6. okt
Þá styttist í að maður komist á fertugsaldurinn! Uffa meg!! Nei, nei þetta er nú ekkert svo voðalegt. Kanski maður sé þá orðinn fullorðinn! Annars held ég að maður sé aldrei eldri en manni sjálfum finnst og mér finnst ég alltaf bara vera 17! Ætli það sé ekki meira sjokk fyrir mömmu og pabba að eiga dóttur á fertugsaldri....og þau ekki nema rétt rúmlega fimmtug!
En nóg um það...
Hér hefur, Guði sé lof, allt verið með kyrrum kjörum. Ég veit nú ekki hvernig þessi fundir forsætisráðherrans og stjórnarandstöðunnar fóru en allvega er allt rólegt og við erum Guði þakklát fyrir það. Vonandi bara að þetta verði allt fiðsamlegt áfram. Á sunnudaginn hlýddum við auðvitað yfirmanni okkar og héldum okkur heima. Við reyndar fórum aðeins yfir á seminarlóðina sem er hér við hliðina, í smá göngutúr með krakkana. Við fórum því aðeins út fyrir lóðina. Það var alveg rosalega rólegt, nánast allt lokað og mjög fátt fólk og bílar á götunni sem bara gerist varla hér í Addis. Þetta var svona eins og sunnudagur í Reykjavík en ekki venjulegur sunnudagur í Addis Abeba. Fólk virðist hafa ákveðið að hafa hægt um sig. Einn kennarinn í skólanum sagði okkur að það hefðu komið hópar fólks frá nágrannabæjunum sem hafi ætlað að taka þátt í mótmælunum. Þetta fólk hafði ekki frétt af því að þeim hefði verið frestað. Við bara biðjum áfram og þið megið biðja með okkur fyrir friði hér. Einnig að það geti komist á sættir svo fólkinu hér megi líða vel og vera sátt.
Kristján er allur að skríða saman en á nú samt dálítið í land með að ná fyrri kröftum. Þetta virtist vera einhver vírus svo þetta verður bara að fá að taka sinn tíma. Hann fór í skólann í fyrsta skipti í gær en fór heim eftir fyrstu fjóra tímana. Síðustu tvo tímana var ekki venjuleg kennsla þannig að það kom ekki mikið að sök. Í dag hafði hann heldur ekki orku í meira en fjóra tíma. Þetta virðist bara taka tíma.
Síðan ég skrifaði síðast hefur lífið bara gengið sinn vanagang hér svona fyrir utan veikindi bóndans. Krakkarnir eru svo ánægð hér. Þau eru úti allan daginn að leika með barnfóstrunni sinni svo eru vaktirnar alveg ótrúlega miklir barnakarlar og eru duglegir að leika við krakkana sem þeim finnst sko ekki leiðinlegt. Ég er einmitt búin að vera að hugsa um það upp á síðkastið hvað .það eru í raun og veru mikil forréttindi að fá að vera hér. Maður fær svo mikla hjáp á heimilinu, börnin eru svo frjáls fyrir nú utan að sleppa við að dressa þau upp í kuldaföt! Við fáum að læra ný tungumál, kynnast annari menningu og ég gæti bara haldið endalaust áfram. Allavega þá líður okkur mjög vel hér. Það eina sem vantar eru vinir og fjölskyldan heima! Ég er samt sannfærð um það að samband okkar við fólkið heima verður ekkert síðra þrátt fyrir fjarlægðina. Guð hefur ákveðið að senda okkur hingað og ég veit að hann mun blessa okkur á svo margan hátt fyrir það, og það gerir hann nú þegar.
Ég hafði pínu áhyggjur af Margréti Helgu um daginn, að hún væri að fá eitthvert bakslag en það varð svo bara að engu. Það er svo mikið að gera hjá henni allan daginn. Í fyrradag var hún úti með Hörpu Vilborgu og vinkonu hennar að sippa og fl. Henni finnst alveg æðislegt að vera með stóru stelpunum og þær eru líka svo góðar við hana. Svo eru tvær stelpur, systur 13 og 15 ára sem búa hér við hliðina á okkur sem þau eru líka mjög hrifin af.Svo finnst þeim líka svo rosalega gaman í leikskólanum. Núna undanfarna morgna hefur Jóel alltaf flýtt sér að borða morgunmatinn svo hann geti teiknað mynd handa Elisabeth sem er kennarinn þeirra. Hann er síteiknandi og litandi. Svo alltaf þegar hann er búinn að teikna pakkar hann myndunum saman og vill líma þær.
