Helga Vilborg og Stjáni Sverris

þriðjudagur, maí 24, 2005

Fjölskyldan sameinuð

24. maí 2005

Nú ætla ég að reyna að skrifa aðeins oftar svo þetta verði ekki svona ofboðslegar langlokur. Það nennir örugglega enginn að lesa þetta (jú Ágústa mín, takk fyrir kommentið – þúert nú alveg örugglega súpermamma sjálf, ert bara svo mikið súper!!)

Allavega þá er Kristján kominn heim og það var nú svei mér gott að fá hann aftur. Sunnudagurinn leið nú bara vel, gott veður og hægt að vera úti að leika en ég var orðin óttalega lúin (skrýtið- en með börnin og drollandi á næturnar, haldið það sé nú).
Ég steinsofnaði auðvitað með krökkunum og vaknaði alveg kolrugluð. Leit á klukkuna og sá að hún var hálftíu og hélt einhvernvegin að það væri kominn morgunn. Skildi ekki í því að börnin svæfu öll ennþá og Kristján ekki kominn. Hugsaði að hann hefði kanski reynt að hringja bjöllunni og ég ekki heyr og hefði potað sér niður á heimavistinni. Velti fyrir mér að hringja í hann og tékka á honum þegar það fór að renna upp fyrir mér að það væru nú kanski ekki alveg kominn morgunn heldur væri kl. Hálftíu að kvöldi! Það tók mig alveg hálftíma að ná áttum. Þvílíkt og annað eins! Hef nú bara aldrei lent í neinu svona. Ég sem ætlaði að hafa það huggulegt, horfa á myndina sem ég keypti mér og svona. En nú vaknaði Dagbjartur Elí svo við kósuðum okkur aðeins saman tvö og svo sofnaði hann um ellefu. Nú er hann loksins kominn í rúm. Vaggan var löngu orðin of lítil. Kjersti og Lars hérna niðri lánuðu okkur rúm og Lars skellti því upp fyrir mig á laugardagskvöldið. Hann sefur eins og lamb alla nóttina núna. Frá 11- 7 ekkert smá æðislegt!

Kristján kom um hálftólf, lúinn eftir mikla keyrslu og svefnlausar nætur. Svaf á svona þunnri tjalddýnu á hörðu gólfi síðustu tvær næturnar, Var annars mjög ánægður með ferðina og tók dáldið af myndum sem einhverjir heppnir fá kanski einhverntíma að sjá!
Þetta virkar ekki alveg nógu vel með myndasíðuna okkar. Tekur svo langan tíma að setja inn myndir því tengingin er of hæg eða eitthvaðsvoleiðis. Annars læt ég Kristján alveg um þetta. Ég fæ kanski einhvern til að hjálpa mér að gera síðuna aðeins skemmtilegri í sumar.

Krakkarnir voru rosa glöð að hitta pabba þegar þau vöknuðu og knúsuðu hann í bak og fyrir og við kúrðum aðeins öll fimm áður enn við fórum á fætur.

Seinnipartinn fengum við svo tvær fjölskyldur, Fagermoen og Martinsen í mat. Það var mjög gaman. Þau eru með börn (stelpur) á svopuðum aldri og við. Það vara auðvitað þétt á þingi en bara voða huggulegt svo fórum við bara aðeins út að leika með krakkana í góða veðrinu.

Eiginlega ætti maður að vera úti í sólinni, verða soldið brúnn fyrir heimferðina, ótrúlegt að það eru ekki nema 3 vikur þar til við komum! (sem er bæði gleðilegt og pínu sorglegt að þurfa að kveðja alla hér)

Kanski ég skelli mér aðeins út.....


Gullkorn:
Jóel sat á klósettinu og nýbúinn að pissa:
“Mamma, hrista litla garminn (segi þetta við hann stundum)- hann er eins og lítill krkókódíll!”

sunnudagur, maí 22, 2005

viðbætir og leiðrétting

Það stendur á einum stað í síðustu færslu litla fólinu en á að vera fólkinu.......

varð líka að bæta því viða litli stubbi minn er búinn að sofa bleyjulaus þrjár nætur og ekkert mál. Mér finnst hann svo duglegur- varð bara að bæta þessu við!

Melodi grand prix eða ídúúl????

