Helga Vilborg og Stjáni Sverris

fimmtudagur, desember 29, 2005

Gleðilega hátíð!

28.des.2005

Þá er gamla bara lögst í rúmið! Mér tókst að næla mér í alveg sérdeilis skemmtilega pest, sem gekk bæði upp og niður af mér auk hita, hósta og kvefs svo eitthvað sé nefnt. Mér leið alveg skelfilega í gær en er nú öll að koma til. Maginn virðist vera kominn í lag aftur og ég komin með smá matarlist og hitinn er horfinn amk. í bili en ég er enn voða drusluleg eitthvað. Svona er þetta bara. Á svona stundum er alveg sérstaklegur lúxus að hafa heimishjálpir. Kristján fór með Margréti Helgu og Jóel í bæinn í gær, smá “æfingaferð” á flugvöllinn, því á mánudaginn koma vinir okkar frá Noregi og Kristján ætlar að sækja þau. Það er nú svona skemmtilegra að vera pottþéttur á leiðinni. Hann var síðan aftur að fara núna með þau í sund á Gihon hótelið. Allavega að tékka á því. Þar er barnalaug en vatnið þar er mjög kalt. Litla laugin hitnar amk. í sólinni. Ég fór þangað um daginn með vinkonu minni til að synda. Það er nefnilega fín 50m laug þarna en vatnið er sko bara kalt, ekki dropi af heitu vatni þannig að þetta var frekar ævintýralegt. Lofthitinn hér er búinn að vera rétt um 20° og fer alveg niður í 1-2° á nóttunni. Þetta var svona eins og að synda í jökulsárlóninu! Nei það er nú kanski ofsögum sagt en kalt var það. Mér tókst að synda allvega 7-800 m (ruglaðist reyndar í talningunni vegna kulda) en mér var sko illt í eyrunum og höfðinu og var svo að drepast í axlarliðnum í nokkra daga á eftir. Næst ætlum við að prófa að fara eftir hádegi þegar sólin allvega nær að hlýja manni. Svo verður þetta kanski skárra eftir áramót þegar það fer að hlýna og ekki verður jafnkalt á nóttunni.
Kristján kom fyrr en áætlað var úr ferðinni norður og ekki var það verra fyrir okkur. Hann var alveg alsæll og fékk að upplifa og sjá margt nýtt. Hann tók fullt af myndum bæði video og ljósmyndir sem ættu fljótlega að komast á netið.

Jólin já! Við áttum bara mjög góð jól hér. Við komumst í smá jólaskap við baksturinn og piparkökuhúsailminn í stofunni. Hangikjötið frá mömmu og pabba setti nú samt punktinn yfir i-ið. Ég sauð það auðvitað á Þorláksmessu auk rauðkálsins og þá kom sko alvöru jólailmur í húsið. Hangikjötið dugði okkur svo í þrjár máltíðir! (alla hátíðisdagana). Á aðfangadag fórum við í guðsþjónustu á Norska skólanum kl.4 fjögur sem var mjög fínt og fjölskylduvænt. Ég var bæði að spila og syngja svo við vorum mætt snemma. Svo bara komum við beint hingað heim og ég gerði matinn kláran. Litla fólkið átti dáldið erfitt með að bíða eftir pökkunum. Þetta eru fyrstu jólin sem þau eru virkilega meðvituð um þetta. (þeas. Margrét Helga og Jóel fylgir í kjölfarið) en við borðuðum nú samt í rólegheitum og litla fólkið borðaði hressilega af hangikjötinu! Svo sungum við nokkra jólasöngva eins og við erum vöna að gera á Karló og svo snerum við okkur að pakkaflóðinu. Minnsti maðurinn vissi auðvitað ekkert hvað um var að vera en var voða hrifinn af pappírnum, jú og auðvitað var hann ánægður með nýja dótið sitt. Það er alltaf gaman að fá nýtt dót. Jafnvel þótt maður sé bara pínulítill kall. Margrét Helga fékk fullt af prinsessudóti og Barbie og nú er búið að redda baðvandamáli miðjumannsin. Það hefur ss. verið stríð í hvert skipti þegar baða á Jóel en núna fékk hann ss. palymobát og þennan flotta þvottapoka í jólagjöf svo nú byrjar hann á morgnana að suða um að fá að fara í bað! Þau fengu svo mikið af fínum gjöfum, bæði fötum og dóti og voru alsæl. Við hjónin fengum líka góðar gjafir. Við fengum ma. Tvo DVD diska, annar þeirra var Nýtt líf eftir Þráinn Bertelsson. Við komumst að því að heimilisfaðirinn hér í næstu íbúð hafði aldrei séð myndina svo við buðum þeim hjónum í bíó á annan í jólum.
Á jóladag vorum við líka bara heima og borðuðum hangikjöt og svo var slegið saman í kaffi hér úti á stétt þar sem allir komu með sýnishorn af jólabakstrinum. Við erum bara búin að hafa þeað mjög náðugt og höfum slappað vel af, borðað góðan mat svona eins og jólafríið á að vera. Við söknum auðvitað fjölskyldunnar en svona er þetta bara og við áttum mjög gleðilega jól. Um áramótin erum við búin að bjóða Kíu og Ragga og krökkunum í mat. Þau eru í óða önn að pakka og undirbúa flutning til Omo Rate. Þau gera ráð fyrir að flytja á gestahúsið á morgun. Við eigum eftir að sakna þeirra en það er sárabót að fá vini okkar frá Noregi, ekki síst fyrir krakkana.

