Helga Vilborg og Stjáni Sverris

þriðjudagur, júní 07, 2005

7. júní


Á sunnudagsmorguninn fór ég með Margréti Helgu og Jóel í fjölskyldumessu í Sinsenkirkju á meðan Kristján og Dagbjartur Elí fóru í göngu upp í Nordmark. Í kirkjunni var lítil stúlka skírð. Jóel sat andaktugur og fylgdist með með Diddu litlu sína í fanginu. Ég sagði honum frá því að í sumar yrði Dagbjartur Elí líka skírður á Íslandi. Allt í einu sagði sá stutti: “En mamma það á eftir að skíra Diddu litlu!”

Eftir messuna var grillað í leikskólagarðinum og krakkarnir léku sér þar alveg þar til allir voru farnir og þar til að lokum fór að rigna (það gat auðvitað ekki verið heill dagur með bara sól!)

Í gæar og í dag er veðrið búið að vera þokkalegt, sól svona að mestu en frekar kalt. Svona týpískt íslenskt sumarveður. Í gærkvöld var ég hjá Gunn Maritt ásamt Torill, Grete og Kristin. Þetta var svona hálfpartinn kveðjuhóf fyrir mig þó svo við eigum nú eftir að hittast áður en ég fer. Þetta eru svo fínar stelpur og frábært að hafa fengið að kynnast þeim. Ég á sko eftir að sakna þeirra. Þetta var mjög gaman við hlógum allvega mjög mikið.

Í morgun fór ég svo á loka småbarnstreff í Slottsparken en það voru bara ég, Grete og Kristin með krílin okkar. Við höfðum það bara mjög huggulegt. Sátum á teppi og snæddum nesti. Ég var svo úti allan sienni partinn með krakkana niðri á leikvelli. Það er fín að geta verið úti þar sem öll leikföngin, eða megnið af þeim er á leiðinni til Íslands með skipi.


Kristján er að lesa undir síðasta prófið sem er á fimmtudag og eftir það ætlar bekkurinn hans að gera eitthvað saman. Hugsanlega fara og borða á Mama Afrika sem er eþíópskur veitingastaður- nammmm!

Annars er lítið að frétta.

Fyrir þá sem ekki vita þá verður kristniboðavígslan okkar í Hallgrímskirkju sunnudaginn 26. júní kl. 16:00. Þá verður Dagbjartur Elí líka skírður og það eru ALLIR hjartanlega velkomnir! Það væri gaman að sjá sem flesta vini og ættingja þar. Sunnudaginn 3. júlí verður svo kveðjusamkoma á Holtaveginum fyrir okkur og Skúla og Kjellrunu og Kristínu Bjarnadóttur sem eru á förum til Kenýu. Þangað eru einnig allir hjartanlega velkomnir.
13. júlí verður svo líka samkoma í kristniboðssalnum á Háaleitisbraut kl20 sem við munum taka þátt í og eru allir velkomnir.

laugardagur, júní 04, 2005

seint skrifa sumir....

....en skrifa þó. Hér er fyrst færsla sem ég hef ekki náð að birta fyrr en nú og svo kemur restin á eftir:

27. maí 2005

Þá held ég bara að sumarið sé komið í Osló. 20 ° hiti og sól í dag. Reyndar dáldið hvasst en heitur vindur. Svo er spáð enn betra veðri næstu daga, meiri hita og logni. Frábært að fá sumarið svona snemma. Líka ágætt eftir rigningar síðustu daga. Búið að vera frekar þungbúið undanfarið.
Í gær vorum við í mat hjá Jorunn Sörbö ásamt öllum bekknum hans Kristjáns, sem hefur verið kristniboði í Eþíópíu í 25 ár. Hún bauð upp á wodd (þjóðiarrétt Eþíópa) og svo var hún aðeins að spjalla við okkur um það sem framundan er og gaf okkur góð ráð. Krakkarnir sofnuðu síðan snemma og ég fór á síðasta misjonsforening fund sem haldinn var hjá Sigrunu Selstö sem er kona rektorsins. Það hefur verið mjög blessunarríkt fyrir mig að hafa fengið að vera með í þessum hóp. Gaman líka að vera í svona hóp sem er blandaður svona aldurslega.
Í dag var svo síðasti kennsludagurinn hjá Kristjáni. Í dag hófst líka lokahátíðin sem stendur eiginlega þangað til annað kvöld. Kristján keppti í fótbolta í dag og svo var svaka grillveisla hér úti á túni fyrir allan skólann, nemendur, kennara, starfsfólk og aðstandendur. Á morgun verður svo prógramm frá kl. 11 fram á kvöld. Við sjáum til hversu miklu við getum tekið þátt í. Margrét Helga virtist líka vera að verða lasin í kvöld. Hún lék á alls oddi í dag en þegar við komum heim um 6 leitið var hún svo rosalega þreytt eitthvað. Þau reyndar vöknuðu um hálfsjö í morgun þannig að það er kanski ekkert undarlegt. En svo var eins og hún bara skyndilega væri að fá hita. Hún sefur allavega vært núna svo vonandi gengur þetta bara fljótt yfir.
Nú ætlum við hjónakornin hins vegar að fara að horfa á rómantísku gamanmyndia sem ég keypti og ætlaði að horfa á en gafst ekki tími til þegar Kristján var í ferðinni um daginn.....



....en nú er ss, kominn 4. júní – heiðurskonan hún Didda frænka á afmæli í dag. Það ættu allir að eiga svona Diddu frænku því hún er sko alveg einstök!
Það er auðvitað löngu kominn tími á blogg eins og einhverjir hafa bent á. Gaman annars að það skuli einhverjir sakna þess að fá fréttir!!! Þá veit ég að einhver les þetta.
Svo ég afsaki mig nú þá er bóndinn búinn að vera í heimaprófi alla síðustu viku (skilaði í gær) svo tölvan hefur verið upptekin og ég ekki komist að með nýjustu fréttir fyrr en nú. (Hann er núna úti í skóla að horfa á Noreg- Ítalíu)

Það helsta er nú kanski það, fyrir utan pakkningu er að sumarið hætti við að koma og síðan ég skrifaði síðast hefur eiginlega bara verið 12° hiti ,rigning og rok. Kristján ætlar að reyna að fá endurgreitt þegar við förum úr landi! Venjulegur meðalhiti í Osló í maí og júní eru 20° svo þetta er algjört svindl. Ætli við tökum svo ekki bara rigninguna með okkur heim!

Við erum ss. eiginlega búin að pakka. 8 pappakassar standa tilbúnir til flutninga í stofunni og verða sóttir á mánud og fara svo með skipi heim. Við fundum út að það var hlutfallslega ódýrara að kaupa 1 ½ rúmmetra í frakt hjá Samskip en að senda með pósti svo nú er ekkert eftir nema það allra nauðsynlegasta sem kemst í 2 ferðatöskur.

Síðustu helgi var lokahátíð skólans. Það var voða fínt kalt hádegisverðarborð, svo var kaffi fyrir bekkinn hans Kristjáns um eftirmiðdaginn og svo lokahátíð fyrir allan skólann um kvöldið. Ég fór þá bara heim með krakkana í háttinn. Ástæðan fyrir að lokahátíðin var síðust helgi þrátt fyrir að kristniboðsskólinn eigi efti próf er sú að þá var biblíuskólinn búinn og flestir nemendurnir fóru heim á sunnudeginum.


