Helga Vilborg og Stjáni Sverris

mánudagur, nóvember 21, 2005

Jóla hvað????

19. nóv. 05

Ég er alltaf að hugsa með mér að ég verði að fara að skrifa oftar svo þetta verði ekki alltaf svona svakalegar langlokur en það er bara svo mikið að gera – en allvega þá er ég byrjuðað skrifa eitthvað núna....

Ég var að fatta í dag að fyrsti sunnudagur í aðventu er eftir viku. Það er ekki alveg sama jólabrjálæðið hér og heima, eiginlega langt í frá og mér finnst það bara fínt, ég held maður njóti jólanna bara betur. Það eina sem minnir á jól eru pakkarnir sem farnir eru að berast okkur. Það verður heilmikið um að vera hér á aðventunni svo jólin ættu ekkert að fara framhjá okkur. Eþíópísku jólin eru ekki fyrr en í byrjun janúar auk þess sem þetta er ekki eins stór hátíð hjá þeim eins og okkur. Hér eru áramótin (eþíópsku sem eru í sept.) og páskarnir miklu stærri hátíðir. Mér skilst að þó séu vestrænar hefðir alltaf meira og meira að skjóta upp kollinum hér og eitthvað um að fólk sé farið að skiptast á gjöfum og skreyta eitthvað en ég held að það sé meira á meðal hinna efnuðu.

Það hefur verið mjög friðsælt að undanförnu og alríkislögreglan búin að sleppa 9 þúsund föngum úr haldi. Þessu er samt ekki lokið, þetta kraumar allt ennþá. Það er mikið af vopnuðum lögreglumönnum og hermönnum á götunum sem ég held að séu fyrst og fremst til að minna á valdið. En lífið gengur ss. aftur sinn vanagang, amk hjá okkur.