Ætli ég segi þetta ekki bara gott í bili. Held ég ætti aðeins að halla mér.
Ég vil þakka fyrir allar góðar kveðjur og gjafir sem við höfum fengið, bæði í pósti og tölvupósti. Það hefur ekki gengið sem skildi hjá mér að senda persónulegar kveðjur ennþá. Kanski það verði bara nýjárskveðjur!

Ég get nú amk. sagt hér gelðilega hátíð áfram og blessunarríkt komandi ár. Það eru komnar nýlegar myndir á myndsíðuna.

http://gallery.askur.org/fyrogflamme


Smá gullkorn í lokin:

Ég hef þessa sögu eftir Kristjáni: Krakkarnir voru í gær með pabba sínum að borða á veitingastað hér í borginni. Eins og alltaf vekja þau athygli og þjónarnir reyna oft að tal ensku við þau en Kristján sagði þessum að tala bara amharísku (þau skilja hana betur en enskuna!). Þjónninn spurði þá Jóel hvað hann héti og sá stutti svaraða bara án þess að hika að hann héti Tesfai! (einn af vöktunum hér á lóðinni heitir Tesfai)



“Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar” Jes. 40: 11

föstudagur, desember 16, 2005

Jólastemmning

16.des

Jæja þá erum við komin í jólafrí. Prófin gengu bara vel enda ekkert mjög erfið og kennararnir allt of góðir við okkur! En allavega þá finnst manni maður kunna eitthvað og það fyllir mann bjartsýni fyrir næstu törn. En jólafríið er mjög kærkomið. Mikið sem heilinn þarf að melta.
Það var haldin smá hátíð í dag í skólanum, útskrift fyrir þá sem voru að hætta og svo var boðið upp á injera og wodd, mjög huggulegt.

Ég er ein í kotinu með börnin núna. Kristjáni bauðst að fara með Craig vini okkar norður í land (um 14 klt akstur) þar sem hann og kona hans, Alison koma til með að starfa meðal gumu þjóðflokksins að málanámi loknu. Þetta er alveg lenst úti í buskanum og eru þau að undirbúa algjört grasrótarstarf. Hann er guðfræðingur og hún hjúkrunarfræðingur og svo eiga þau tvo syni 2 og 5 ára. Þetta er gott tækifæri fyrir Kristján að sjá meira af landinu. Ég hef ferðaðist heilmikið hér þegar ég var hér síðast svo ég hef einhvernvegin ekki eins mikla þörf fyrir það í bili allavega. Við erum nú samt strax farin að sakna hans og það verður gott að fá hann aftur heim á fimmtudaginn. Þetta verður lengsti tími sem við höfum verið aðskilin í einu síðan við giftum okkur. Ég ákvað að leyfa litla fólkinu að kúra í rúminu hjá mér í nótt og nú eru þau að kúrast og reyna að sofna. Þeim finnst það voða huggulegt. Við erum líka búin að hafa huggulegt kvöld eins og við reynum að gera alltaf á föstudagskvöldum. Horfum saman á mynd eða spilum, öll fjölskyldan og stubbarnir fá nammi.