Þá er Eurovision eða melodi grand prix eins og það heitir hér afstaðið og við ekki með- aldrei þessu vant! Ef ég á að segja mína skoðun fannst mér íslenska lagið ágætt (Þorvaldur hefur samt gert margt miklu betra) og stelpurnar skiluðu sínu mjög vel. Áttu alveg skilið að fara áfram og vel það en ég skil samt að við komumst ekki áfram því lagið/atriðið var bara aðeins of líkt mörgum öðrum lögum í keppninni, dáldil klisja, ekkert nýtt eða öðruvísi. Svo má auðvitað kenna því um að við höfum ekki átt nógu margar vinaþjóðir í forkeppinni- en bíddu við, meiga ekki allir sem taka þátt kjósa svona eins og í lokakeppninni? Þá er það allavega ekki ástæðan, ég hallast frekar að fyrri kenningu minni. Ég er búin að bíða eftir því í mörg ár að einhver semji Eurovisionlag og noti þjóðlagaarfinn okkar sem inspirasjon (komið fram yfir miðnætti og orðin farin að detta út...) Nota fimmundasönginn, langspil, eitthvað þjóðlegt í bland við nýja strauma. Vera pínu öðruvísi og skera sig úr svo eftir verði tekið. En það verður auðvitað að vera vel gert ef það á að virka.
Annars var ég nokkuð sannspá varðandi stigagjöfina okkar í ár, giskaði að það færu 10 stig frá okkur til Dananna og 12 hingað, svona miðað við þá umræðu sem ég hef heyrt að heiman.

En nóg um Eurovision- ég er líka bilaði Íslendingurinn sem fylgist með Melodi grand prix. Þetta þykir agalega halló hér og lítil stemmning. Fellur líka alveg í skuggan af Idolinu norska sem kláraðist í gær (eða Ídúúl ens og það er svona uþb borið fram á máli hérlendra)

En þar sem þetta blogg á nú fyrst og fremst að vera dagbók um það sem á daga fjölskyldunnar drífur er best að koma sér að efninu.

Ég er ss. ennþá ein, og það hefur nú bara gengið ágætlega. Margrét Helga og Jóel eru búin að vera voða stillt og góð og nóg hjá okkur að gera. Á fimmtudaginn var okkur boðið í graut hjá Torill og dætrum og svo léku krakkarnir sé heillengi þar í leikherberginu fína. Seinnipartinn kom svo Ragnheiður við með pizzu og ég horfði svo á Euro - semi finalen með Kjersti sem býr á hæðinni fyrir neðan, hún var líka grasekkja í vikunni eins og margar frúrnar hér á lóðinni um þessar mundir. Í gær fengum við svo Ann Kristin og Juniu í heimsókn eftir að krakkarnir komu heim úr parken og þær borðuðu með okkur. Svo bökuðum við pönnukökur og buðum Kjersti og Simen litla í kaffi. Krakkarnir léku sér aðeins hér fyrst en fóru svo aðeins niður að horfa á barnatímann. Þá var kominn dáldill hasar í litla fólkið svo það var ágætt að róa aðeins niður. Í gærkvöld var mér svo boðið í Idol/stelpuboð til Kristin Malmin. Það var voða huggulegt. Kjersti lánaði mér labrabtæki sem þau eiga sem er líka hægt að nota sem svona babysitter (hlusta eftir krökkunum) og drífur í gegnum öll húsin á lóðinni. Hún vissi líka af krökkunum svo tók ég bara Dagbjart Elí með mér sem svaf eins og lítið lamb mest allt kvöldið. Þegar heim kom kíkti ég svo aðeins á netið og lenti þar á spjalli við Magnús mág minn sem var staddur í Gospelkórpartíi. Ég reyndi svo að ná skypesambandi en netið datt alveg niður hjá mér svo það gekk ekki. Veit ekki alveg hvað er í gangi því það sama gerðist núna. En allavega. Ég endaði með að hringja í Öglu Mörtu í gemsann og þau sungu fyrir mig þessar elskur.

Takk fyrir! Þið eruð æði og það var alveg frábært að heyra í ykkur!

Nú stendur til að fylla Laugardalshöllina í haust ntt. 3. sept. Á vegum Einars Bárðarsonar/concert og endurtaka vortónleikana. Það er auðvitað alveg frábært og bænarefni að það takist vel og Guð fái að snerta við enn fleirum í gegnum þessa mögnuðu tónlist. Þá verð ég víst kominn enn lengra í burtu en ég verð með í andanum!

