Helga Vilborg og Stjáni Sverris

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

litlir lasarusar

31. ágúst...mamma og pabbi, til hamingju með brúðkaupsafmælið!!

Ég er heima í dag þar sem Jóel er orðinn lasinn og alveg óttalegur mömmukall. Æ, það er gott að hafa mömmu þegar maður er lasinn. Þau eru búin að vera slöpp til skiptis systkinin sl. tvær vikur. Margrét Helga byrjaði. Hún er ferlega kvefuð og hóstar en er bara hress að öðru leiti og fór spræk með Friðriki Páli í leikskólann í morgunn. Dagbjartur Elí fékk hita á laugardag, var hitalaus á sunnudag, fékk svo aftur hita á mánudag en var hitalaus um kvöldið og í gær fékk hann svo aftur háan hita sem datt mjögfljótt niður aftur. Hann er líka mjög kvefaður og með ljótan hósta. Jóel var svo orðinn hás í gær og hóstaði hryllilega í nótt. Hann er meðeinhverja smá hitavellu og óttalega lítill í sér. Kristján talaði við nággrannakonu okkar sem er læknir útaf DE þar sem mér leist eiginlega ekkert á þessar hitasveiflur en hún sagði að þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af. Það eru meria eða minna allir krakkarnir á norska skólanum búnir að vera veikir upp á síðkastið og öll börnin hér á lóðinni. Veðrið er líka ekta veikindaveður. Miklar hitasveiflur yfir daginnog húsin ekki upphituð.

Að öðru leiti líður okkur mjög vel. Nú er bara mjög gaman í skólanum. Við erum farin að getað lesið dáldið og skrifað en manni líður dáldið eins og sex ára- fínt fyrir mig sem kennara að upplifa þetta svona á fullorðinsárum! Það bætist við amharískuna á hverjum degi svo nú reyni ég bara að nota það litla sem ég kann og hlusta og spyrja til að læra meira.

Svona fyrir utan skóla og veikindi erum við mest bara heima. Á laugardaginn fórum við reyndar á basar sem er haldinn mánaðrlega í kirkju hér rétt hjá. Þar er hægt að fá mikið af fallegum munum. Ég keypti einmitt mikið þar þegar ég var hér síðast. Það varð reyndar ekki mikið um kaup á laugard. Því krakkarnir voru öll eitthvað illa upplögð og DE orðinn sárlasinn. Ég held ég fari án þeirra næst. Okkur vantar enn eitthvað á veggina, körfur og svoleiðis.

Kristján er loksins búinn að taka bílprófið. Hann átti að fara á föstudaginn en þá varð einhver misskilningur svo ekkert varð úr því. En í gær hafðist það svo hann ætti að fá skírteinið á morgun.


Ég held það sé ekkert meira markvert í bili. Litli lasarusinn hér er orðinn spenntur að eiga afmæli, hann verður 3 ára á föstudaginn og ætlar að fara með snúða í leikskólann til að gefa krökkunum. Svo ætlum við að hafa afmæliskaffi um eftirmiðdaginn.

Gullkorn:

Jóel: Mamma ertu með svona “augnablik” Ég er með augnablik hér og hér.. (hann átti við flugnabit!)

MH. Sagði við mig í gærmorgun, mamma mig langar svooo að vera svo svört. Ég svaraði henni að það væri ekki hægt. Guð hefði skapað okkur mismunandi og hún væri falleg eins og hún væri. “En mamma mig langar svooo mikið að vera svört..”(Hún var alveg viss um að við yrðum svört og fengjum svart hár þegar við flyttum til Eþíópíu..).

Að lokum verð ég bara að minna á stórtónleika í Laugardalshöllinni á laugardaginn.
( Eiginlega vona ég að það séu ekki neinir miðar eftir!!)
Gospelkór Reykjavíkur ásamt stórhljómsveit- því má enginn missa af og ég segi bara toj toj kæru vinir mínir í kórnum!!