Annars er búið að vera mikið að gera undanfarið. Ég er búin að vera að syngja með norræna kórnum á nokkrum stöðum, bæði á norska skólanum, í sænska sendiráðinu og í norskri sendiráðsmóttöku svo eitthvað sé nefnt. Þetta er bara mjög góður sönghópur og við stefnum allavega nokkur að því að halda áfram eftir áramót.
Síðasta föstudag voru jólatónleikar í norska skólanum og tóku meðal annars leikskólabörnin þátt. Þau höfðu föndrað ljósker sem þau báru inn íklædd engkabúningum. Ég held bara ég hafi sjaldan eða aldrei séð nokkuð jafnkrúttlegt! Jóel varð reyndar dáldið lítill í sér þegar hann uppgötvaði allt fólkið í salnum en mamma bara hélt í höndina á honum og þá var allt í lagi.

Sl. sunnudag var ég að spila í kirkjunni og stjórna Ten sing hópnum í söng. Það gekk mjög vel. Þau eru búin að taka svo miklum framförum krakkarnir. Það verður gaman að halda áfram að vinna með þeim eftir jól.

Ég er nú ekkert komin lengra með jólabakstur eða annan jólaundirbúning síðan ég skrifaði síðast. Ákvað að bíða þar til að prófum loknum. Ég ætla að reyna að búa til piparkökudeig í kvöld svo við getum gert hús á morgun. Það er eiginlega orðinn fastur liður hjá okkur. Svo ætla ég að baka enhverjar sortir í viðbót.

Í gær skruppum við með krakkana á Sheraton í sund til að fagna próflokum, það fannst þeim alveg æðislegt. Við héldum reyndar að það þyrfti ekki að borga fyrir krakkana en svo kom í ljós að borga þarf fullt fyrir 3 ára og eldri þannig að þetta er nú ekki beint ódýrt fyrir óbreytta kristniboða. En við ákváðum nú að fara samt þar sem við vorum búin að lofa krökkunum þessu og þetta er líka frábær sundlaug. Þarna er líka æðislegur leikvöllur sem er alltaf opinn og frítt inn sem við komum nú örugglega til með að nota okkur meira í framtíðinni. Þetta var allvega mjög góður dagur og við nutum þess vel að vera þarna.

Það verður mikið um að vera hér í næstu viku, jólaskemmtun í skólanum og svokallað “julespill” sem verður hér á Mekanissa. Þá er þess minnst sem gerðist á jólunum og jólaguðspjallið gert lifandi hér úti á lóð. Sett verður upp fjárhús og allir fá hlutverk í í sögunni. Ég hef einu sinni áður tekið þátt í þessu, fyrir 10 árum síðan og mér er það algjörlega ógleymanleg upplifun. Hér enginn snjór og fátt sem minnir á þá jólastemmningu sem maður þekkir að heiman en ég held að hér komist maður samt miklu nær því að upplifa raunverulega “jólastemmningu”. Hér sér maður hirða með hjarðir sínar og asna á hverju götuhorni. Ætli veðráttan sé ekki bara líka svipuð því sem var í Betlehem! Ég hlakka allvega til að fá að vera með í þessu aftur.

Eftir áramót fara svo Kía og fjölskylda til Ómó Rate. Sama dag og þau fara koma vinir okkar frá Noregi til að fara í málaskólann. Við höfum tekið að okkur að taka á móti þeim og vera þeim innan handar svona í byrjun. Það verður gaman að hitta þau aftur.

Þótt það sé sól og sumarhiti hér á daginn (reyndar held ég að lofthitinn sé nú ekki mikið meira en 20 ° og vindurinn er kaldur!!) þá er skítkalt á nóttunni og þar sem húsin eru óupphituð verður stundum hræðilega kalt inni á nóttunni og erfitt að skríða fram úr á morgnana. Við erum farin að láta Dagbjart Elí sofa í flísgalla yfir náttfötunum auk þess sem hann er líka í sokkabuxum, þvi hann sparkar alltaf af sér sænginni, það virkar mjög vel. Hann er allavega mátulega heitur á morgnana núna. En eftir jól fer nú að hlýna.

Börnin eru öll spræk og kát. Sá minnsti hefur verið voðalega kvefaður en er óðum að jafna sig.. Hann er orðinn mjög ákafur í að ganga og finnst æðislegt að fara í göngutúr í kringum húsið. Núorðið er nóg að leiða hann með annari hendi. Hann bætir líka jafnt og þétt við sig orðum og það virðist vera sem íslenskan og amharískan haldist nokkurnvegin í hendur hvað það varðar. Hann er líka farin að reyna að kalla á systkini sín, “óe!” og “ga” kallar hann.