Í dag var húsmóðirin á með fullt prógram til að stytta litla fólinu stundir. Þar sem það rigndi eins og hellt væri úr fötu í morgun leifði ég krökkunum að horfa á teiknimynd eftir morgunmatinn. Svo ákváðum við nú að fara aðeins út að viðra okkur. Jóel var voða duglegur að fara í pollagallann en fröken fix hér neitaði alfarið og sagði að hún gæti sko alveg farið út eins og hún var klædd, í pilsi sokkabuxum, strigaskóm og flíspeysu. Ég sagði allt í lagi þá en við förum ekki til baka og það þíðir ekkert að væla þegar þú ert orðin blaut (ég ákvað vísvitandi að taka ekki pollagallann hennar með). Nei, nei hún ætlaði sko ekkert að skæla og hún myndi hvort sem er ekkert verða blaut.Við röltum okkur svo upp í leikskólann við Sinsenkirkju. Þar byrjaði hún á að setjast á rugguhest og varð voða skrítin á svipin þegar rassinn blotnaði en hún sagði ekkert og hélt bara áfram. Stóð svo í rólunni og söng hástöfum. Svo langaði hana voða mikið til að renna sér og bað mig að lyfta sér upp því það var allt svo blautt en ég sagði eins og ég vissi að hún gæti þetta alveg sjálf og svo stóð hún heillengi í rennibrautinni áður en hún áræddi að renna sér og varð fyrir vikið enn blautari. Hún kvartaði samt ekkert. Það var alveg dýrlegt að fylgjast með henni. Svo reyndar þurftum viða að fara heim vegna smá slyss hjá Jóel (það er dáldið erfitt að vera í pollagalla úti á róló þegar maður þarf svo að kúka....). Þá hélt hún nú kanski að það væri dáldið betra að fara í pollagalla...Held að þarna hafi hún lært smá lexíu, vonandi.

Svo voru bakaðar bollur, þær eru ægilega krúttlegar í laginu. Svo fengu þau að horfa á Nemó og borða smá snakk og saft með. Svo er búið að púsla og spila og lesa. Meðan þau horfðu á Nemó sat ég hjá þeim í sófanum með Dagbjart Elí í fanginu. Ég var orðin hálflúin svo ég hallaði mér aðeins aftur en það var sá litli ekki alveg sáttur með og reisti sig upp hvað eftir annað því hann var sko líka að horfa á Nemó! Byrjar snemma! Það er svo gaman að fylgjast með honum núna. Hann spjallar og hjalar og hlær, skoðar á sér tærnar og svo er hann farinn að sýna leikföngum mikinn áhuga. Getur líka orðið haldið á þeim og nagað. Svo slefar hann og slefar. Ég held að það sé ekki langt í tennurnar, ef hann er eitthvða á sama róli og systkini hans. Hann er svoddan draumabarn að það er ekki hægt að hugsa sér það betra, alveg ótrúlega rólegur og alltaf svo glaður og kátur.

Nú er klukkan að verða hálfþrjú og ég enn á fótum. Sofnaði reyndar með krökkunum í kvöld alveg einn og hálfan tíma áður en ég fór niður að horfa á Eurovision. Svona er þetta þegar ég hef ekki minn ektamann til að reka mig í rúmið. Ég svoddan óttalegur næturdrollari. Skilst reyndar að ég eigi ekki langt að sækja það. Ég vakti líka allar nætur sem ungabarn foreldrum mínum til mikillar gleði og ánægju! Kanski það hafi lagt línurnar fyrir lífstíð!

En nú held ég samt ég verði að fara í háttinn (spurning hvort ég sofni strax, alltaf freistandi að kíkja í bók eða blað...) ég á reyndar eftir að skipuleggja morgundaginn. Það verður að gera eitthvað til að láta daginn ekki enda í slagsmálum! Vona að það verði aðeins betra útiveður á morgun. Er líka farin að hlakka til að fá Kristján minn heim. Þetta hefur gengið vel en það verður gott þegar hann kemur aftur. Jóel saknar pabba líka alveg voðalega og spyr stöðugt hvenær hann komi.

En nú segi ég góðanótt
Gullkorn:

MH: Mamma ég þarf að ræða aðeins við þig um sumarið. Ég furt ekki að nota barnabílstól!

(tilkynnti líka ömmu og afa að barnabílstóllinn yrði nú alveg óþarfur í sumar þar sem hún væri orðin svo "stór stúlka"!)

miðvikudagur, maí 18, 2005

Grasekkja

18. maí

Ég ætla að byrja á því að óska kórfélögunum mínum heima til hamingju með nýafstaðna tónleika. Ég þarf ekki að spyrja, veit að það hefur verið frábært. Mig dreymdi nú meira að segja í nótt að ég hefði verið að syngja með. Kórinn var að syngja “Don´t cry” en ég grét nú samt og grét í draumnum. Ég fæ reyndar alltaf tár í augun þegar ég hlusta á þetta lag. Það fjallar um upprisuna og er alveg ótrúlega sterkt.