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Fídelariða*

23. ág
Jæja, ég talaði víst eitthvað um að skrifa vikulega. Ætli sé ekki best að reyna að standa við það. Síðasta vika í skólanum var fyrst og fremst til kynningar á skólanum, landi og þjóð en nú er allt komið á fullt í kennslunni. Við vorum bæði alveg gjörsamlega búin eftir gærdaginn. Það er mikið nýtt og reynir á heilasellurnar enda amharískan ekki beint auðvelt tungumál. Það sem mér finnst samt erfiðast er að allir í bekknum (nema við Kristján) hafa búið hér í 4- 5 ár eða hafa haft einkakennara í heimalandinu í einhverja mánuði áður en þeir komu hingað. Það eru ss allir nokkurnveginn læsir og vel skrifandi nema við. (fyrir þá sem ekki vita er amharíska ekki letruð með latnesku letri sem gerir þetta enn flóknara) Mér gengur reyndar sæmilega að átta mig á þessu en það tekur tíma og þar sem allir hinir eru eins og ég sagði læsir og skrifandi eru sérstaklega málfræðitímarnir mjög erfiðir. Í morgun voru allir teknir upp að töflu til að skrifa lista af tíu orðum. Ég blokkeraðist gjörsamlega og endaði bara með því að ég gat ekki haldið aftur af tárunum. Mér fannst ég bara enganveginn getað haldið í við hina. Í ofanálag hafa bæði Margrét Helga og Dagbjartur Elí sofið frekar illa síðustu nætur þannig að við erum á fótum meira eða minna allar nætur. Á kvöldin þegar eini tíminn gefst til að læra erum við bara svo uppgefin að lítið verður úr verki. Ég held samt að eftir niðurbrotið mitt í dag hafi kennarinn og hinir nemendurnir gert sér grein fyrir stöðu okkar, svo nú verður aðeins hægt á. Enda skilst mér að skólinn og námsefnið geri ekki ráð fyrir að fólk kunni nokkuð. Ég stend reyndar aðeins betur að vígi en Kristján þar sem ég hef verið hér áður og tungumálið ekki alls ókunnugt. Ég þekki a.m.k. hljóðin og kann nokkur orð og málfræðin sem slík vefst ekki fyrir mér. Þið sem biðjið fyrir okkur megið gjarnan muna eftir okkur í þessu sambandi. Biðjið líka fyrir því að börnin fari að sofa á nóttunni því það breytir miklu eins og allir vita að fá góðan nætursvefn. Annars finnst mér mjög gaman að læra amharískuna og kennararnir eru mjög fínir. Í málfræði eru allir saman en svo erum við í svokölluðum Drill tímum þar sem farið er í framburð, orðaforða og lestur og einnig erum við hjá svok. Language helper ýmist ein eða tvö og tvö saman. Það er mjög fínt, þar læri ég mest. Ég verð líka bara að vera jákvæð og vera dugleg að æfa mig sérstaklega í skrift og lestri. Mín sterka hlið í tungumálum hefur alltaf verið framburðurinn og ég læri frekar fljótt með því að hlusta á fólk og það verð ég bara að nýta mér. En nóg um það í bili.

Krakkarnir eru hressir núna. Þau fóru reyndar ekki í leikskólann á mánudaginn því Margrét Helga var með hita alla nóttina. Friðrik Páll (Kíu og Ragga) var líka lasinn svo ég hafði ekki hjarta í mér að senda litla stubbinn minn einan með skólabílnum. Finnsku strákarnir í næsta húsi við Kíu og Ragga voru líka lasnir svo þetta virðist hafa verið einhver pest. Ég vona bara að Jóel sleppi í bili. Dagjartur Elí er orðinn dáldið kvefaður og hóstar og hnerrar en hefur sem betur fer ekki fengið hita og ég vona að hann sleppi við það í bili.
Á sunnudaginn fórum við í skólaguðþjónustu á norska skólanum og kaffi á eftir. Þaðer svona felles kaffi á hverjum sunnudegi á skólanum. Á fimmtudaginn sl. var fyrsta bænastundin hér eftir sumarfríið. Á hverjum fimmtud eru bænastundir á öllum kristniboðsstöðvunum. Í þetta skipti vorum við heima hjá Ivar og Mai Britt Vegge sem eru það sem kallað er kontakt person fyrir okkur. Í þetta skipti borðuðum við kvöldmat hjá þeim og allir krakkarnir voru með. Mai Britt bað mig að syngja sem ég og gerði með hjálp litlu söngfuglanna minna. Ég sagði að þau mættu velja lög til að syngja og þau vildu helst syngja öll lögin sem þau lærðu í kórnum í fyrra! En ég sagði að það væri ekki hægt svo þau völdu tvö lög. Svo söng ég eitt lag ein.