Ætli ég láti ekki hér við sitja í bili. Ég þakka fyrir jólakveðjurnar sem farnar eru að berast okkur. Það er á listanum að fara að senda kveðjur líka en ég geri ráð fyrir að í ár verði þær, með nokkrum undantekningum þó, á tölvutæku formi. Það er líka aldrei að vita nema ég skrifi oftar á meðan við erum í fríi, lofa þó engu!


Gullmolar:

Jóel horfir smá stund á litla bróðir sinn og segir svo: Mamma ég sé stráin á honum! (hann átti við augnhárin!)

Margrét Helga var að spjalla við mig áður en hún fór að sofa:
Mamma þegar ég er orðin stór og byrjuð í skólanum og litlu bræðurnir mínir, báðir tveir, eru í leikskólanum þá passa ég þá alltaf ef einhver er að slá þá. Ef ég heyri þá gráta þá hleyp ég bara út og spyr þá hvað sé að og þá segja þeir:”uhuhu, Friðrik var að slá okkur” Þá hringi ég bara í ykkur, nei ég hringi í Ragga og Kíu og bið þau að koma og ræða við Friðrik og segja honum að segja fyrirgefðu. Mamma, ég tek bara símann með mér í skólann svo ég geti hringt í ykkur því ég verð stundum svo þreytt á alltaf að hugga litlu bræður mína þegar þeir fara að gráta, báðir tveir. (þetta er nokkurnvegin orðrétt eins og ég man það)

Margréti Helgu finnst gott að kúra á morgnana. Einn morguninn sagði hún mamma ég ætla bara að sofa í eina tímútur og svo kem ég.



Ég enda á orðum sem við vorum minnt á í skólanum í morgun:

“Sjá Guðs lamb, sem ber synd heimsins” Jóh.1:30

Það er þetta sem jólin snúast um.

Guð blessi ykkur áfram aðventuna.

mánudagur, desember 05, 2005

Jólasól...

5. des

Jahérnahér, bara kominn desember. Það reynist mér ekki auðvelt að finna tím atil að setjast niður og skrifa. Það er mikið að gera í skólanum og krakkarnir þurfa auðvitað sitt.

Þriðjudaginn fyrir tveimur vikum byrjuðum við að syngja saman nokkur hérna. Þetta er nú fyrst og fremst hugsað sem nk. jólakór en ég vona að amk einhverjir séu til í að halda áfram eftir jól. Það hefur bara alveg ótrúleg áhrif á sálartetrið í mér að syngja. Þetta er líka bara nokkuð góður hópur, mest Norðmenn, einn Dani tveir Svíar og svo ég og Kía (ss. hlutfallslega flestir Íslendingar!). Við eigum að syngja á nokkrum stöðum fyrir jólin.

Við erum aðeins farin að undirbúa jólin, búin að baka piparkökur og kana og á stefnuskránni að baka einhverjar fleiri sortir og búa til piparkökuhús. Ég er búin að lofa krökkunum því. Ég er ekki alveg sú flinkasta við það en krakkarnir eru alltaf voða ánægð með húsin sem við búum til. Aðventukransinn er að sjálfsögðu kominn upp og fjárhúsið, sem við notum til að læra um það sem gerðist á jólunum. Margréti Helgu og Jóle fannst voða erfitt í byrjun að það fengju ekki allar persónurnar að koma út úr fjárhúsinu strax en nú eru þau sátt. Núna er engillinn kominn ásamt Maríu og Jósef. Á hverjum morgni áður en við borðum morgunmat syngjum við saman og biðjum og lesum úr barnabiblíunni og núna erum við sem sagt að lesa jólasöguna. Svo syngjum við líka “Við kveikjum einu kerti á” og kveikjum á aðventukransinum.

Dagbjartur Elí er alltaf að taka framförum. Núna fer hann upp stigana eins og ekkert sé og hann hefur meira að segja gert tilraunir til að sleppa sér en þó ekki tekið nein skref (enda liggur ekkert á!!). Hann bætir við sig einu og einu orði bæði íslenskum og amharískum.. Núna finnst honum líka voða gaman að leika að hann sé týndur og gerir það í tíma og ótíma. Hann kann líka að sýna hvað hann er stór og vinkar ef sagt er við hann bless eða chiao (sem er bless á amharísku- ítölsk áhrif geri ég ráð fyrir). Hann er alltaf jafn rólyndur og skapgóður og síhlæjandi litli hnoðrinn. Nú finnst honum líka orðið mjög varið í að fá að leika við systkini sín og þá helst með dótið þeirra en því eru þau hins vegar mishrifin af. “hann er að koma, hann er að koma!” heyrist oftar en ekki þegar litli skemmdarvargurinn nálgast. Svo verður hann ægilega sár að fá ekki að vera með. En það líður nú sjálfsagt ekki á löngu þar til hann getur farið að leika almennilega við þau. Auðvitað fær hann líka stundum að vera með, lang oftast eru þau voða góð við hann stóru systkinin.