Eins og titillinn bendir til er ég orðin grasekkja og verð það fram á sunnudag. Það var eitthvað hálf erfitt að kveðja Kristján. Hann hefur nú farið um helgi upp í Skóg og svona en þetta er dáldið lengra í burtu og fleiri dagar og svo er maður nú í útlöndum! Margrét Helga sagði strax í gær að hún myndi sakna pabba svo mikið og í morgun sagði hún að það væri svo sorglegt að pabbi væri að fara. Hún er mjög dugleg og tekur því mjög alvarlega sem pabbi baða hana um að vera dugleg að hjálpa mömmu. Í morgun keyrði hún Jóel í regnhlifakerrunni næstum alla leið í barneparken, upp brekkuna og allt og talaði auðvitað við hann eins og hún væri 10 árum eldri!. Jóel er orðinn svo duglegur. Hann lætur alltaf vita þegar hann þarf á klósettið og bjargar sé meira að segja sjálfur hér heima. Í morgun vaknaði hann með alveg þurra bleyju og sagði Dagbjarti Elí að hann mætti eiga bleyjurnar hans. Okkur finnst hann ekkert smá duglegur.

Á mánudaginn fórum við til Ragnheiðar og Óla og fengum þessa líka ljúffengu hreindýrasteik. Ferðalagið fram og til baka var nú hins vegar dáldið skrautlegt. Við ákváðum að taka bara T- banen (neðanjarðarlestina) í stað þess að taka strætó og T bane. Það tekur pínu lengri tíma en mun þægilegra með alla krakkana. Á leiðinni upp í Norberg fórum við tveimur stoppustöðum of langt svo við þurftum að fara til baka og í aðra lest sem færði okkur á réttan áfanga stað. Á heimleiðinni ákváðum við að prófa að skipta ekki um lest en fara úr á stað sem á lestarkortinu leit út fyrir að vera mjög nálægt heimili okkar. Þegar við komum út komumst við að öðru því það tók okkur um 40 mín að ganga heim. Það hafðist nú samt allt þrátt fyrir brekkur og þungar kerrur.

Svo er það nú “selveste 17. maí”. Þá var nú mikið um dýrðir. Dagurinn byrjaði á fánahyllingu, norska þjóðsöngnum og “17. maí tog” (skrúðgöngu) á skólalóðinni kl. 8:00 svo var farið inn í skóla og snæddur dýrindis hátíðar morgunverður. Flestar konurnar og margir af körlunum voru í bunad (norskum þjóðbúningi). Það eru svo margir mismunandi búningar og gaman að sjá, allvega fyrir mig sem hef mikinn áhuga á svona hlutum. Safnaði nú þjóðbúningadúkkum og svona í den. Búningarnir eru mismunandi eftir því hvaðan í landinu fólkið er upprunið. Eftir morgunverðinn ákváðum við að kíkja í bæinn. Við vorum samferða Tom Erik Hamre og Mariu dóttur hans en mamman, Gunn Maritt sem er ljósmóðir var að taka á móti þjóðhátíðarbörnum. Það var mikið um dýrðir í bænum. Allir uppábúnir í sínu fínasta pússi ef ekki í bunad. Sem betur fer rættist úr veðrinu og sólin skein þótt það væri dálítið kaldur vindur. Við gengum að konungshöllinni þar sem Margrét Helga og Jóel vildu endilega sjá prinsana og prinsessurnar. Konungurinn var fjarri góðu gamni vegna veikinda. Við komumst nú ekki mjög nálægt höllinni vegna mannfjöldans en þau voru hæst ánægð með að sjá glitta í konungsfjölskylduna sem stóð á hallarsvölunum og veifaði. Þau veifuðu að sjálfsögðu á móti!
Norðmenn eiga margar góðar lúðrasveitir sem þrömmuðu um bæinn. Flestir skólanna eru með sveit og svo rákumst við líka á herlúðrasveitina, þeir voru mjög flinkir.
Frá hallargarðinum var svo förinni heitið á kaffisölu í Misjonssalen þar sem við fengum okkur pylsu og kökusneið. Þegar klukkan var orðin 2 var fjölskyldan öll orðin frekar lúin svo við fórum heim og lögðum okkur öll sömul. Krakkarnir höfðu sofnað seint kvöldið áður þar sem við vorum í heimsókn og svo voru þau vakin eldsnemma til að fara í 17. maí morgunverðinn. Þau sváfu alveg til hálfsex. Jóel skreið meira að segja sjálfur upp í rúmið sitt, breiddi ofan á sig og steinsofnaði!.
Klukkan sex fórum við svo niður í íþróttahús þar sem ég átti að syngja í 17. maí veislu. Þar var mest eldra fók en þó eitthvað blandað. Þar var heilmikið prógram ma. Ljóðlestur, drama, munnhörpuleikur, myndasýning frá Kína o svo söng ég tvö íslensk þjóðlög og svo lagið sem ég samdi í sumar. Egil Sjaastad sem er kennari hér er búinn að þýða textann minn yfir á norsku. Svo var boðið upp á pizzu og ís. Mér hefur nú oft gengið betur að syngja en þetta slapp held ég. Ég er líka búin að vera með kvef og hálsbólgu í 7 vikur núna.
Krakkarnir voru í svakastuði enda búin að sofa vel um eftirmiðdaginn. Þau voru nú samt þreytt þegar heim var komið.