Sl. laugardag var grill hér á lóðinni. Það var farið út með stóla og borð og við grilluðum öll saman á veröndinni hjá Thomasi þýska sem er með okkur í skólanum. Svo var farið í leiki, spilað blak og Jorunn og Jörn buðu svo í kaffi úti á stétt. Þetta var voða gaman og verður örugglega endurtekið. Á sunnudaginn fórum við í kirkju, ég var að spila og svo út að borða á kínverskan stað ásamt Kíu og fjölskyldu og Randi og Tormod Bö og börnunum þeirra tveimur. Á mánudaginn fór ég bara í fyrsta tímann í skólanum því ég þurfti að fara með minnstamanninn í sprautu. Það gekk bara voða vel allt saman. Hann er að þroskast svo mikið núna. Kann að leika “týndur”, gengur allsstaðar meðfram og er farinn að príla upp tröppurnar- þannig að nú er friðurinn algjörlega úti! Svo er hann meira að segja farinn að segja nokkur orð. Ég var alveg búin að búa mig undir að hann yrði talsvert seinni til en hin þar sem hann er með svo mörg tungumál í kringum sig en svo virðist nú ekki vera. Auk þess að segja mamma og babba segir hann “da” sem þýðir takk og svo segir hann datt og “goy” (explosive g) sem er amharíska og þýði bíddu. Þetta er svo skemmtilegur tími og hann er svo mikil krúsídúlla þótt ég segi sjálf frá! Eftir sprautuna fékk hann að fara aðeins í heimsókn á leikskólann og fannst það nú ekki leiðinlegt, að vera með öllum stóru krökkunum! Margrét Helga, Jóel og Friðrik Páll þurftu auðvitað að sýna mér allar listir sínar og svo komu þau með okkur heim í bílnum.
Mig minnir að þriðjudagurinn hafi nú bara gengið venjulega fyrir sig og líka miðvikudagurinn nema hvað þá ákvað ég að gera aðra tilraun í dáldinn tíma til að fara út að hlaup og uppskar fyrir vikið slæmt astmakast- verra en síðast þegar ég reyndi. Ég var bara búin að vera sæmileg í nokkra daga svo ég ákvað að prófa en þetta er nú ekki skemmtilegt. Tuula gat bjargað mér um púst en ég var svo eftir mig eftir þetta að ég varð að vera heima á fimmtudagsmorguninn. Á fimmtudagskvöldið skiptum við svo liði fjölskyldan. Strákarnir höfðu það huggulegt hér heima en við Margrét Helga fórum á Misjonsforenings Basar á norska skólanum. Það var matur og kaffi og svo var happdrætti og tombóla. Það var alveg yndislegt að fara svona ein með litlu konunni. Hún var svo mikil dama í kjól og með veski og naut þess alveg í botn að fá að vera ein með mömmu. Ég held líka að strákarnir hafi haft það mjög gott hér heima. Þau þurfa stundum að fá smá tíma í sinhvoru lagi. Þetta var líka svo seint að Jóel hefði ekki haldið þetta út og heldur ekki Dagbjartur Elí.
Á föstudaginn fórum við svo í fjallgöngu með málaskólanum. Það var farið í þjóðgarðinn sem við fórum með Kíu og Ragga í haust en nú átti að ganga á fjallið. Síðustu vikur hefur verið glampandi sól og heiðskýrt en á fimmtudag og föstudag var skýjað og þoka og meira að segja dropar úr lofti þrátt fyrir að nú sé þurrkatími. En við héldum ótrauð af stað. Það var byrjað á því að borða injera og wodd og fleira góðgæti en svo var haldið af stað. Það var alveg skýjað og vorum við frekar svekkt yfir því þar sem það er útsýni þarna yfir alla Addis ef skyggni er gott. Þegar við vorum að nálgast toppinn byrjaði svo að rigna og það rigndi og rigndi á okkur svo allir voru orðnir mjög blautir og kaldir áður en langt um leið. Fæstir höfðu gert ráð fyrir þessu veðri í miðjum þurrkatímanum en svona getur þetta víst stundum verið og þá ekki síst í fjöllunum. Þetta minnti mann nú bara dáldið á göngu í íslensku sumarveðri! Það blés líka köldu svo maður var svona frekar slæptur þegar til baka var komið. Þar sem allir voru eins og dregnir af sundi stoppuðum við ekki lengi þegar niður var komið heldur héldum beint heim. Í þann mund sem við keyrðum af stað byrjaði að létta til og þegar við komum niður af fjallinu var orðið heiðskýrt. Einhver hafði á orði að þetta við hlytum að hafa varið 4 verstu klukkutímum þurrkatímans þarna uppi, amk veðurfarslega séð. Þrátt fyrir þetta var þetta bara mjög hressandi og skemmtilegt. Maður kynnist líka bæði nemendum og kennurum á annan hátt í svona ferð.
Litla fólkið var svo búið að bíða spennt eftir laugardeginum þar sem þá átti hið árlega Addis hlaup að fara fram. Á hverju ári hlaupa nemendur norska skólans og safna pening fyrir ákveðnum málefnum með því að safna áheitum. Í ár fara peningarnir til heimavistarskóla fyrir sómölsk börn í Filtu og til heimilis fyrir HIV smituð börn hér í Addis. Margrét Helga spurði á föstudagskvöldið þegar hún var að fara að sofa hvort jólin væru á morgun og þegar ég sagði nei spurði hún hvort það væri Addishlaup svo hún var mjög spennt. Þau drifu sig á fætur á laugardagsmorguninn og byrjuðu strax að hlaupa hér fyrir utan. Við fórum svo hér upp á seminarlóð þar sem hlaupið var haldið. Hlaupinn var 500m hringur og höfðu krakkarnir einn og hálfan klukkutíma til að hlaupa eins marga hringi og þau gátu. Margrét Helga hljóp 6 hringi og Jóel 4 og hefðu þau eflaust getað hlaupið fleiri en þau voru orðin frekar svöng. Síðan borðuðu allir saman áður en öllum þátttakendum voru afhent viðurkenningarsköl. Þetta var voða skemmtilegt og krakkarnir ánægð með daginn. Við ákváðum svo bara að vera heima og taka því rólega í gær enda frekar þreytt eftir hlaup og fjallgöngur undanfarna daga. Dagbjartur Elí hefur líka verið frekar órólegur í svefni undanfarið sem ég held að sé fyrst og fremst tanntöku um að kenna en veldur því auðvitað að maður er hálfsyfjaður alla daga. En þetta gengur nú allt yfir um síðir. Ætli ég segi þetta þá ekki bara gott í bili en enda á tveimur gullmolum. Ég læt líka fylgja með heimilisfangið okkar og netfang ef einhverjir vilja senda okkur kveðju um jólin.

Gullmolar:
Jóel kom auga á spegilmynd sína í sjónvarpinu og hrópaði upp yfir sig:”Nei, þarna er Ég Kristjánsson!”. Seinna var hann að athuga hvort þeirra ætti hvaða leikskólatösku:”Jú þetta er mín, hérna stendur Ég Kristjánsson!”

