Helga Vilborg og Stjáni Sverris

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Híenur og kakkalakkar

26.janúar

Þá virðist sem allir, amk á þessu heimili séu orðnir frískir. Ég hef nú bara aldrei vitað aðra eins gubbupest! Við Kristján urðum líka lasin ég var rúmliggjandi í tvo daga en Kristján kastaði bara einu sinni upp. Krakkarnir hafa fengið þetta miklu verr, þau voru alveg hrikalega slöpp og ekki fyrr en á laugardaginn sem Margrét Helga fór að borða að ráði, en nú sem sagt er þetta gengið yfir hjá okkur. Það eru samt enn einhverjir veikir á lóðinni, það hafa allir með tölu, bæði börn og fullorðnir fengið þessa pest í einhverri mynd.
Ég byrjaði því ekkert í skólanum fyrr en á mánudag. Það var óþægilegt að missa úr heila viku því það sem við erum að fara í núna er mjög erfitt en ég er nú svona nokkurnvegin að ná hinum núna. Það sem er erfiðast við amharískuna finnst mér er að hugsunin á bak við uppbyggingu setninga er svo ólík öllu sem maður þekkir. En þetta er nú allt í rétta átt.
Við fórum út að borða á Kaldis sem er veitingastaður í rosafínni verslunarmiðstöð hér rétt hjá, á þriðjudagskvöld til að halda upp á að við værum risin úr rekkju öll sömul. Það var ágætt að komast aðeins út af lóðinni!
Í dag byrjuðum við svo barnakór niðri á norska skólanum. Þetta er kór fyrir minnstu krakkana 3- 5 ára og svo fá þau sem eru enn yngri líka að vera með ef þau hafa einhvern fullorðinn með sér. Margrét Helga og Jóel eru búin að hlakka svo mikið til. Margrét Helga söng meira að segja einsöng, hún var eiginlega búin að panta það. Hún er sko ekki feimin stelpan. Jóel langar líka að fá að syngja einsöng svo ég þarf að finna eitthvað sem hann getur líka sungið. (Systir hans þvertekur fyrir að hann fái að syngja með henni, hún ætlar sko að syngja ein!). Þetta gekk mjög vel og góður hópur af börnum hér á þessum aldri.
Það er nú svo sem ekkert mikið annað að frétta þar sem við erum búin að liggja meira eða minna í veikindum. Kristján er reyndar búinn að setja loftnet upp á þak svo nú getur hann horft á bæði enska boltann og svo er Afríkumeistarakeppnin í hámarki núna- mikil hamingja!

Við heyrðum aðeins í Ragga Schram í vikunni, í fyrsta skipti eftir að þau fluttu suður eftir (það er enginn sími þar). Það var bara gott í honum hljóðið og hann sagði að þau væru bara mjög sátt. Það verður gaman að hitta þau í Awasa eftir rúmar tvær vikur en þá er ráðstefna allra NLM kristniboða sem starfa hér í Eþíópíu.

Annars er bara allt gott að frétta- það er heitt á daginn núna og líka fyrripart nætur þannig að ekki verður kvartað yfir því.....


30. jan

Það gengur eitthvað erfiðlega hjá mér að komast inn á bloggið þannig að þið fáið aftur tvær færslur í einu...
Það er svo sem ekkert nýtt að frétta þannig, allt bara gengur sinn vanagang. Nóg að gera í skólanum og svoleiðis. Margrét Helga reyndar kastaði upp í gærkvöld, aftur, og Jóel var voða flökurt í nótt svo við sendum þau ekkert í leikskólann í dag. Þau voru samt bara hress í dag þannig að þetta hefur verið eitthvað tilfallandi.
Á laugardaginn fórum við á basar sem er hér einu sinni í mánuði og ég fjárfesti í málverki sem nú á bara eftir að ramma inn og finna stað á vegg í stofunni. Eftir hádegi skrapp ég svo með Ragnhild á Gihon að synda. Það er nú orðið miklu hlýrra svo það er bara fínt að synda þar núna. Ég fékk líka lánaða sundhettu hjá Ann Kristin og það er enginn smá munur. Næst á dagskrá er að fjárfesta í einni slíkri.
Á sunnudaginn ákváðum við að prófa að fara í aðra kirkju en venjulega. Formið þar er miklu léttara og ég kann að mörgu leiti betur við það. Ég hugsa samt að við komum til með að sækja ILC áfram þar sem þangað sækja flest af samstarfsfóllkinu okkar. Okkur langar líka að reyna að sækja eþíópska kirkju en það er ekki eins auðvelt með börnin, þarf að reyna að athuga hvort það sé einhversstaðar sunnudagaskóli.