Jæja, nú bara bið ég og vona að allt gangi vel næstu daga. Kristján ætlar að taka ferðalagið upp á video svo við fáum aðeins að sjá. Við vorum nú að spá á tímabili að fara öll en prógrammið var ekki mjög fjölskylduvænt. Mikil keyrsla og mismunandi svefnstaðir þannig að það hefði ekki einu sinni verið hægt að koma krökkunum í rúmið á skikkanlegum tíma.
Torill er líka í sömu sporum þannig að við finnum kanski upp á einhverju sniðugu fyrir krakkana.

En nóg í bili....

sunnudagur, maí 15, 2005

Bongó blíða!!!

15. maí

Jæja, eins gott að koma sér að skrifum ef þetta á ekki að verða jafnlöng pása og síðast.
Söngleikurinn gekk rosalega vel. Við vorum öll mjög ánægð og þeir sem á horfðu líka. A.m.k. þeir sem ég talaði við. Kristján tók þetta upp en við höfum ekkert horft á þetta ennþá. Krakkarnir fengu að koma með og horfa á og fylgdust með öllu af athygli. Margrét Helga sagði eftir á við mig að hún hefði verið alveg bálreið við manninn sem var að tala við mig. Ég held hún hafi átt við Jesú þar sem stærstur partur söngleiksins fer fram við brunninn og er samtal Jesú og samversku konunnar. Svo var hún ekki alveg sátt við hvað allir voru vondir við mömmu í leikritinu. Ég reyndi að útskýra þetta fyrir henni og sagði henni söguna aftur og aftur. Svo reyndi hún að syngja línur úr söngleiknum og biður mig að syngja og segja mér þetta með Jakobsbrönnen. Hún ss. tók greinilega vel eftir. Jóel var orðinn dáldið þreyttur þegar líða tók á sýninguna og hallaði sér aðeins fram á borðið sem hann sat við. Honum fannst samt held ég gaman að fá að vera með. Dagbjartur Elí steinsvaf yfir öllu saman í vagninum, enda búinn að sjá þetta allt, búinn að vera með á æfingum og þám generalprufu. Ég held að skólastjórinn vilji endilega reyna að hafa aðra sýningu í sambandi við skólalokin hjá biblíuskólanum. Það væri voða gaman þar sem það hefur heilmikil vinna verið lögð í þetta. En það kemur í ljós.
Á fimmtudaginn fórum við Dagbjartur Elí á heilsugæsluna þar sem hann fór í sína síðustu skoðun hér. Skrítið að næsta skoðun, 5 mán verður á Íslandi. Það er ekki nema mánuður í dag þar til við komum heim. Eiginlega finnst mér núna dáldið sorglegt að vera að fara héðan. Við erum búin að kynnast mikið af góðu fólki og hafa það mjög gott hér svo það verður ekki auðvelt að kveðja. En þetta er víst nokkuð sem við verðum að lifa við næstu árin, að kveðja og kynnast nýju fólki og aðstæðum afturog aftur.
En áfram með heilsugæslusöguna. DE var ekki alveg í sínu besta formi, hrikalega kvefaður og með gröft í augunum og greinilega ekki alveg saddur því hann var alveg bálreiður allan tíman, svo átti að sprauta hann í ofnálag. En þetta gekk nú allt saman vel þó ég efast um að mælingarnar á honum hafi verið mjög nákvæmar. Þessi rólyndis drengur sem venjulega er skælbrosandi eða skellihlæjandi getur orðið alveg svakalega reiður ef því er að skipta, vantar ekki í hann skapið frekar en systkini hans! Hann fékk sem betur fer ekki hita af sprautunni en svaf nokkuð vel seinnipartinn. Annað sem dró til tíðinda í þessari ferð var að ég ætlaði að vera svo ægilega sniðug og kom við á bensínstöð á leiðinni til að setja loft í dekkin á kerrunni. Það gekk vel með fyrstu tvö dekkin en þriðja dekkið tókst mér að hvellsprengja svo það fór í tætlur (var reyndar orðið lélegt fyrir) því var nú síðan bjargað í gær þar sem við fengum nýtt dekk í Baby shop.