Margrét Helga:”Mamma þú átt að ná í vatn að drekka fyrir mig”
HVS: “Á ég að ná í vatn handa þér?”
MHK: “Já takk, kæra frú!”




Heimilisfangið okkar er

NLM (Norwegian Lutheran Mission)
PO. BOX 5540
Addis Abeba
Ethiopia

Netfangið: ethiopia2005@hotmail.com




“En vorar þjáningar voru það sem hann bar,og vor harmkvæli er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítilættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin sem vér höfðum til unnið kom niður á honum og fyrir hans benjar urðum við heilbrigðir.” Jes. 53:4-6

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Friður(?)

10. nóv

Þá virðist allt vera að komast aftur í fyrra horf hér í Addis, amk svona á yfirborðinu. Í gær fóru leigubílar aftur að ganga og búðirnar að opna hver af annari. Það kemur nú ekki alveg til af góðu því lögreglan þvingar fólk til að vinna. Leigubílstjórarnir missa leyfi og ökuskírteinin ef þeir ekki vinna og sömu sögu er að segja um búðareigendur, búðirnar verða innsiglaðar og þeir missa verslunarleyfi. Þannig að verkfallið sem standa átti amk í fimm daga er farið út um þúfur. Þótt friðsamlegt sé í borginni og skólarnir (bæði norski skólinnog málaskólinn)hafi aftur hafið venjulega kennslu er ekki allt sem sýnis. Enn er fólk óttaslegið því framtíðin er óviss. Eins er lögreglan ennþá að leita að ungu fólki (ég hef heyrt að þeir taki ekki bara stráka) sem margt hvert er í felum af ótta við að lögreglan komi heim að nóttu til. Þetta unga fólk hefur ekkert til saka unnið þannig að þetta er alveg skelfilegt og hversu lengi þeir halda áfram svona veit enginn. Í fyrri nótt var komið á lóðina þar sem húshjálp Kíu og Ragga býr og gamlir menn teknir fyrir að vera hliðhollir stjórnarandstöðunni. Ég bið ykkur því að halda áfram að biðja fyrir Eþíópíu, það hefur margt og mikið verið lagt á þessa þjóð í gegnum tíðina.

Ég er nú með gleðifréttir líka. Í dag fengum við vegabréfin okkar og landvistarleyfinu framlengt um þrjá mánuði, þannig að nnú er góður tími til að vinna í atvinnu- og dvalarleyfinu.

Í gær var ég með Ten- sing æfingu sem ég hef einu sinni í mánuði. Mér finnst þetta mjög gaman og það gefur mér líka mjög mikið. Ég finn það að ég hressist öll, bara við að fást eitthvað aðeins við músík. Ég vona líka að við förum að geta startað sönghópnum sem við hérna nokkur höfum verið að tala um. Það hefur lítið verið hægt að gera sl. daga en vonandi getum við hist fljótlega- ég verð að fara að syngja!!! Annars var ég líka að byrja aðeins að kenna á píanó í dag. Bekkjarsystir okkar sem heitir Veronika og er frá Kenýju spurði mig hvort ég gæti aðeins kennt henni svo hún gæti spilað undir söng í kirkjunni sinni. Hún kann dáldið í tónlist, spilar á afrískar trommur en vantar smá hjálp til að geta spilað undir á píanó. Hún kom hingað í dag og við kíktum aðeins á þetta.

Krakkarnir voru ánægð að geta farið aftur í leikskólann, sérstaklega Margrét Helga. Jóel vakti í fyrri nótt í einn og hálfan tíma og svaf svo til 9 daginn sem leikskólinn byrjaði aftur. Ég bara gat ekki vakið hann. Hann var líka alveg sáttur við að fá að vera heima og hafa Asnakú út af fyrir sig! Hann sagði samt að á morgun ætlaði hann sko í leikskólann.
Systkinin stofnuðu hljósmsveit í gær og skiptust á að syngja, dansa, spila á hljómborð og blokkflautu- ægilegt stuð. Dagbjartur Elí elskar tónlist og tekst allur á loft þegar við byrjum að syngja eða hlustum á geisladisk. Í gær voru líka allir verðirnir hér í kasti þegar hann byrjaði að dansa. Einn þeirra var með lítið vasaútvarp og var að hlusta á tónlist. Um leið og litli maðurinn heyrði þetta fór hann að dilla sér í takt. Í gær þegar hann var að spila á hljómborðið beygði hann annað hnéð í takt eins og alvöru poppari! Ekkert smá krúttlegt. Um daginn var ég að gefa honum pela og það var kveikt á sjónvarpinu. Á dagskránni voru eþíópskir þjóðdansar með tilheyrandi tónlist sem er mjög taktföst. Sá stutti þurfti alltaf að taka sér reglulega hlé á mjólkurþambinu til að dansa pínu lítið!