Hin tvö stækka líka og þroskast. Við vorum einmitt í síðustu viku að skoða video af þeim frá í fyrra. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Þau voru eitthvað svo mikil “baby” fyrir ári síðan. Núna finnst mér þau bara orðin stórir krakkar. Það hefur tognað svo úr þeim, sérstaklega Margrét Helga núna upp á síðkastið. Það merkir maður á fötunum.

Jóel varð fyrir smá slysi á fimmtudaginn. Við fengum símhringingu í skólann svo ég ákvað að fara heim til að athuga betur hvað hefði gerst. Litla skinnið hafði þá dottið niður úr tré og bitið talsvert stórt gat í tunguna. Það blæddi dáldið mikið og aumingja Asnakú var öll út ötuð í blóði. Jóel var líka í hálfgerðu sjokki og tók dálitla stund að jafna sig. Ég fór því ekkert aftur í skólann þann daginn. Það hætti nú fljótlega að blæða og hann gat borðað svo við höfðum ekki miklar áhyggjur. En þetta leit ekki beint vel út. Allt starfsfólkið á lóðinni koma til að athuga hverni hann hefði það og einn af vöktunum, Tesfai sem er alltaf svo duglegur að leika við krakkana, kom sérstaklega morguninn eftir til að athuga hvernig Jóel hefði það. Eþíópar eru alveg sérstaklega umhyggjusamir og er ekki sama um hvernig náunginn hefur það. Það þarf ekki mikið til.
Nú er hann alveg orðinn góður. Kvöldið sem þetta gerðist sagði hann við mig rétt a´ður en hann sofnaði: (hann var hálf sofnaður): “Mamma núna líður mér betur” er þér ekkert illt í tungunni lengur? Spurði ég, “Nei” hvíslaði hann þá og svo steinsofnaði hann.

Margrét Helga, litla klifurmúsin okkar (hún er síprílandi í öllum trjám og staurum í hæstu hæðir, ekki lík móður sinni þar!) Er eitthvað hálflasin núna. Hún kastaði þrisvar upp í dag en var að öðruleiti ekkert slöpp. Hún kann alveg að hafa það huggulegt og kúra sig þegar svona stendur á og fékk mömmu til að lesa fyrir sig Andrésblað. Hún borðaði nú samt í kvöld og hélt því niðri þannig að ég vona að þetta sé bara gengið yfir. Það má þó alveg búast við að bræðurnir, allvega sá eldri, taki svo við, það er venjan.

Á laugardaginn var var svokallað “retreat” fyrir Addiskristniboðana. Þá vorum við allan daginn á norskaskólanuum, fengum tvo biblíulestra, borðuðum og báðum saman og spiluðum blak svo eitthvað sé nefnt. Það var prógram fyrir krakkana á meðan en við báðum Asnakú að koma og vera hjá minnsta manninum. Honum leiðist nú ekki með henni Asnakú sinni. Tekst á loft þegar hann heyrir eða sé að hún er komin!Við fórum samt heim áður en allt var búið til að taka við þeim stutta og til að koma hinum í háttin. Þetta var mjög fínn dagur.

Nú styttist í jólafrí í skólanum og þar af leiðandi próf. Það verður gott að fá smá frí til að melta allt þetta sem maður er búinn að vera að læra. Amharískan er ekki auðveldasta tungumálið og stundum finnst mér bara eins og minnið sé fullt- það bara kemst ekki meira fyrir í hausnum! Við fáum heilan mánuð í jólafrí sem er bara alveg frábært. Við gerum ráð fyrir að vera bara hér í Addis um jólin.

Annars er þég farin að ná andanum- Liya systir hennar Tsige kom í gær með lyf við astmanum og ofnæminu svo nú líður mér mun betur. Hún kom líka með hangikjötið og þá fáum við pottþétt góðan jólamat!

Ég óska ykkur áfram góðrar aðventu.

“Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.” Jóh. 1:1-4