Á föstudaginn var ég eitthvað ægilega þreytt. Held að þreytan og spennufallið eftir miðvikudaginn hafi verið að koma út. Jóel fór í leikskólann bleyjulaus og gekk bara vel. Fór á klósettið þar og kom alveg þurr heim. Þetta gengur allt vonum framar þótt það verði nú slys inn á milli ef mikið er um að vera.

Í gær var svo yndilsegt veður að við ákváðum að fá okkur siglingu út í Bygdöy. Við komum eins og fyrr sagði við ´Bbi shop niður í bæ til að kaupa dekk. Afgreiðslustúlkan skemmti sér vel yfir þessari fjölskyldu, spurði fyrst undrandi hvort við ættum öll þessi börn og spurði svo hvort þau töluðu dialekt, hélt kanski að þau talaði sogndalsdialekt en við fræddum hana um að þetta væri nú bara íslenska. Þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem ég er spurð hvaða dialekt þetta sé. Held að ástæðan sé sú að börnin eru farin að syngja íslenskuna dáldið! Einu sinni var ég spurð hvort við værum að tala samísku!
En hvað um það. Við fengum fína siglingu út í Bygdöy þar sem byrjað var á að kaupa ís þar sem systkinin voru búin að vinna sér það inn (eru með “verðlaunaspjöld” sem þau safna límmiðum á og þegar búið er að fylla í alla reytina eru verðlaun sem að þessu sinni var ís) Svo fórum við á Huk badestrand þar sem við nutum veðurblíðunnar og krakkarnir busluðu í sjónum. Ekkert smá æðislegt. Mér tókst að brenna á öxlunum enda orðin næpuhvít eftir veturinn. Ég er nú samt aðeins að verða smá útitekin núna.
Þegar við komum heim eftir ljúfan dag nokkuð dösuð, ætlaði ég út í búð að versla þar sem framundan væru 3 fræidagar (hvítasunna og 17. maí) en af því að það er 17. maí á þriðjudaginn var búðin lokuð í gær á laugardegi!! Já svona er þetta nú hér en við eigum nú eitthvað að narta í og svo er seveneleven hér svo það má bjarga sér þar þót það sé nú eigilega skelfilega dýrt. En allavega. Ég fór svo að syngja í misjonssalen í morgun. Kristján var bara heima með krakkana. Þetta er dáldið “styr” að fara með allt gengið þegar annað okkar er upptekið. Það var sama blíðan í dag. Ég fór með MH og J niður á leikvöll eftir hádegið og svo fórum við upp á þak á heimavistinni. Þar er alveg frábært útsýni yfir alla borgina, vissum bara ekki af þessu fyrr en nýlega. Krakkarnir fórur svo í bað úti á svölum. Það er ekkert smá þægilegt að baða þau bara úti, þá sleppur maður við allt sullið inni á baði. Svalirnar þorna eins og skot í sólinni. Á morgun er síðan spáð fimbulkulda (5°) og næstu daga víst líka. Á morgun förum við í hreíndýrasteik til Óla og Ragnheiðar. Þau lögðust í pest síðustu helgi þegar planið var að fara til þeirra svo nú er önnur tilraun. Verst að það á að vera svona kalt annars hefðum við getað borðað úti á fínu svölunum hjá þeim.
Á 17. maí á ég svo að syngja hér á skólanum svo það er alltaf nóg að gera. Kristján fer svo líklega í ferð með skólanum á miðvikudag fram á sunnudag svo það lítur út fyrir að ég verði grasekkja. Er ekki ein um það þannig að við eigum kanski eftir að finna upp á einhverju sniðugu mömmurnar hér.

Í þessum skrifuðu orðum geri ég ráð fyrir að vinir mínir í Gospelkór Reykjavíkur séu á generalprufu fyrir tónleikana á morgun og þriðjudaginn. Ég held það séu enn til einhverjir miðar á þriðjudagstónleikana. Þetta verða sko örugglega alveg frábæriri tónleikar, flott tónlist, snilldar hljómsveit og auðvitað stórkostlegur kór!!!! Væri sko alveg til í að koma, tala nú ekki um að syngja með en nú er ég bara í öðrum verkefnum.... Segi bara toi toi kæru kórfélagar!

þriðjudagur, maí 10, 2005

Hættur með bleyju!!