Ég læt þetta duga að sinni- ágætt að hafa þetta stutt svona einu sinni! Ég bið ykkur að afsaka allar stafsetningar og innsláttarvillurnar í síðasta pistli- var orðin eitthvað þreytt...


“Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum”
2. Kor.13:13


http://gallery.askur.org/fyrogflamme

mánudagur, nóvember 07, 2005

7. nóvember

7.nóv

Þá er kominn tími á fréttir. Ég hef ekki verið mjög upplögð til skrifta undanfarna daga þar sem ástandið hér er mjög sérstakt. Ég held ég byrji bara þar sem frá var horfið síðast og kem svo að því sem hefur sett mark sitt á lífið hér í Addis að undanförnu. Á mánudaginn varð ekkert úr því að við hjónin færum í skólann þar sem við þurftum að mæta á skrifstofu Kristniboðsins snemma um morguninn þar sem það er verið að vinna í því að framlengja landvistarleyfið okkar. Þetta fór nú mest í bið og svo notuðum við ferðina reyndar til að gera ýmislegt sem við þurftum í bænum. Við höfum ekki enn fengið landvistarleyfi og passarnir okkar eru núna á “immigration” (útlendingaeftirlitinu). Þið megið gjarnan halda áfram að biðja fyrir þessu með okkur ekki síst miðað við hvernig ástandið hér er núna.
Á þriðjudaginn var skóladagurinn dáldið sérstakur. Það hafði verið slegið saman til að kaupa tvær kindur sem var svo slátrað og og eldaður matur sem við síðan borðuðum öll saman. Þetta var mjög skemmtilegt þó svo kjötið hafi nú verið langt frá því að líkjast íslensku lambakjöti!