Á fimmtudaginn fórum við aftur í sprautur og fengum þa´sjokkfréttir ársins! Við fengum ma. Berklasprautu sem er ekki í frásögu færandi nema að þegar við öll erum búin að fá sprautuna segir hjúkkan að stungan verði rauð og svo fá flestir opið sár sem vessar úr og.. þá má alls ekki baða í klórvatni! Það var eins og konan hefði sagt mér að það yrðu ekki jól í ár... held hún hafi ekki gert sér grein fyrir að hún var að tala við Íslendinga. Sárið ætti að koma fram um það leiti sem við komum heim og vera gróið í fyrstalagi þegar við förum til Eþíópíu. Krakkarnir , og ég líka búin að hlakka til að fara í sund eins oft og við viljum og svo átti að kenna minnstemann að kafa! Það tók mig smá stund að ná mér niður eftir þessar fréttir (hún svaraði meira að segja þeirri spunrningu minni hvort það væri ekki bara í lagi að hylja sárið rétt á meðan maður væri í sundi, neitandi). Kristjáni tókst svo að róa mig niður og sannfæra mig um að við gætum nú bara alveg farið í sund við bara reddum því !
En samt, hefði ég vitað þetta áður hefði ég geymt þessa sprautu þar til síðar.
Þetta hljómar kanski voða dramatískt og móðursjúkt og var það kanski pínu. Það er líka bara pínu stress og margt að hugsa um þessa dagana svo þetta var kanski dáldið stór dropi sem fyllti mælinn þennan daginn- við erum líka algjör sunddýr!

Að öru leiti er bara rigning- fórum í dag að kaupa ný stígvel á krakkana þótt fyrr hefði verið. Jóels stígvél orðin marggötótt og 4 nr of lítil og Margrétar Helgu líka götótt en “bara” 2 nr of lítil. Þau eru allavega búin að duga í 2 ár sem er bara nokkuð gott held ég. Svo í eftirmiðdaginn fórum við í heimsókn til Fagermoen. Það er lítið gaman að hanga lengi heima þar sem það er búið að pakka næstum öllum leikföngum niður. Ég hélt að nú yrði bara gott veður það sem eftir væri af tímanum svo við yrðum bara úti að leika, en nei.... Þá er gott að eiga góða granna.

Krakkarnir eru orðin voða spennt. Þau tóku þátt í að pakka og voru mikið að passa upp á að allt færi nú örugglega með til Íslands. Voru hrædd um að það sem ekki færi í kassana færi kanski alls ekkert með og það tók smá tíma að sannfæra þau um að það færi bara með í flugvélina.

Það vella upp úr Margréti Helgu gullkornin á hverjum degi sem ég þarf að vera miklu duglegri við að skrifa niður, ég gleymi þessu allt of fljótt. Hún hefur stækkað svo mikið og þroskast og er orðin eitthvað svo fullorðin. Hún er eins og lítil mamma á hemilinu og er alltaf að hugsa um litlu bræður sína og börnin sín (dúkkurnar). Hún er allt í einu farin að tala heilmikla norsku og dugleg að prófa sig áfram og í dag þegur við vorum hjá Fagermoen tók ég eftir að hún skilur allt. Nú er bara að passa upp á móðurmálið!

Jóel er alltaf jafnmikið yndi.Alltaf með Diddu litlu sína og talar um sjálfan sig sem pabbann, pabbinn ætlar að klæða sig osfrv. Hann er sko “pabbinn hans Diddu litlus” Hann notar eignarfalls s eins og móðir hans gerði víst á sínum tíma. Í gærkvöld sagði hann : “ Didda litla verður að koma með til Íslands því hann er svo glaður í afa” (no.å være glad i noen: að þykja vænt um) Svo er hann orðinn svo duglegur, alveg hættur að pissa óvart í buxurnar og er farinn að fást til að pissa úti (honum fannst það voða erfitt fyrst, ekki að hann vildi ekki, það bara gekk ekki!)

Dagbjartur Elí sem er einmitt 4 mánaða í dag velti sér í fyrsta sinn yfir á magann 27. maí. Hann er alltaf á fullu og finnst orðið gaman að leika með dót. Uppáhaldið er lyklakyppa úr plasti sem hann hristir af miklum móð og lætur svo heyra í sér þegar hann missir hana. Hann bara stækkar og stækkar og er farinn að borða ávaxtamaut til viðbótar við grautinn og fékk að smakka banana í fyrsta skipti í dag sem honum fannst ekki slæmt!
Hann er alltaf sama draumabarnið, eins og hugur manns og alveg einstaklga brosmildur og geðgóður.

En nú fer þetta að styttast í annan endann. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Spurning hvað mér tekst að blogga oft fyrir brottför!!

Annars var ég að velta fyrir mér að bíða aðeins lengur með að skrifa, bara tékka hvort fleiri myndu kvarta!!