10. maí

Ja hérna hér! Þetta er orðin allt of löng pása. Ég veit ekki hvaða bloggleti þetta er eignilega. Jú eiginlega er bara búið að vera svo brjálað að gera að ég bara hef ekki gefið mér tíma til að setjast niður og skrifa. Það er alveg heilmargt búið að gerast hjá okkur að undanförnu svo nú er spurning hvort ég muni allt saman!

Ef ég byrja á fimmtudeginum þegar ég hætti síðast, þá fór sá dagur að mestu í bæjarrölt með Ingu og Möggu sem var mjög gaman. Bara dúlluðum okkur í 17° hita og sól. Fengum okkur kebab og svo ís niðri á Akerbrygge. Svo var kvinneforening um kvöldið. Á föstudaginn tókum við svo lestina til Gjövik. Það gekk bara rosavel með krakkana. Tókum sporvagninn niður á Oslo S (aðalbrautarstöðin) og fórum svo með lestinni sem ekur einmitt hér framhjá Fjellhaug og barneparken sem krakkarnir eru í. En einmitt þegar lestinn fór framhjá barneparken voru allir inni að borða nesti svo þar var enginn til að veifa.

Ester Daníels tók svo á móti okkur á brautastöðinni í Gjövik en þaðan er síðan um 25 mín akstur til Lena í Toten þar sem hún býr ásamt Wouter manni sínum og þremur börnum, Aron Daníel, Moiru Ruth og Silje Gurine. Ester og Wouter eru foringjar í Hjálpræðishernum og hafa starfað þarna í um 5 ár að mig minnir. Þau búa eiginlega á sveitabæ þar sem Herinn leigir hús af bónda sem á nokkuð stórt land m.a. með 2 einbýlishúsum sem hann leigir út. Þarna var sko flott að leika úti, rólur og sandkassi og risa trambolín sem krökkunum fannst algjört æði. Svo var það sem var mest spennandi og það var stór hlaða full af grísum. Grísirnir voru meðal annars fóðraðir á dagblöðum og pappír og krökkunum fannst svakalega gaman að gefa þeim pappír. Þetta er víst eitthvað til að þeim líði betur (for trivselen). Ef þeir fá ekki pappír að naga í ná finna þeir einn veikan grís þem þeir ráðast á. Þess má geta að þessit grísir eru eingöngu aldir til slátrunar. Þegar Margrét Helga spurði mig um daginn hvað grísirnir gæfu okkur var ég ekki alveg viss hvernig ég ætti að svara! Henni fannst auðvitað grísirnir svo sætir og svo er Baddi grís ein uppáhalds myndin hennar. En ætli börnin verði ekki að læra að svona er lífið.
Á laugardaginn átti Silje yngsta dóttirin á heimilinu þriggja ára afmæli og þá var mikið um dýrðir. Um morguninn var sungið fyrir afmælisbarnið og hún fékk auðvitað fullt af pökkum og ekki nóg með það heldur fengu öll börnin pakka og fannst það ekki leiðinleg. Seinni partinn var svo heilmikil veisla sem Ester stjórnaði af sinni einstöku snilld.
Á sunnudeginum tókum við þátt í samkomu á Hernum. Kristján var með hugleiðingu og ég söng. Við Ester rifjuðum upp gamla takta þar sem við gerðum dáldið af því að syngja saman hér í denn. Við rétt náðum svo lestinni til baka til Osló. Það var gaman að komast aðeins út fyrir borgina og njóta gestrisni Gooswilligen fjölskyldunnar í Lena. Margrét Helga lifir á þessu og á hverju kvöldi þegar hún biður bænirnar þakkar hún fyrir að hafa fengið að fara í sveitina!

Á mánudagskvöldið 2. maí var nóg að gera hjá mér. Ég söng í misjonssalen og svo beint í afmælisveislu til Grete Martinsen. Svo hefur vikan mikið farið í það hjá mér að læra texta og lög fyrir söngleikinn sem við sýnum á miðvikudaginn. Eiginlega synd að það verður líklega bara ein sýning. Þetta gengur vonandi vel þótt erfitt hafi verið að finna tima til að æfa, það er svo sem mest fyrir mig að læra. Við náðum að æfa aðeins í síðustu viku og svo var lokæfing í gær. Í morgun fór ég svo yfir lögin mín með píanistanum svo þetta ætti að ganga.