Þá er það miðvikudagurinn. Við mættum í skólann eins og venjulega en dálítið seint þar sem fáir leigubílar voru á ferli og þar sem bæði barnapían og húshjálpin okkar eru háðar þeim til að komast leiðar sinnar komust þær ekki fyrr en nokkuð seint. Flestir íbúar Addis notast við leigubíla sem keyra eftir áætlun, til að komast leiðar sinnar. Á miðvikudaginn höfðu greinilega nokkrir leigubílstjórar ákveðið að leggja niður vinnu sína í mótmælaskyni við ríkistjórnina. Það hafði verið búið að tilkynna að allsherjar mótmælaverkfall ætti að hefjast þegar ramadan- föstumánuði múslima, lyki og var það á fimmtudaginn. Þegar nokkuð var liðið á skóladaginn heyrðum við að lögreglan væri farin að hefja skothríðir hér og þar. Daginn áður höfðu börnin á norska skólanum verið send heim þar sem einhversstaðar í bænum höfðu verið óeyrðir og því var skólanum aflýst á miðvikudaginn. Kl ellefu var okkur tilkynnt að ástandið í bænum væri orðið það slæmt að ákveðið væri að loka málaskólanum til að fólk gæti flýtt sér heim áður en ástandið versnaði. Þeir nemendur sem höfðu bíla tóku að sér að keyra samnemendur og kennara heim. Kristján og Raggi ákváðu að fara saman á “minibussinum” og keyra tvo kennara auk húshjálpa og starfsfólks hér á lóðinni heim. Þeim tókst að skila tveimur heim til sín en þegar þeir ætluðu lengra heyrðu þeir skothljóð og hópur fólks kom hlaupandi á móti þeim þannig að þeir sáu ekki annað í stöðunni en að snúa til baka heim. Það var mjög skrítið andrúmsloft á lóðinni allan miðvikudaginn, fólk hrætt og ráðþrota. Flestar húsjálpirnar fóru síðan heim fótgangandi í eftirmiðdaginn og komust allir heilir heim. Við heyrðum áfram skothvelli allan daginn, stundum mjög nálægt okkur en við vorum aldrei í neinni hættu hér á lóðinni. Það lést talsvert af ungu fólki, við höfum heyrt tölur alveg frá um 30- 40 manns upp í á milli 100 og 200. Við höfum leika heyrt sögur um að lögreglan hafi fjarlægt lík svo það er erfitt að segja hvað eru réttar tölur. En eitt er víst að margir eru í sárum og margir hræddir.
Fimmtudagurinn var svo opinber frídagur hér í landinu þar sem múslimar fögnuðu lokum ramadan. Það voru einhverja óeirðir áfram á fimmtudeginum en þó ekki eins mikið og á miðvikudag. Það sem veldur þessu er að fólkið er ósátt við stjórnvöld og úrslit kosninganna sem fóru fram í sumar. Fólkið, aðallega ungt fólk hefur því verið að mótmæla með því að loka götum með steinum og og logandi dekkjum og með því að brenna strætisvagna sem eru ríkisreknir. Stjórninnni hefur nú tekist að handtaka alla helstu leiðtoga stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það af fólkinu.
Föstudagurinn og helgin virtust nokkuð róleg. Það keyrðu engir leigubílar og flestar búðir lokaðar. Á sunnudaginn var það rólegt að ákveðið var að boða á norska skólann þar sem við komum með mat og borðuðum saman. Það var gott að komast aðeins út af lóðinni en við erum bara búin að halda okkur heima að undanförnu. Það var rólegt í bænum í gær nánast engar löggur á ferli og engir leigubílar. Það eina góða við þetta að nú er umferðin mun minni og mengunin líka.
Í dag hófst verkfallið svo opinberlega. Það var ákveðið í gær að það yrði ekki kennsla í málaskólanum í dag þar sem óvíst væri með leigubíla og annað. Kennararnir og sumir nemendanna eru háðir þeim til að komast á milli staða. Við gerðum ekki ráð fyrir að húshjálpirnar kæmu.Barnapían oakkr kom þó eftir að hafa gengið í klukkutíma að heiman. Húshjálpin okkar býr alveg í útjaðri borgarinnar og það myndi taka hana allavega þrjá tíma að ganga þannig að skiljanlega komst hún ekki. Kristján fór í dag til að reyna að ná í pening þar sem við áttum ekkert eftir. Hann byrjaði á að fara á Sheraton þar sem hægt er að taka út á vísa en eftir langa bið virkaði kortið svo ekki og hann er víst ekki sá eini sem lent hefur í þessu. Hann gat fengið pening á NLM skrifstofunni svo það var aðeins hægt að verlsa. Flestar búðir eru eins og áður sagðar lokaðar og byrgðir eru að verða af skornum skammti. Okkur hefur því verið ráðlagt að eiga nóg af vatni og mat sem geymist eins og dósamat.
Við útlendingarnir erum eins og er alveg örugg. Ég finn sárast til með fólkinu sem hér býr. Við getum þó alltaf farið ef ástandi verður það slæmt. Þetta hefur á vissan hátt snert okkur eða það er að segja eþíópa sem okkur standa nærri. Eitt það skelfilegasta við þetta allt saman er að lögreglan fer um allt og handtekur unga menn fyrir það eitt að því virðist vera að þeir eru ungir menn. Ekki er við nákvæmlega hvert farið er með þá en grunur leikur á að farið sé með þá í herþjálfunarbúðir og þeir síðan sendir norður að landamærum Erítreu þar sem í ofanálag eru að magnast upp átök þar. Ungir menn hér eru því mjög hræddir. Um tíma héldum við að einn af vörðunum okkar hefði verið tekinn þar sem hann kom ekki til vinnu og fjölskylda hans vissi ekki um han. Sem betur fer kom svo í ljós að ekkert hafði komið fyrir. Hann hafði verið á leið úr vinnunni og heyrt skothvelli. Hann hafði orðið hræddur og falið sig og því ekki getað haft samband við neinn. Annar strákur sem vinnur sem vörður hér lenti í því að þeir ætluðu að taka hann en þegar hann gat sýnt þeim fram á að hann hefði fasta vinnu hjá kristniboðinu slepptu þeir honum. Sömu sögu er að segja um strákinn sem keyrir skólabílinn. Þeir taka helst stráka sem eru atvinnulausir en það virðist ekki alltaf duga til að þeir geti sínt fram á að þeir hafi vinnu. Td. Hvarf einn vörður á leið út í búð sem var að vinna hjá norðmönnum sem búsettir eru hér, þrátt fyrir að vera með pappíra sem sýndu fram á að hann hefði vinnu. Nokkrir ungir menn hafa fengið að gista á norska skólanum og einn strákur hefur verið hér hjá þýskum samnemanda okkar. Lögreglan kemur inn á heimili á nóttunni svo margir eru hræddir við að sofa heima hjá sér. Barnapían okkar á tvo bræður (annar þeirra er garðyrkjumaðurinn okkar) sem báðir hafa falið sig heima fjarri heimili sínu ekki að ástæðulausu- lögreglan hefur komið nokkrum sinnum að nóttu til og leitað að þeim.
Ég bið ykkur kæru vinir að vera með okkur í bæn fyrir þessu landi og þessari þjóð. Nú þegar er ástandið farið að bitna á fólki, verðlag hækkar svo margir hafa ekki efni á daglegri fæðu lengur auk þess sem skortur verður á byrgðum sem leiðir af sér hungur og eymd.Biðjið fyrir að þessu megi linna og að friður komist á.

