bankanum en ég skrapp með DE á mömmumorgun til Möggu Sverris upp í Hallgrímskirkju. Það var voða gaman. Þar hitti ég auðvitað fyrrum samstarfsfólk mitt. Eftir það fór ég svo til að kveðja ömmu og Diddu. Um kvöldið fórum við svo í mat til tengdapabba og fjölskyldu. Þau höfðu verið fyrir norðan alla páskana svo við bara rétt náðum að hitta þau.
Eftir alveg frábæra heimsókn heim á Frón var komið að því að halda til baka til Noregs. Við fórum með morgunflugi til baka sem er nú alltaf jafn skemmtilegt eða þannig! Þetta gekk samt alveg svakalega vel með krakkana, báðar leiðir reyndar, tókum meira að segja flugrútuna á leiðinni heim til Íslands. Þau sváfu megnið af flugleiðinni öll þrjú þannig að svefninn ruglaðist lítið, fóru bara snemma í háttinn á fimmtudagskvöldið.
Við vorum síðan boðin í afmælisveislu á fimmtudeginum þegar við komum heim til Juniu Matheu Rustad Berget sem varð eins árs. Foreldrar hennar heita Geir og Ann Kristin og eru líka á leið til Eþíópíu á þessu ári. Það var gott fyrir krakkana að hafa eitthvað að hlakka til við komuna til Noregs. Ég var búin að hafa pínu áhyggjur af MH því þegar hún uppgötvaði á miðvikudeginum að við værum á leið út aftur varð hún alveg ómöguleg. Þetta hefur þó allt gengið mjög vel og þau bæði mjög sátt.
Föstudaginn tókum við svo í að jafna okkur eftir ferðina, nema Kristján þurfti auðvitað að fara í skólann. Ég leifði krökkunum bara að vera heima enda voru þau þreytt þótt þau hefðu farið snemma að sofa. Maður verður hálfruglaður á að vakna svona um miðja nótt.
Á laugardaginn fórum við í heillangan göngutúr. Gengum alla leið niður í bæ og skoðuðum Akershusslott. MH gekk næstum alla leiðina sjálf. Þetta voru amk. 7 km sem húm gekk, það er nú bísna mikið fyrir litla fætur. Veðrið var svo frábært, sól og blíða og nú er hitinn yfirleitt um 5°á morgnana og fer upp í 12° yfir daginn.
Á sunnudaginn fórum við svo í Íslendingamessu hjá Helga Hró í Nordberg sem var annar góður göngutúr fyrir litlu konuna. Hún er alveg ótrúlega dugleg að ganga. Við ákváðum samt sem áður í gær að fjárfesta í systkina kerru sem var á útsölu með góðum afslætti. Það gerir okkur kleyft að fara aðeins lengri ferðir nú þegar fer að vora. Getum þá kanski farið eitthvað í skóginn og upp í fjöll því það ganga lestir um allt hér. Við hugsum okkur svo bara að taka þess akerru með okkur því hún er svo nett og meðfærileg.
Í gær skiptum við hjónin svo um hlutverk, ég fór í skólann og Kristján var heima. Það var gestafyrirlesari frá ameríku að tala um hvernig er að vera kristniboðabarn eða TCK (ameríkanarnir hafa nú skammstafanir yfir allt!-s em merkir Third culture kid eða barn sem elst upp í fleiri ólíkum menningarheimum) og hvernig á að ala upp börn við þesar aðstæður. Það var mjög gaman og gagnlegt að hlusta á hann.
Í morgun var ég með allt gengið á heilsugæslunni þar sem DE var í 6 v. Skoðun. Hann varð reyndar tveggja mán. í gær en við vorum á Íslandi þegar hann átti tíma. Ann Kristin var líka að fara með Juniu í skoðun svo hún var samferða mér og hjálpaði mér með krakkana. Ég fór bara með DE í magapokanum og hin tvö í nýju kerrunni. Þetta er hin besta líkamsrækt!
Núna eru þau svo í barnepark, úti að leika í góða veðrin. Það verður hlýrra með hverjum deginum.
Tímitil kominn fyrir húsmóðurina að setja í vél og ganga frá eftir Íslandsferðina- hefur ss. litlu komið í verk ennþá!
Gullkorn:
Jóel að biðja Faðir vor: ......þitt er ríkið mátturinn og dýrðin að eilífu punktur og pasta!