Það er enn verið að vinna í ökuskírteinismálum Kristjáns. Hann þurfti að fara í læknisskoðun í síðustu viku á rússneskan spítala hér í borg þar sem könnuð var sjón, heyrn jafnvægisskyn o.fl. Til þess þurfti 6 mismunandi sérfræðinga svo þetta tók heilan morgun. Margrét Helga sagði að pabbi þyrfti að fara á dýraspítala til að athuga hvort hann gæti stjórnað og séð og svona. Ég spurði hvort dýralæknir ætlaði að skoða hann en þá svaraði hún að auðvitað væri það tannlæknir!! Hann fer svo í verklegt ökupróf um helgina þannig að vonandi verður hann kominn með skírteinið í næstu viku.
Ég er farin að keyra dáldið og gengur bara vel. Ég hef nú ekkert þorað ein ennþá aðallega vegna hættu á að villast. Ég er ekki alveg sú ratvísasta og það hefur mikið breyst hér á 10 árum.

Annars líður okkur mjög vel. Ég er allvega ekki með neina heimþrá þó að sjálfsögðu sakni maður vina og ættingja. Við erum með alveg frábæra húshjálp og barnapíu. Krakkarnir eru strax orðin hænd að Asnako og Fantanesh býr til alveg rosalega góðan mat. Hún er líka svo hugmyndarík við eldmennskuna. Mér er sagt að hún búi til alveg sérlega góðan doro wodd svo ég hlakka til að smakka hjá henni. Hún hefur gert bauna wodd fyrir okkur sem var svakalega góður líka.

Spurning hvort maður reyni ekki við heimavinnuna núna.... maður er reyndar orðinn frekar framlágr og það nánast sýður á heilanum en sjáum hversu langt ég kemst...bless í bili


(*Fídelar eru amharíska letrið)

föstudagur, ágúst 19, 2005

Komin til Eþíópíu

Engar fréttir eru góðar fréttir er það ekki?
Allavega er búið að vera það mikið að gera að ég hef ekki fyrr en núna gefið mér tíma til að setjast niður og skrifa.

Við áttum mjög góðan tíma heima á Íslandi. Vígsludagurinn okkar 26. júní var mjög góður og fyrir mig var þetta alveg sérlega mikilvæg stund. Það var eins og Guð gæfi mér sérstakan fruð á þessum degi og sannfæringu um að við værum í hans vilja að fara hingað út. Skírnin var líka mjög falleg og mér þótti vænt um að Ragnar frændi vildi skíra litla manninn. Svo voru tvö brúðkaup Fyrst giftu Siggi frændi og Hanna sig í Keflavíkurkirkju og svo litli bróðir.

Það var auðvitað heilmikill undirbúningur fyrir brúðkaupið hjá Gunnari og Úllu og litla fólkið fylgdist vel með öllu. Eftirfarandi umræður áttu sér stað í eldhúsinu einn daginn.

HV: Margrét Helga ætlar þú einhverntíma að gifta þig?
MH: Já
HV: Hvernig giftir maður sig?
MH: Maður giftist svona manni, maður gerir svona (kyssir mömmu sína á munninn)
HV: Hverjum ætlar þú að giftast?
MH: Ég ætla að giftast Jóel
JK: Nei Didda litla ætlar að giftast pabba sínum þegar hún verður stór!

(Didda litla er dúkkan hans Jóels og hann er sko pabbi hennar og tekur því hlutverki mjög hátíðlega!)