Að öðru leiti líður okkur vel og við finnum okkur örugg hér. Við fáum reglulega upplýsingar frá bæði yfirmönnum okkar svo og norska sendiráðinu un hvernig ástandið er og hvernig við eigum að haga okkur. Þetta virðist sem betur fer lítil áhrif hafa haft á börnin, amk þau yngri. Margrét Helga og Jóel spyrja hvort það sé leikskóli en ekkert um ástæðu þess að það sé ekki kennsla. Við höfum bara reynt að hafa ofan af fyrir þeim, þau hafa fengið að busla mikið í sundlauginni sem amma og afi sendu, svo komu Kía og fjölskylda í fiskibollur til okkar um daginn og við vorum svo í grilli hjá þeim á laugardaginn. Allt þetta finnst þeim voða gaman. Norski skólinn hefur verið lokaður og þal. enginn leikskóli en í dag komu tveir kennarar hingað til að kenna þeim börnum sem hér búa svo ekki þurfi að taka óþarfa áhættu með börnin. Því fyrirkomulagi verður haldið eitthvað áfram.

Dagbjartur Elí greyið varð fyrir smá slysi á miðvikudaginn, sem auðvitað var mest mér að kenna. Ég var að skola á honum rassinn í vaskinum því það var kúkur út um allt. Ég var búin að skola og skrúfa fyrir og var að taka hann upp til að þurrka honum en þá náði hann að grípa í heitavatnsrörið sem verður alveg brennandi. Þetta gerðist svo snöggt að ég eiginlega tók ekki eftir því að hefði brennt sig nema að hann grét og grét allt kvöldið. Eina leiðin til að róa hann var að halda höndinni ofan í glasi með vatni og eftir rúman klukkutíma í vatnsbaði sofnaði hann loksins. Daginn eftir var komin stór blaðra fyrir neðan vísifingur vinstri handar. Þar sem blaðran sprakk bað ég Tuulu nággranna okkar sem er læknir að líkja á hann. Hún bjó um höndina til að koma í veg fyrir sýkingu svo nú er hann með þennan fína boxhanska á vinstri hendinni. Tuula kíkti á þetta í gær og skipti um umbúðir og þetta lítur allt mjög vel út. Sárið var ekker mjög stórt en það er mikilvæt að passa að ekki komist í það sýking. Annars eru þeir feðgarnir báðir að taka tennur- Kristján er allt í einu núna að fá endajaxlana!!
Jóel leifði mér loksins að klippa á sér hárið með vélinni svi nú er hann ægilega sætur og fínn. Hann er voða stoltur af þessu og vill helst alltaf vera að skoða sig í speglinum. Þetta hefur verið dáldið mikið strögl með hárið á honum sl.árið. Hann átti dáldið yndslega setningu í gær. Amma Lína átti nefnilega afmæli í gær og við auðvitað hringdum til að syngja fyrir hana. Jóel var mikið að spá hvort við ætluðum ekki að fara í afmælisveislu til hennar en ég reyndi að segja honum að það væri nú hægara sagt en gert. Þá sagði hann “Við breytumst bara í fiðrildi og flýjum til ömmu Línu”

Ég held ég fari nú að slá botninn í þetta í bili. Á morgun á að reyna að hafa einhverja kennslu í málaskólanum, það verður bara að koma í ljós hvernig dagurinn verður, fer allt eftir því hversu margir kennarar komast til vinnu.
Það eru komnr fleiri myndir á http://gallery.askur.org/fyrogflamme og fleiri á leiðinni.

