Helga Vilborg og Stjáni Sverris

þriðjudagur, október 25, 2005

Leiðrétting

Þeir sem hafa lesið kommentin hafa væntanlega tekið eftir ábendingu föður míns um að slóðin sem ég gaf upp um myndirnar í síðasta pósti var röng. Rétt slóð er http://gallery.askur.org/fyrogflamme
Því miður eru enn ekki komnar nýjar myndir enþað verður á næstu dögum
Bestu kveðjur frá okkur í Addis

mánudagur, október 24, 2005

Þetta fullorðna fólk er svo skrítið!

Alltaf bíður það óþreyjufullt eftir að maður taki framförum og geri eitthvað nýtt og sniðugt en svo þegar manni loksins tekst eitthvað má maður ekkert gera!- Svona ímynda ég mér að Dagbjartur Elí hugsi núna. Hann er semsagt farinn að setjast upp og standa upp nánast eins og honum hentar hvar og hvenær sem er og þá er auðvitað ekkert gaman að fara að sofa lengur, miklu skemmtilegra að leika listir sínar! Annars sofnar hann nú alltaf á endanum, enda á fullu allan daginn. Hann er reyndar ekki enn farinn að skríða á fjórum fótum, ég vona nú samt hann geri það áður en hann fer að ganga. Annars er hann að fá tennur í efrigóminn núna og voðalega stuttur í honum þráðurinn þessa dagana.
Svo ég gefi nú ástæðu fyrir þessu bloggleysi að undanförnu þá eru þær eiginlega tvær. Ég byrjaði að skirfa eitthvað í síðustu viku en var svo andlaus að það varð ekkert birt. Svo vorum við að koma úr haustfríi og þar sem tölvan var ekki með í för var ekkert bloggað á meðan. Það hefur ýmislegt verið að gera hjá okkur. Fórum í síðustu viku að heimsækja orþódoxkirkju sem mér fannst að mörgu leiti mjög sérstök upplifun. Þessi kirkja er mjög sérstæð í alla staði. Reyndar eru þeir ekki í uppáhaldi hjá okkur þar sem þeir eiga það til að halda okkur vakandi heilu og hálfu næturnar. Það er ss. krikja hér hinum megin við ána sem við búum við. Stundum hefja þeir bænagjörð, kyrjandi í hátalra sem stilltur er á hæsta svo örugglega heyrist um allt hverfið, kl 2 á nóttunni. Í nótt t.d. og fyrri nótt byrjuðu þeir kl. 2 og héldu stanslaust áfram til hálffjögur. Þá var gert klukkutíma hlé en svo haldið áfram frá kl. 3:30 og fram undir hádegi. Þannig að við erum frekar illa sofin. Það er stundum eins og prestarnir standi í fullum skrúða á miðju svefnherbergisgólfinu!- En nóg um það í bili.

Í síðustu viku fórum við líka í tvær veislur, fimmtugsafmæli til nágranna okkar, Jörns Lemvik og svo í útskriftarveislu til dóttur húshjálpar Ragga og Kíu. Ég fór líka í tvær sængurkvennaheimsóknir og sá tvær litla prinsessur. Önnur er bróðurdóttir Mörtu vinkonu minnar en hin dóttir konu sem vinnur á skrifstofu kristniboðsins. Það er siður hér að bjóða upp á sérstakan sængurgraut (á norsku kalla þeir það barselgröt). Hann er búinn til úr byggi og er mjög þykkur og er borinn fram með smjöri og berberre (eþíópsk, sterk kryddblanda). Mér finnst þetta mjög gott. Margrét Helga og Jóel fóru með mér til mágkonu hennar Mörtu og fengu líka að smakka graut. Marta setti bara lítið berberre og þau borðuðu með bestu list.

