Helga Vilborg og Stjáni Sverris

föstudagur, júlí 01, 2005

Komin heim

Jæja.. á ekker að fara að skrifa!

Við erum ss. komin heim, fyrir tveimur vikum síðan. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram. Það tók nú alveg viku að lenda almennilega og svo er bara búið að vera nóg að gera.

Síðasta vikan úti fór nú mest í að pakka, kveðja og ganga frá íbúðinni. Það var skrítið að kveðja fólkið og vita ekki hvort við komum til með að hitta þau aftur. Krakkarnir voru svo spennt að fara heim til Íslands svo þetta reyndist þeim nokkuð auðvelt en ég held þau séu ekki almennilega búin að átta sig á því að við erum alveg flutt frá Noregi. Amk segist Jóel eiga heima á Sinsenveien ef hann er spurður og Margrét Helga sagði mér að þegar hún væri búin an vera svoona marga daga á Íslandi ætlaði hún að hitta Tuvu og Åsne. Þetta er voða skrítið fyrir þau en við biðjum og treystum því að Guð leiði þau í gegnum þetta eins og okkur.

Það var gott að koma heim eftir líka nokkuð strembið ferðalag. Við vorum komin mjög tímanlega út á Gardemoen. Torill keyrði mig, Margréti Helgu, Dagbjart Elí og farangurinn en Kristján og Jóel tóku rútuna því fleiri komust ekki í bílinn. Þegar við ætluðum að tékka okkur inn kom í ljós að við vorum eitthvað vitlaust bókuð, skráð með 4 börn og Jóel skráður fullorðinn. Það tók góðan tím að laga þetta svo við vorum fegin að hafa verið tímanlega. Svo þegar við komumst inn í flugstöðina kom íljós að seinkun yrði á fluginu um 3 tíma! Við skelltum okkur því bara á pizza hut og fengum okkur að borða. Um leið og við kyngdum síðasta bitanum var tilkynnt í hátalarakerfinu að allir sem væru að ferðast með Icelandair ættu að fá matarmiða. Það var ekki hægt að fá endurgreitt þannig að þetta var nú frekar svekkjandi en við bara keyptum drykki og svoleiðis og svo gaf Kristján einhverju pari miðana sem við áttum eftir. Við fengum sko miða að andvirði 750 nokr!
Þetta gekk nú alveg ótrúlega vel að bíða svona, DE sofnaði bar á bekk en hin tvö voru nú orðin frekar þreytt. Það endaði síðan með því að vélin fór í loftið 4 tímum of seint þar sem bíða þurfti eftir einhverjum farþegum!!
En við komumst allavega heim og vorum sótt á tveimur glænýjum kerrum!

Við héldum upp á þjóðhátíðardaginn í blíðskaparveðri eins og aðrir landsmenn, feigin að vera laus við rigninguna og suddann. Ég dressaði mig upp í búning- orðin fyrir áhrifum að norðmönnunum! Nei svona í alvöru finnst mér bara sjálfsagt að nota búninginn hvenær sem tækifæri gefst. Sá reyndar ekki nema tvær konur aðrar á búning og hitti svo reyndar Ragnhildi frænku og Öglu Mörtu hjá ömmu sem líka voru uppábúnar.

Vígslan okkar var svo sl. sunnudag. Þetta var svo hátíðlegur og góður dagur og alveg frábært hve margir komu og tóku þátt í þessu með okkur. Það er stórkostlegt og mikils virði fyrir okkur að vita af öllu kristniboðsvinunum hér heima sem biðja fyrir okkur. Athöfnin hófst á því að Dagbjartur Elí var skírður af Ragnari frænda. Pabbi fékk þann heiður að halda honum undir skírn en aumingja gamli maðurinn er enn að jafna sig! Hann er nú enginn smá smíði drengurinn og ekkert grín að halda á honum í lengri tíma! Svo voru nöfnur hans, Dagbjört Lína amma og Dagbjört Rós föðursystir skírmarvottar.
Krakkarnir voru voða dugleg greyin, mamma og pabbi líka óþreytandi að hlaupa á eftir þeim, en voru orðin dáldið þreytt á allri athyglinni.
Eftir athöfnina var svo móttaka hjá biskupshjónunum. Glæsilegt að vanda hjá þeim heiðurshjónum.

Annars er Kristján á fullu að vinna á daginn. Ég er heima með krílin mín og reyni að undirbúa flutninga eftir bestu getu þó það gangi hægt eins og er. Við erum svo bara líka að reyna að nýta tímann að hitta vini og ættingja, í matarboðum á hverju kvöldi nánast, voða notalegt!
Krakkarnir eru á róló núna, þeim finnst það fínt, að vera úti að leika.

Ég minni svo bara á samkomuna á sunnudaginn kl. 20:00 á Holtaveginum. Það eru allir hjartanlega velkomnir og gaman væri að sjá sem flesta.


Enda svo á því að óska manninum mínum til hamingju með daginnn- það eru fimm ár í dag síðan við settum upp hringana á Kristnihátíð á Þingvöllum!!