Mig langar að enda á orðum úr sálmi 91 sem koma svo oft upp í huga minn núna. Þennan sálm las ég lík aftur og aftur þegar ég var hér fyrir 10 árum síðan. Það er ekki síst á svona stundum sem við finnum svo glöggt fyrir nærveru og vernd Drottins og því hvernig við erum borin uppi á bænarörmum.

“Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Þeir munu bera þig á höndum sér til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini”

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Októberlok

31. okt

Þá erum við bráðum búin að búa hér á Mekanissa í þrjá mánuði. Tíminn hefur flogið áfram enda alltaf nóg að gera. Núna er ég á því stigi í málanáminu að mér finnst ég ekki kunna neitt og allt rennur saman í eitt í hausnum á manni. Auk þess eru öll tungumálin sem maður hefur lært (hvort sem það hefur verið mikið eða lítið sem maður lærði) farin að dúkka upp í kollinum og rugla mann enn meira í rýminu! Mér þætti forvitnilegt að vita hvernig heilinn vinnur úr svona tungumálum. Það hefur nú örugglega eitthvað verið rannsakað og skrifað um það. Annars reyni ég nú bara að taka þessu létt. Við höfum auðvitað ekki mjög mikinn tíma til að læra heima með þrjú lítil börn, enda finnst mér líka mikilvægara að sinna þeim þegar ég kem heim úr skólanum. Ég reyni bara að nýta tímana í skólanum vel og reyni að vera dugleg að nota amharísku þegar ég fer að versla og tala við húsjálpirnar og svoleiðis. Mér finnst ég nú bara ganga nokkuð vel að skilja þær. Þær eru líka duglegar að hjálpa okkur, leiðrétta og þh. Sem mér skilst að sé ekkert sjálfsagt að Eþíópar geri, þe. að vera alltaf að leiðrétta fólk. Annars verða flestir mjög jákvæðir og áhugasamir um að hjálpa manni við málið þegar þeir heyra að maður er að læra og reynir að tjá sig með því litla sem maður kann. Ég er búin að finna út að mér hentar best að læra með því að hlusta á fólk og reyna að tala eins og ég get, frekar en að sitja allan daginn yfir bókunum, þótt að sjálfsögðu séu þær nauðsynlegar, málfræðin og það allt saman. Það sem hins vegar hefur helst verið að plaga mig í skólanum er allt krítarrikið. Það er alveg skelfilegt því ér hef verið sérlega slæm af ofnæmi að undanförnu. Það er mikið af frjói í loftinu en ég veit ekki nákvæmlega hvaða plöntur það eru hér sem ég hef ofnæmi fyrir. Svo þegar allt krítarrikið bætist við er ástandið ekki gott. Um daginn þurfti ég að fara út úr tíma því ég átti orðið erfitt með að anda og hóstaði bara og hóstaði og hnerraði og var farið að svima. Þið meigið gjarnan muna eftir þessu í bænum ykkar. Ég á líka erfitt með að taka ofnæmislyfin sem ég er með því ég verð svo rosalega þreytt af þeim. Þá er víst búið að panta tússtöflur í skólann því ég er víst ekki sú eina sem hefur lent í þessum vandræðum. Meira að segja einhverjir kennaranna þola þetta ryk illa. Þannig að þetta lagast vonandi. Ég er alltaf mikið betri hérna heima þótt það sé líka eitthvað í gróðrinum og eflaust líka þessi hrikalega mengun sem fer í mig. En nóg um það...