Eins og áður sagði var svo haustfrí í síðustu viku, frá miðvikudegi. Við ákváðum að skella okkur til Awassa (borg/bær í 300km fjarlægð suður af Addis Abeba) þar sem kristniboðið á frístað (ferieplass) hálfgerðir sumarbústaðir. Þetta er alveg yndislegur staður, fullt af fallegum gróðri, mikið fuglalíf og ekki síst alveg ótrúglega afslappandi að vera þarna. Þarna er leiksvæði fyrir krakkana og sundlaug., getur bara varla verið betra. Þegar ég sagði krökkunum að við værum að hugsa um að fara í ferðalag sögðu þau” Við viljum ekki fara í ferðalag, við viljum fara til Awassa!” Þau höfðu heyrt hina krakkana tal eitthvað um þetta. Svo þurfti nú að útskýra fyrir þeim að í Awassa bæru sumar flugurnar sjúkdóm sem heitir malaría og þess vegna þyrftum við að taka lyf. Margrét Helga ætlaði þá bara að vilja hætta við allt saman því hún hélt hún þyrfti að fá sprautu (greinilega ekki búin að gleyma öllu sprautuveseninu!) en þegar í ljós kom að þetta væru bara töflur var þetta nú bara dáldið spennandi. Hún sagði ömmu og afa í síman í gær að hún þyrfti að taka lyf því flugurnar í Awassa væru með “sjúkdómi sem héti maralía”. Krakkarnir undu sér mjög vel. Jóel var reyndar eitthvað pínu óöruggur fyrsta kvöldið og hélt við værum að flytja enn einu sinni. Hann sagði við mig þegar við vorum komin:”Mamma við eigum svo mörg heimili” En ég reyndi að útskýra fyrir honum að við myndum bara vera þarna í fríi í nikkra daga og fara svo aftur heim til okkar á Mekanissa. Litla greyið er búinn að vera pínu óöruggur upp á síðkastið. Hann er ekki jafnduglegur að tjá sig í orðum og systir hans svo þetta kemur öðruvísi út. Þið meigið gjarnan muna eftir honum í bænum ykkar. Margrét Helga fór með pabba sínum á fiskimarkaðinn sem er þarna við vatnið og fékk að fara í hestvagn sem eru eiginlega leigubílar staðarins. Svo fórum við út að borða og höfðum það bara rosalega huggulegt.Við ákváðum að vera bara fram á laugardag því ég átti að sjá um sunnudagaskólann í gær og svo fannst okkur líka ágætt að hafa einn dag heima áður en skólinn byrjaði þar sem þetta var nú fyrsta ferðalagið okkar. Það gekk vel að keyra en heimferðin var dáldið strembin. Við ákváðum að kíkja við í Langanó á bakaleiðinni (sem er líka vatn og vinsæll frístaður) þar sem Craig og Alison, vinahjón okkar, voru með hús. Það tók dáldinn tíma að finna staðinn sem þau voru á og vegurinn ekki sá besti. Minnsti prinsinn er ekkert voðalega hrifinn af svona leiðinlegum vegum og kvartaði sáran alla leiðina! En við fundum þau á endanum og krakkarnir gátu aðeins buslað í vatninu. Við vorum síðan aðeins lengur á leiðinni til Addis en við höfðum áætlað vegna þungrar umferðar síðustu 100 km. Ljósin á bílnum eru ekki góð og það er engin lýsing á vegunum fyrr en maður er kominn inn í borgina þannig að Kristján var alveg uppgefinn eftir keyrsluna. Þetta gekk þó allt vel þótt krakkarnir hafi verið orðin dáldið þreytt og pirruð. Þau voru líka fljót að sofna þegar heim var komið.

Í gær fórum við svo í kikrju og ég var nú bara með sunnudagaskólann á íslensku (það er sér fyrir norðurlandabörnin) því fimm af 7 börnum voru íslensk! (Hn tvö voru svo lítil að það breytti litlu hvort eð var. Þau voru nú bara hæst ánægð með það krakkarnir. Svo fórum við með Kíu og Ragga og krökkunum út að borða.

Við vorum nú síðan fremur framlág í skólanum í morgun vegna framangreindrar ástæðu en maður verður bara að láta sig hafa það. Þeir segja kennararnir að nú séum við að fara í erfiðasta kaflann í bókinni. Amharíska málfræðin byggir að mestu leiti á mismunandi beygingum sagna og það er stundum mjög erfitt að púsla þessu öllu saman. Núna er líka enskan fyrir mig allavega orðin flóknari en mér finnst mér samt ganga nokkuð vel að ná þessu. Ég reyni líka bara stundum að vera ekkert of mikið að spá í enskuna heldur einbeita mér að amharískunni.(kennslan fer auðvitað öll fram á ensku)

En nú er enn einn dagur að kveldi kominn, bóndinn í bolta eins og alltaf á mánudagskvöldum og börnin sofnuð. Ég held ég fari að segja þetta gott í bili. Þið ættuð nú fljótlega að geta séð nýjar myndir en fyrir ykkur sem ekki hafa kíkt á myndir frá okkur má finn þær á http://gallery.askur.com/fyrogflamme


“En er gæska Guðs frelsara vors og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskun sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja. Hann úthellti anda sínum yfir oss ríkulega fyrir Jesú Krist frelsara vorn, til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs” Tít. 3:4-6

mánudagur, október 10, 2005

Takk fyrir mig!!!!