Brúðkaupsdagurinn rann svo upp. Við systurnar sungum við athöfnina og reyndar líka aðeins í veislunni. Ragnar frændi gaf þau saman- nú er hann þjóðnýttur þar sem hann hefur hlotið prestvígslu!
Vígslan var í heimabæ Úllu í Lágafellskirkju en veislan í Ými. Það var alveg svaka gaman. Margrét Helga og Jóel fengu að fara með í kirkjuna en voru svo heima með Helenu hans tengdapabba og Sunnu Mjöll mágkonu minni um kvöldið. Það var nú líka aðal málið fyrir þeim að vera í kirkjunni. Þegar Gunnar og Úlla höfðu kysst sagði Margrét Helga við Ömmu sína: “ Nú getur Úlla farið að eignast börn!”

Annars fór sumarfríið í að hitta vini og ættingja og að pakka og undirbúa ferðina hingað. Það tókst að lokum að koma öllu í tunnur og úr landi. Krakkarnir fóru með mömmu og pabba í sumarbústað í Selvík síðsustu vikuna í júlí. Þau höfðu pantað það séstaklega. Við fórum sömu helgi á kristniboðsmótið á Löngumýri og notuðum svo tímann eftir helgina til að ganga frá farangrinum. Ég var svo seinni part vikunnar með þeim í Selvíkinni en Kristján var að vinna.

Það var ákveðið að halda afmælisveislu fyrir systkinin áður en þau færu af landi brott við mikinn fögnuð. Amma og afi áttu nú aðallega veg og vanda að veislunni. Það voru keyptar blöðrur og fínir afmælisdiskar, prinsessudiskar og servíettur fyrir litlu prinsessuna og Bangsímon fyrir stubb. Þau fengu fullta af fínum gjöfum og voru hæstánægð með allt saman.

Þar sem litla fólkið var búið að biðja um að fá að fara í útilegu buðu amma og afi þeim í Vatnskóg um verslunarmannahelgina þar sem þau gistu eina nótt í tjaldi. Við hin kíktum í einn dag. Það var voða gaman að hitta fullt af fólki svona áður en við fórum.

2. ágúst lögðum við svo í hann. Það verður aldrei auðveldara að kveðja en núna leið mér samt einhvernvegin betur en oft áður þótt tárin hafi síður en svo verið færri. Ég bara fann svo sterkt fyrir því hvernig Guð æleiðir okkur áfram og að við erum í vilja hans. Margrét Helga grét mikið og átti erfitt með að kveðja ömmu og þess vegna hafði ég dálitlar áhyggjur af henni en hún virðist bara pluma sig vel en ég kem að því síðar.

Ferðin gekk alveg ótrúlega vel. Kanski ekkert ótrúlega því það voru svo margir að biðja fyrir okkur á ferðalaginu og þakka ég hér með fyrir það. Krakkarnir voru svo góð. Dagbjartur algjört ljós eins og reyndar alltaf. Bara svaf og drakk og heillaði alla í kringum sig upp úr skónum með brosinu sínu.
Við flugum með Iceland Express til London sem mér fanst bara fínt. Þar gistum við svo í eina nótt (reyndar bara hluta úr nótt því við komum seint á hótelið og þurftum að fara snemma af stað út á flugvöll. Frá London flugum við svo með Lufthansa til Frankfurt þar sem við skiptum um vél og þaðan til Addis.