Dagbjartur Elí dafnar líka vel. Hann reyndi nú barasta að standa upp á föstudaginn var. Ég sat við tölvuna þegar ég sá allt í einu lítið andlit birtast hinum megin við borðið! Svo reyndi hann aftur við borðstofuborðið en þá datt hann. Þetta er nú kanski í snemmsta lagi en systkini hans voru nú líka 8 mánaða þegar þau stóðu fyrst upp, reyndar í rúminu, en.. Hann skríður á maganum, mest afturábak en tekst nú líka stundum að koma sér áfram. Þá liðast hann eins og lítill ormr. Hann er að reyna að fara á fjórar fætur þannig að þetta fer nú allt að koma. Ætli rólegheitin séu ekki að verða liðin hér á bæ í bili. Hann er alltaf jafn glaður og brosmildur. Hann elska tónlist og tekst á loft þegar við setjum geisladisk í spilarann, eiginlega alveg sama hverskonar tónlist. Svo finnst honum svakalega gaman að spila á trommu! Þegar við syngjum borðsönginn þá leikur borðið allt á reiðiskjálfi því hann slær taktinn og dillar sér á fullu. Honum finnst svo gaman að láta syngja með sér og einnig les fyrir sig. Amma sendi krökkunum bækur sem þau fengu í gær og voru öll svo ánægð. Takk fyrir það amma mín, pabbi kemur þessu eflaust til ykkar.
Í gær var ég aftur með æfingu hjá tensing. Þau eiga að syngja í kirkjunni á sunnudaginn og ég á að spila. Það er nú ýmislegt sem maður lætur hafa sig út í að gera hér sem maður myndi aldrei gera heima, svona eins og að spila He reigns (Brooklin lagið ekki Kirk Franklin, fyrir ykkur sem vitið hvað ég er að tala um) Ég hef nú aldrei litið á mig sem neinn píanista en hér er ekki beint um auðugan garð að gresja svo maður bara verður að hella sér út í hlutina. Það er bara fínt stundum þá tekst maður á við hluti sem maður annars myndi aldrei lá sér detta í hug að koma nálægt. Ég held það hljóti bara bara að þroska mann.Annars er ég með frábæran norskan gítarista með mér og svo er einn strákur í kórnum sem er bara nokkuð brattur á trommur sem spilar líka. Við bara gerum okkar besta og treystum því svo að Guð geri restina- þe. að blessa söfnuðinn með tónlistarfluttningnum. Hópurinn samanstendur af unglingum á aldrinum 12 – 17 ára. Mér finnst mjög gefandi að fá að taka þátt í þessu og þetta eru líka svo heilsteyptit og frábærir krakkar. Svo jákvæð og skemmtileg.
Í gær ákváðum við Alf Åge sem er gítaristinn, að stofna grúppu og syngja gospel og annað skemmtilegt. Konan hans er líka mikil músíkmanneskja og svo ætlum við bara að safna liði. Það verður gaman og ég er farin að hlakka til.
Jæja, svo er stóri dagurinn á morgun, afmælið mitt ,brúðkaupsafmælið okkar Kristjáns, skírnarafmæli Margrétar Helgu og svo hefði Helga amma orðið 81 árs. Ég er búin að bjóða dáldið af fólki í mat á morgun eftir skóla. Fantanesh er búin að vera að elda wodd svo það er himneskur ilmur í íbúðinni núna. Svo vorum við hjónin að spá í að fara kanski eitthvað út annað kvöld ef við fáum pössun.
Annars vona ég að þið hafið haft gaman af að sjá myndirnar. Við ættum að geta bætt við nokkuð reglulega.
“Gott er að lofa Drottinn og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti, að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur”
Sálm. 92.:2-3