10. okt

Ég ætla nú að byrja á því að þakka kærlega fyrir allar kveðjurnar á síðunni og í tölvupósti og fyrir allar gjafirnar. Ég er alveg svakalega þakklát fyrir þetta allt saman. Kristján minn pantaði frá Þýskalandi hljómborð handa mér sem fjölmargir vinir og ættingjar hafa átt þátt í að gefa mér. Það er nú ekki enn komið, við bíðum eftir tilkynningu frá tollinum og ég er farin að hlakka mjög mikið til að fá það. Ég er svo mikið í tónlistarstússi hér og verð örugglega enn meira í framtíðinni svo þetta er bara alveg frábært, nauðsynlegt fyrir mig að hafa gott hljóðfæri. Ég er á leiðinni að fara að svara öllum tölvupóstinum sem ég búin að fá en það tekur smá tíma... En enn og aftur kærar þakkir fyrir þetta allt saman!!!

Við áttum mjög góðan dag á föstudaginn. Matarboðið heppnaðist mjög vel og gaman að fá fólk í heimsókn. Þetta var svona mestmegnis skólafélagar okkar og nágrannar, eitthvað hátt í 20 manns með börnum. Ég hafði nú vonast til að hægt væri að sitja úti en regntíminn virðist ekki alveg ætla að segja skilið við okkur svo það var nú ekki hægt. Þetta slapp samt mjög vel og ég held að allir hafi verið ánægðir, maturinn var amk mjög góður! Svo var líka kaka og að beiðni barna minna voru kerti á kökunni. Reyndar bara þrjú, eitt fyrir hvern tug, sem Margrét Helga og Jóel hjálpuðu mér að blása á. Um kvöldið var síðan Kía svo elskuleg að líta eftir krökkunum á meðan við hjónin brugðum okkur út að borða. Við dressuðum okkur upp í okkar fínasta púss og ég fékk í fyrsta skipti tækifæri til að nota fínu skartgripina sem ég fékk frá saumó- ég er ekkert smá ánægð með þetta stelpur! Kristján bauð mér síðan á Sheraton (við förum að vera fastagestir þarna!!) Þegar við komum þangað spurðum við einn vörðinn hvaða veitingastaðir væru þarna og hverju hann mælti með. Ég valdi síðan franskan stað þar sem ég hafði aldrei farið á franskan áður. Það reyndist svo dýasti staðurinn á hótelinu- en þetta var allavega helmingi ódýrara en heima, maturinn mjög góður og toppþjónusta. Svo held ég nú að þetta sé eitthvað sem við gerum ekkert aftur hér, amk verður leitun að öðru eins tilefni til þess. Allvega var þetta bara alveg frábær dagur.

Um helgina vorum við voðalega uppgefin eitthvað (erfitt að verða þrítug!!) Ég held bara að það hafi verið að hellast yfir mig þreyta eftir veikindi Kristjáns sl. tvær vikur. Laugardagurinn varð því hálf eitthvað letilegur og sunnudagurinn líka nema hvað ég fór að spila með Ten sing í kirkjunni. Krsitján var bara heima með krökkunum því hann er bara ekki alveg orðinn nógu góður ennþá þótt þetta sé nú allt mjög í áttina. Það gekk bara vel í kirkjunni nema hvað sumt hefði mátt vera aðeins betur æft, þá meina ég helst samhæfing milli spilara og kórsins. En þetta kemur nú allt. Fyrsta skiptið sem akkurat þessi hópur kemur fram. Krakkarnir voru líka með drama og dans sem tókst mjög vel. Sérstaklega dansinn, þar sem þau túlkuðu Faðir vor- mjög flott. En það besta var nú að í upphafi messunnar fór rafmagnið af sem ekki er nú í frásögu færandi hér, nema hvað allt sem átti að gerast í messunni gerði ráð fyrir rafmagni, undirleikur drama og annað. Þetta reddaðist nú allt en í lok messunnar var sungið “Shine Jesus shine” og viti menn í þann mund sem viðlagið var sungið kviknuðu ljósin, hefðum betur sungið þetta fyrr! En svona er þetta nú hér í landi, það er ómögulegt að treysta á rafmagnið. Það er daglegt brauð að það fari, þó yfirleitt sé það ekki nema stutta stund í einu.