Annars hefur allt gengið sinn vanagang. Krakkarnir leika úti allan daginn og mikið ótrúlega er þægilegt að þurfa ekki að klæða þau í þúsund plögg áður en þau fara út. Bara bolur og buxur og sandalar og svo er bara hlaupið út. Þau fá nú stundum að horfa á DVD á daginn líka því maður getur orðið þreyttur í sólinni hér þar ekkert að vera að hugsa um að nýta góða veðrið. Þau fengu í síðustu viku sendingu frá mömmu og pabba með bókum og myndum og það var auðvitað mikil gleði. Brúðubíllinn er sérstaklega vinsæll, hjá þeim öllum þremur, Dagbjartur Elí situr meira að segja kyrr og horfir og gefur frá sér sitt sérstaka gleðihljóð. Annars er hann alltaf á fartinni, skríður um allt (hann hefur mjög sérstaka skriðtækni, er hálfvegis í splitt þegar hann skríður en kemur sér ótrúlega fljótt áfram) Hann vill nú helst samt standa og stendur allstaðar upp sem hann getur og er meira að segja aðeins farinn að ganga með- svei mér þá ef hann verður ekki bara farinn að ganga um jólin!! Það er svo svakalegur krafturinn í honum að þær þurfa að vera tvær að skipta á honum Fantanesh og Asnakú! Svo bablar hann og bablar og hefur meira að segja nokkrum sinnum sagt mjög skýrt “mamma” og líka “babba” þótt maður viti nú aldrei alveg hversu meðvitað það er á þessum aldri. En hann er allvega heilmikið að þjálfa tunguna enda ekki vanþörf á þegar maður þarf að læra þrjú tungumál í einu!

Síðasta þriðjudag fórum við Kía saman út að borða. Þetta er svona í staðin fyrir allar fótboltaferðir kallanna! Annars er ég nú alltaf á leiðinni að druslast í sund, þarf bara að finna mér sundgleraugu fyrst- ég bara get ekki synt án gleraugna. Svo er ég nú ekki viss um að ég tími að fara í sund alveg strax svo ég skemmi ekki fína hárið mitt, verð bara að halda áfram að sippa! Marta vinkona mín kom nefnilega á laugardaginn ásamt systur sinni og þær fléttuðu mig með aukahári. Ægilega flott finnst mér. Kristjáni leist reyndar ekkert á þetta fyrst en ég held hann sé nú bara sæmilega sáttur núna. Þetta tók sjö tíma takk fyrir og nú er ég með 80 fléttur.

Í gær fórum við í kirkju eins og við reynum að gera á hverjum sunnudegi og fórum svo út að borða eins og við gerum líka mjög oft eftir messu. Enda er hræódýrt að fara út að borða hér miðað við heima og því leyfum við okkur það nokkuð oft.

Það er annað bænarefni og það er atvinnu og dvalarleyfið okkar. Vegbréfsáritunin okkar rennur út eftir 3 daga og nú er verið að vinna í að fá henni framlengt til að hægt sé að vinna í atvinnu og landvistarleyfi. Þetta tekur allt tíma og strákurinn sem vinnur við þetta núna er alveg nýr í starfinu. Þið megið líka gjarnan muna eftir honum, hann heitir Aklílú. Það er gott að meiga leggja einnig þessa praktísku hluti í Guðs hendur.

Að endingu vil ég þakka vinum mínum í Gospelkór Reykjavíkur fyrir sönginn og afmæliskveðjuna- ég hef því miður ekki getað séð þetta í almennilegum gæðum ennþá en það verður vondi hægt að bjarga því. Hún systir mín elskuleg sendi mér þetta á diski ásamt myndum frá í sumar. Ekki laust við að maður fái tár í augun!!- En það er nú bara ég, get verið sískælandi!

Ég þarf líka að biðja ykkur sem ég hef ekki svarað tölvupósti að afsaka, það hefur verið eitthvað vesen á hotmail- síðunni svo við höfum átt í erfiðleikum bæði með að opna og senda póst. En svoleiðis stendur nú yfirleitt ekki lengi yfir.

Ég enda svo á nokkrum gullkornum frá gullmolunum mínum:

Jóel að tala við ömmu og afa á Karló í símann:” Eruð þið búin að senda snjókarlinn í pakka?” (Amma og afi eru búin að senda í pósti mynd af snókarli sem þau bjuggu til í Selvíkinni en stubbi litli hefur eitthvað aðeins misskilið og hélt að snjókarlinn í allri sinni dýrð væri á leiðinni í pósti) – “Svo bara farið þið í flugvélina og flytjið bara til okkar” Eitthvað á þessa leið segir hann iðulega bæði við ömmu og afa og ömmu Línu, “þetta er ekkert langt” Þetta er svo lítið mál maður bara hoppar upp í næstu flugvél- elsku litli kallinn minn...

Ég var um daginn að skrifa niður orð á amharísku í stílabókina mína og þurfti svo aðeins að bregða mér frá til að hjálpa Jóel. Margrét Helga hafði setið við hliðina á mér og var að teikna. Þegar ég kom aftur sagði hún:” Mamma ég skrifaði nokkra íslenska stafi í bókina þína svo þú lærir þá líka”

“Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar” Lúk. 10:2