Mér fannst góð tilfinning að lenda í Addis. Flugvöllurinn er orðin voða flottur og allt einhvernvegin mikið þægilegra þar en var, ekki ein kaotískt.
Raggi schram ogHarpa Vilborg dóttir hans tóku á móti okkur og keyrðu okkur að nýja heimilinu okkar sem er eins kona heimavist fyri málaskólanemendur. Þetta erum raðhús með þriggja herb íbúðum á þremur hæðum. Kía og Raggi búa við hliðina á okkur og það er sko alveg frábært fyrir okkur öll og þó ekki síst krakkana að hafa þau. Friðrik Páll sonur þeirra er jafngamall Margréti Helgu og þau náðu strax vel saman litlu krakkarnir og leika sér allan daginn úti og eru alltaf grútskítug upp fyrir haus á kvöldin! Harpa Vilborg sem er 9 ára erlíka alveg sérlega dugleg að vera með krökkunum og fylgjast með þeim. Ég er alveg óendanlega þakklát fyrir hversu vel gengur með krakkana. Margét Helga virðist svo ánægð og finnst þetta alveg frábært líf að vera úti og príla og hamast allan daginn. Þetta virðist vera erfiðast fyrir Jóel. Ekki það að hann unu sér ekki heldur frekar að hann þarf meiri svenfn hér, tengist eflaust bæði hæðinni og hitanum og eins því að þau eru alltaf úti. Dagbjartur Elí er alltaf eins með sama góða skapið og fallega brosið!

Við erum mjög ánægð bæði með húshjálpina og barnapíuna. Húshjálpin okkar heitir Fantanesh og er mjög flink og hefur mikla reynslu. Það er voða skrítið að þurfa nánast ekkert að sinna heimilisstörfunum sjálfur. Hún eldar matinn, bakar og þrífur og hengir út þvottinn og brýtur saman. Við ákváðum að fjárfesta í þvottavél að fordæmi nágranna okkar þannig að fnatanesh þarf ekki að þvo. Þetta er óneitanlega mikill lúxus.

Barnapían okkar sem heitir Asnakú hefur líka mikla reynslu. Húner á aldur við okkur og hefur starfað hjá NLM í 12 ár. Hún er vinkona Tsige og Mörtu sem eru vinkonur mínar síðan ég var hér úti síðast (Tsige býr á Íslandi núna). Hún náði strax svo vel til krakkanna og það var bara ekkert mál þegar við fórum í skólann í fyrsta skipti í gærmorgun. Ég var búin að hafa dálitlar áhyggjur af Jóel þar sem hann er búinn að vera voða mikill mömmu strákur og dáldið stutt í grátinn en hann bara kvaddi okkur í gær eins og ekkert væri. Ég er líka búin að sjá að það skiptir bara öllu að hann fái nægan svefn. Þau vakna frekar snemma, stundum milli 6 og 7 þar sem orthodoxarnir hefja bænakall kl. 6. Ég vona nú að þau venjist því fljótt. Þau þurfa samt að vakna snemma sérstaklega þegar leikskólinn er. Þau sem sagt byrja í leikskóla á morgun sem er þrjá daga í viku á norska skólanum frá kl. 8- 12. Skólabíllinn kemur kl. 7:45 svo þá þurfa þau að vera alveg tilbúin. Ég ætla að fara með þeim allavega á morgun og föstudaginn getur verið að ég biðji Asnakú að fara með þeim. Við sjáum bara til hvernig gengur.

Annars fór síðasta vika hjá okkur bara í að lenda og koma okkur fyrir. Ég er búin að fá ökuskírteini þar sem gamla ökuskírteinið mitt ótrúlegt en satt fanst á botninum á djúpri skúffu á lögreglustöðinni! Það er eitthvert óskiljanlegt sýstem hérna, amk fyrir okkur. Það var nú fyrst útlit fyrir að það findist ekki en ég vildi ekki gefast upp svo það var leitað aftur og þá fanst það. Það fékkst svo bara endurnýjað þannig að ég þarf ekki að taka próf. Kristján þarf hins vegar líklegast að taka próf þar sem þeir samþykkja ekki íslenskt ökuskírteini. Það er bara verið að vinna í því. Á föstudaginn fengum við svo loks tunnurnar okkar sem tók ekki nema einn dag. Venjulega þarf fólk að taka allavega tvo til þrjá daga í þetta svo ég held bara við höfum verið heppin. Við þurftum nú að borga einhvern toll. Þeir vilja alltaf tolla eitthvað sérstaklega rafmagnstæki. Núna var það helst saumavélin mín og hljómborð sem ég var með. Kristján fór í þetta og hann þurfti að taka allt upp úr tunnunum sem er reyndar ekki óvenjulegt. Krakkarnir voru alveg yfir sig ánægð að fá allt dótið sitt. Þau eru með sérherbergi sem er bara orðið nokkuð hugglegt og gott pláss til að geyma dótið og leika sér. Ég er reyndar ekki búin að taka allt dótið fram og ætla ekki að gera það alveg strax. Það er ágætt að skipta bara út reglulega.