Gullkorn:
Jóel sagði mér í dag að nú væri hann hættur að nota nærbuxur, hættur að nota bleyju og hættur að nota nærbuxur, svo þar hafið þið það! (Mér tókst nú samt að fá hann í nærbuxur áður en hann fór að sofa svo hann vonandi áttar sig á að þetta með bleyjurnar og nærbuxurnar er ekki alveg sambærilegt!)

Í dag skruppum við út í búð, ég MH og JK. Margrét Helga sagði mér þá að hún ætlaði að verða húshjálp hjá Fantanesh, Jóel ætlar að verða húshjálp hjá Asnakú!


Ég kveð að sinni með orðum úr spádómsbók Jesaja:

“Grasið visnar og blómin fölna en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega” Jes. 40:8

“Veistu ekki? Hefir þú ekki heyrt? Drottinn er eilífur Guð er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg. Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. Ungir menn lýjast og æskumenn hníga, en þeir sem vona á Drottinn, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki” Jes. 40:28-30

fimmtudagur, október 06, 2005

6. okt

Þá styttist í að maður komist á fertugsaldurinn! Uffa meg!! Nei, nei þetta er nú ekkert svo voðalegt. Kanski maður sé þá orðinn fullorðinn! Annars held ég að maður sé aldrei eldri en manni sjálfum finnst og mér finnst ég alltaf bara vera 17! Ætli það sé ekki meira sjokk fyrir mömmu og pabba að eiga dóttur á fertugsaldri....og þau ekki nema rétt rúmlega fimmtug!
En nóg um það...

Hér hefur, Guði sé lof, allt verið með kyrrum kjörum. Ég veit nú ekki hvernig þessi fundir forsætisráðherrans og stjórnarandstöðunnar fóru en allvega er allt rólegt og við erum Guði þakklát fyrir það. Vonandi bara að þetta verði allt fiðsamlegt áfram. Á sunnudaginn hlýddum við auðvitað yfirmanni okkar og héldum okkur heima. Við reyndar fórum aðeins yfir á seminarlóðina sem er hér við hliðina, í smá göngutúr með krakkana. Við fórum því aðeins út fyrir lóðina. Það var alveg rosalega rólegt, nánast allt lokað og mjög fátt fólk og bílar á götunni sem bara gerist varla hér í Addis. Þetta var svona eins og sunnudagur í Reykjavík en ekki venjulegur sunnudagur í Addis Abeba. Fólk virðist hafa ákveðið að hafa hægt um sig. Einn kennarinn í skólanum sagði okkur að það hefðu komið hópar fólks frá nágrannabæjunum sem hafi ætlað að taka þátt í mótmælunum. Þetta fólk hafði ekki frétt af því að þeim hefði verið frestað. Við bara biðjum áfram og þið megið biðja með okkur fyrir friði hér. Einnig að það geti komist á sættir svo fólkinu hér megi líða vel og vera sátt.