Á laugardaginn fórum við Dagbjartur Elí í bæinn að kaupa afmælisgjöf handa Kristjáni á meðan Kristján fór með hin tvö á róló. Þau spurðu mig hvort ég þyrfti ekki að fara á æfingu því þau voru greinilega búin að ákveða að eiga þennan dag með pabba! Á leiðinni úr bænum gengum við mæðginin í gegnum garð þar sem búið var að setja upp sænskt farandtívolí. Ég sá alveg fyrir mér að þetta væri eitthvað sem krakkarnir hefðu gaman af svo þegar ég kom heim ákváðum við að skella okkur. Það kom líka á daginn að þeim fannst þetta alveg frábært og ekki síst litlu heimasætunni. Jóel var ekki alveg eins brattur í rússíbönunum en þegar kom að risastórum hoppukastala með svaka rennibraut þá var minn brattur. Systir hans þorði ekki að renna sér níður og hágrét því hún var svo svekkt út í sjálfa sig fyrir að hafa ekki kjarkinn!! Henni fannst aftur á móti alveg æðislega gaman í tækjunum og dansaði af mikilli innlifun til að tjá gleði sína. Þetta var allt tekið upp á videó svo aldrei að vita nema einhverjir af ykkur lesendur góðir getið fengiða ð upplifa stemmninguna. Ég skemmti mér líka konunglega yfir því að sjá gleði barnanna. Ég held að fátt geti glatt mann meira en að sjá börnin sín glöð og að vita að þeim líður vel og gengur vel.

Á sunnudaginn var svo ekki hundi út sigandi fyrir rigninu. Ég reyndar fór um morguninn að syngja með kórnum á samkomu í misjonsalen. Þar var verið að halda upp á hundrað ára afmæli konu sem var kristniboði í Kína, Arna Vaagen heitir hún. Alveg ótrúlega spræk gamla konan. Hún hélt ræðu sjálf og sagði m.a. frá því þegar hún kynntist manninum sínum. Hún fékk allan salinn til að skella upp úr oftar en einu sinni. Þótt hún sé orðin aldar gömul er þetta kona sem enn hugsar til framtíðar og beindi orðum sínum ekki síst til unga fólksins. Hún talaði um það að sér findist svo leiðinlegt þegar verið væri að gagnrýna unga fólkið og sagði að þau hefðu sinn tíma, við höfðum okkar, sagði hún og gladdist yfir þeim fjölda ungs fólks sem safnaðist saman á laugardagskvöldum í misjonssalen (um 3-400 manns) til að lofa Guð, hlusta á hans orð og ekki síst heyra um kristniboð. Alveg einstök kona greinilega.

Þegar ég kom heim beið mín hádegismatur sem húsbóndinn var búinn að elda. Hann lagði ekki í að fara með allt liðið á samkomu þar sem ég þurfti að vera á sviðinu allan tíman. Krakkarnir voru líka svo þreytt því eftir allt fjörið í tívolíinu hafði verið erfitt að sofna vegna spennings kvöldið áður.
Eftir hádegið fór svo Kristján með Margréti Helgu og Jóel í íþróttahúsið þar sem ekki var hægt að fara út að leika vegna úrhellisdembu. Á meðan fengum við Dagbjartur Elí okkur smá lúr.

Í gær átti svo bóndinn afmæli, 31 árs. Við vöktum hann með söng og krakkarnir færðu pabba myndir sem þau höfðu teiknað sem hanga núna fyrir ofan rúmið hans. Það var m. a. mynd af pabba og MH og svo teiknaði Jóel líka mynd af pabba. Ekkert smá sætar myndir. Svo fékk hann auðvitað pakka frá okkur, nike bol og stuttbuxur.

Á meðan krakkarnir voru í barneparken var ég á generalprufu fyrir söngleikinn og svo fengum við allan bekkinn hans Kristjáns í mat. Við buðum upp á lambalæri sem við áttum í frysti síðan mamma og pabbi komu þegar DE var nýfæddur. Þetta heppnaðist mjög vel.

Á morgun er svo nóg að gera, lokhátíð í barnakórnum og söngleikurinn um kvöldið.

En....
Ég má ekki gleyma aðalfréttunum
Jóel er hættur með bleyju!!!
Hann er bara með öryggisbleyju á nóttunniog í barneparken. Hann er meira að segja svo duglegur að hann fer bara sjálfur inn á bað, sest á koppinn og kallar svo þegar hann er búinn. Þetta er nú að mestu pabbanum að þakka því hann tók bara af honum bleyjuna og lét hann bara finna aðeins fyrir því að vera blautur. Það tók ekki nema tvo daga (eiginlega bara einn og hálfan) og þá var hann búinn að átta sig á þessu. Við erum svo stolt af honum.


En´ætli ég láti þetta ekki duga í bili, man allvega ekki eftir fleiru í svipinn.