Á fimmtudaginn fórum við í sund á Hiltonhótelinu. Það er voða lúxus og ágætt að komast aðeins þangað til að kúpla út. Það er að vísu rándýrt en við vorum allan daginn og krökkunum fannst þetta alveg æðislegt.

Á sunnudaginn varð svo lítil kona 4 ára. Við höfðum smá afmæliskaffi og buðum Kíu og Ragga og krökkunum. Það var dekkað með fínu diskunum sem höfðu verið keyptir á Íslandi og Fantanesh var búin að baka afmælisköku sem MH og JK skreyttu og snúða. Kía kom svo með íslenskar pönnsur þannig að þetta varð hin fínasta veisla. Hún var búin að spyrja á hverjum morgni í heila viku hvort hún ætti afmæli dag svo þetta var stór dagur! Núna er hún voða ánægð með að vera orðin 4 ára. Hún fékk líka 3 símtöl frá Íslandi.

Eins og ég minntist á byrjaði skólinn hjá okkur í gær. Þessi vika er fyrst og fremst kynningarvika, bæði á skólanum og svo er styklað á stóru um menningu og sögu landsins. Kennslan byrjar svo aðeins á morgun en á mánudaginn næsta fer allt á fullt. Ég hlakka mikið til að læra amharískuna. Þetta er erfitt tungumál en mér finnst það afar heillandi.

Í dag fórum við í heimsókn til Mörtu vinkonu minnarþ Það var gaman að hitta hana eftir öll þessi ár og gaman að fá að koma heim til hennar og hitta fjölskylduna. Við fengum injera og wodd (sem er þjóðarréttur Eþíópa) og kaffi sem gert er á sérstakan hátt. Við fengum bauna og grænmetisrétti þar sem foreldrar hennar tilheyra orþodoxkirkjunni og núna er fasta hjá þeim. Marta og systkini hennar tilheyra hinsvegar öll Mekane Yesus kirkjunni (Ethiopian Evangelical Church Mekane Yesus) sem er kirkjan sem kristniboðið starfar með.

Mér líður allvega mjög vel hér og finnst gott að vera komin aftur. Fyrstu tvo dagana var þetta nú reyndar pínulítið skrítið en núna finnst mér næstum eins og ég hafi aldrei farið. Mér sýnist líka börnin vera mjög sátt sem er fyrir öllu. Krsitján fékk að eigin sögn vægt sjokk til að byrja með en er bara nokkuð sáttur núna. Þetta er auðvitað gjörólíkt öllu sem við eigum að venjast heima en það er öllum hollt að kynnast því. Við túum því líka og finnum að Guð er með okkur og að við erum borin á bænarörmum. Það er auðvitað líka bara alveg ómetanlegt að hafa Kíu og fjölskyldu sem nággranna sannkallað bænasvar fyrir okkur.

Jæja ætli ég fari nú ekki að segja þetta gott í bili. Ég ætla að reyna að hafa fyrir reglu að skrifa vikulega svo þetta verðinu aðeins jafnara og þéttara. Núna er regntími svo það rignir alltaf eitthvað á hverjum degi þótt sólin skíni líka mikið. Það er heitt (amk fyrir okkur!) yfir daginn en kaldara á kvöldin. Núna er td nýgengið yfir alveg svakalegt þrumu veður með hagléli! Svona getur þetta verið...
Af tölvumálum erum við með upphringitengingu sem er svona misvirk. Getum allavega stundum komist á msn en skype hefur ekki virkað enn sem komið er, það verður bara að koma í ljós. Annars er fótaferðatími snemma í fyrramálið svo allir verði tilbúnir þegar skólabíllinn fer svo nú er best að koma sér í háttinn...