Kristján er allur að skríða saman en á nú samt dálítið í land með að ná fyrri kröftum. Þetta virtist vera einhver vírus svo þetta verður bara að fá að taka sinn tíma. Hann fór í skólann í fyrsta skipti í gær en fór heim eftir fyrstu fjóra tímana. Síðustu tvo tímana var ekki venjuleg kennsla þannig að það kom ekki mikið að sök. Í dag hafði hann heldur ekki orku í meira en fjóra tíma. Þetta virðist bara taka tíma.
Síðan ég skrifaði síðast hefur lífið bara gengið sinn vanagang hér svona fyrir utan veikindi bóndans. Krakkarnir eru svo ánægð hér. Þau eru úti allan daginn að leika með barnfóstrunni sinni svo eru vaktirnar alveg ótrúlega miklir barnakarlar og eru duglegir að leika við krakkana sem þeim finnst sko ekki leiðinlegt. Ég er einmitt búin að vera að hugsa um það upp á síðkastið hvað .það eru í raun og veru mikil forréttindi að fá að vera hér. Maður fær svo mikla hjáp á heimilinu, börnin eru svo frjáls fyrir nú utan að sleppa við að dressa þau upp í kuldaföt! Við fáum að læra ný tungumál, kynnast annari menningu og ég gæti bara haldið endalaust áfram. Allavega þá líður okkur mjög vel hér. Það eina sem vantar eru vinir og fjölskyldan heima! Ég er samt sannfærð um það að samband okkar við fólkið heima verður ekkert síðra þrátt fyrir fjarlægðina. Guð hefur ákveðið að senda okkur hingað og ég veit að hann mun blessa okkur á svo margan hátt fyrir það, og það gerir hann nú þegar.
Ég hafði pínu áhyggjur af Margréti Helgu um daginn, að hún væri að fá eitthvert bakslag en það varð svo bara að engu. Það er svo mikið að gera hjá henni allan daginn. Í fyrradag var hún úti með Hörpu Vilborgu og vinkonu hennar að sippa og fl. Henni finnst alveg æðislegt að vera með stóru stelpunum og þær eru líka svo góðar við hana. Svo eru tvær stelpur, systur 13 og 15 ára sem búa hér við hliðina á okkur sem þau eru líka mjög hrifin af.Svo finnst þeim líka svo rosalega gaman í leikskólanum. Núna undanfarna morgna hefur Jóel alltaf flýtt sér að borða morgunmatinn svo hann geti teiknað mynd handa Elisabeth sem er kennarinn þeirra. Hann er síteiknandi og litandi. Svo alltaf þegar hann er búinn að teikna pakkar hann myndunum saman og vill líma þær.
Dagbjartur Elí dafnar líka vel. Hann reyndi nú barasta að standa upp á föstudaginn var. Ég sat við tölvuna þegar ég sá allt í einu lítið andlit birtast hinum megin við borðið! Svo reyndi hann aftur við borðstofuborðið en þá datt hann. Þetta er nú kanski í snemmsta lagi en systkini hans voru nú líka 8 mánaða þegar þau stóðu fyrst upp, reyndar í rúminu, en.. Hann skríður á maganum, mest afturábak en tekst nú líka stundum að koma sér áfram. Þá liðast hann eins og lítill ormr. Hann er að reyna að fara á fjórar fætur þannig að þetta fer nú allt að koma. Ætli rólegheitin séu ekki að verða liðin hér á bæ í bili. Hann er alltaf jafn glaður og brosmildur. Hann elska tónlist og tekst á loft þegar við setjum geisladisk í spilarann, eiginlega alveg sama hverskonar tónlist. Svo finnst honum svakalega gaman að spila á trommu! Þegar við syngjum borðsönginn þá leikur borðið allt á reiðiskjálfi því hann slær taktinn og dillar sér á fullu. Honum finnst svo gaman að láta syngja með sér og einnig les fyrir sig. Amma sendi krökkunum bækur sem þau fengu í gær og voru öll svo ánægð. Takk fyrir það amma mín, pabbi kemur þessu eflaust til ykkar.

Í gær var ég aftur með æfingu hjá tensing. Þau eiga að syngja í kirkjunni á sunnudaginn og ég á að spila. Það er nú ýmislegt sem maður lætur hafa sig út í að gera hér sem maður myndi aldrei gera heima, svona eins og að spila He reigns (Brooklin lagið ekki Kirk Franklin, fyrir ykkur sem vitið hvað ég er að tala um) Ég hef nú aldrei litið á mig sem neinn píanista en hér er ekki beint um auðugan garð að gresja svo maður bara verður að hella sér út í hlutina. Það er bara fínt stundum þá tekst maður á við hluti sem maður annars myndi aldrei lá sér detta í hug að koma nálægt. Ég held það hljóti bara bara að þroska mann.Annars er ég með frábæran norskan gítarista með mér og svo er einn strákur í kórnum sem er bara nokkuð brattur á trommur sem spilar líka. Við bara gerum okkar besta og treystum því svo að Guð geri restina- þe. að blessa söfnuðinn með tónlistarfluttningnum. Hópurinn samanstendur af unglingum á aldrinum 12 – 17 ára. Mér finnst mjög gefandi að fá að taka þátt í þessu og þetta eru líka svo heilsteyptit og frábærir krakkar. Svo jákvæð og skemmtileg.

Í gær ákváðum við Alf Åge sem er gítaristinn, að stofna grúppu og syngja gospel og annað skemmtilegt. Konan hans er líka mikil músíkmanneskja og svo ætlum við bara að safna liði. Það verður gaman og ég er farin að hlakka til.

Jæja, svo er stóri dagurinn á morgun, afmælið mitt ,brúðkaupsafmælið okkar Kristjáns, skírnarafmæli Margrétar Helgu og svo hefði Helga amma orðið 81 árs. Ég er búin að bjóða dáldið af fólki í mat á morgun eftir skóla. Fantanesh er búin að vera að elda wodd svo það er himneskur ilmur í íbúðinni núna. Svo vorum við hjónin að spá í að fara kanski eitthvað út annað kvöld ef við fáum pössun.

Annars vona ég að þið hafið haft gaman af að sjá myndirnar. Við ættum að geta bætt við nokkuð reglulega.



“Gott er að lofa Drottinn og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti, að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur”
Sálm. 92.:2-3