Svo styttist í að minnsti maðurinn verði eins árs. Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn líður. Hann er farinn að spjalla heilmikið, mest er það nú bara eitthvað babl en svo segir hann nokkur orð, mér sýnist nú eins og er amharískan hafa vinninginn. Hann segir samt mamma og babba, takk og gakka (krakkar). Hann spjallar líka við alla sem ganga framhjá og hefur frá heilmiklu að segja. Svo segir hann qoy (bíddu), bäqqa (nóg), dabbo (brauð) og qú eða qúqú (Asnakú sem er barnapían okkar) og na (komdu). Áur en hann varð lasinn (fyrir uþb 4 vikum) var hann farinn að taka fjögur til fimm skref alveg einn en það kom eitthvað bakslag við veikindin, enda var hann alveg hrikalega slappur greyið í heila viku. Núna er samt nóg að halda bara í aðra höndina á honum og honum finnst alveg svakalega gaman að fara í göngutúr á lóðinni og ekki síst gaman að fara og skoða kanínurnar hjá honum Thomasi nágranna okkar. Honum finnst líka alveg æðislegt að vera úti að leika með stóru krökkunum og vill helst vera úti í sandkassa allan daginn. Svo finnst honum líka alveg svakalega gaman að syngja og þegar við syngjum þá klappar hann í takt, líka þegar ég syng fyrir hann “Enginn þarf að óttast síður” áður en hann fer að sofa! Hann er bara alveg yndislegur lítill sólageisli! Það verður auðvitað veisla á laugardaginn og það er nokkuð ljóst að það verður pitsa á borðum! Honum finnst pitsa alveg rosalega góð og borðaði þrjár sneiðar á föstudaginn var á meðan stóri bróðir borðaði bara eina!
Nú er kominn tími til að skella sér í sturtu fyrir nóttina. Það er orðið mjög heitt á daginn núna og í dag var líka mjög rakt þannig að maður er hálfklístraður eitthvað. Ég reyndi ekki einu sinni að fara út að skokka í dag. Ég gerði það á föstudaginn (kl. 3 nb!) og hélt ég myndi bráðna! Kanski ekki mjög gáfulegt en maður verður nú að hreyfa sig...

Geri þá tilraun til að koma þessu á netið- já og endilega skrifið komment, ég er farin að sakna þess að fá engin komment. Ég held síðan að ég stefni á að skrifa með tveggja vikna fresti héðan af – það er bara svo mikið að gera að ég held ég geti ekki staðið við vikuáætlunina

Svona að lokum: Við heyrðum í híenu á sunnudagsmorguninn, líklega hér á lóðinni, gerist af og til að þær komi hingað en þá yfirleitt bara á nóttunni. Reyndar var í haust ungi að sniglast hér í kringum húsin um hábjartan dag- hefur líklega villst frá mömmu sinni!
Svo átti ég alltaf eftir að segja frá nýju gæludýrunum okkar- kakkalökkunum. Þeir halda fund á hverju kvöldi í eldhúsinu og virðast una sér vel......svona er Afríka!!

Bless í bili

“Ég vil lofa þig Drottinn af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum. Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú hinn hæsti.” Sálm.9:2-3

7 Comments:

 • Gott ad thid erud ordin hress. Takk fyrir skemmtilegt blogg. Thad er frabaert ad lesa thad. Litlu molarnir ykkar eru yndisleg. Hjartanlega til haminjgu með thann minnsta a laugardag. Hilmar var i halskirtlatöku a föstudagin svo hann er heima og vid til skiptis hja honum.
  Hafið thad gott og Gud veri med ykkur.
  Kaer kvedja, Ragnhildur, Einar og börn

  By Anonymous Nafnlaus, at 10:58 e.h.  

 • Hæ hæ elsku stórfjölskyda... ég rakst á síðuna ykkar og rosalega er gaman að heyra af frændfólki sínu í útlöndum... Hlakka rosalega til að sjá gullmolana þrjá ... Bestu kveðjur frá London ykkar frænka Sigurbjörg

  By Anonymous Nafnlaus, at 1:31 e.h.  

 • Þegar ég er að vinna í tölvunni og tek eftir að hjá ykkur er nýtt blogg þá tek ég mér kaffipásu til að njóta lestursins, bý mér til gott kaffi, fæ mér kex og hef smá lestrarstund. Alltaf gaman að fá fréttir af lífi í fjarlægum löndum. Með bestu kveðju
  Guðrún Laufey

  By Anonymous Nafnlaus, at 5:23 e.h.  

 • Hæ hæ þið öll!
  Okkur langar að senda minnsta manni Dagbjarti Elí innilegar hamingjuóskir í tilefni 1.árs afmælisins í gær. Vonum að hann hafi átt góðan dag sem og þið öll.
  Segjum annars það sama og hinir, gaman að fylgjast með hvað þið eruð að gera, lesum alltaf þó við séum ekki dugleg að kvitta fyrir okkur. Kristrún var einmitt að skoða myndirnar hérna á síðunni um daginn og hún var alveg ómöguleg því hana langaði svo að hitta Margréti Helgu og Jóel. Það var frekar erfitt að útskýra hvað þau væru langt í burtu!!!
  Bestu kveðjur til ykkar allra,
  Bryndís Erla og co.

  By Anonymous Nafnlaus, at 2:22 e.h.  

 • Hei på dere!
  Forstår ingenting jeg.... Men har sett på bildene deres, og ut av de virker det ut som dere har det bra!
  Jeg sendte en mail til hotmailen til Helga for en mnd. siden , men det er kanskje ikke den mailen som blir brukt?? helgavilborg@hotmail.com??
  Jaja, I Norge har vi det bra, det er ssnørekord i Oslo dette året... det har vært snø her siden nyttår, nesten en meter:)
  Har dere en mail adresse utenom hotmailen som jeg kan bruke?
  Klem fra Kjersti, deres tidl. nabo!

  By Anonymous Nafnlaus, at 4:50 e.h.  

 • Gaman að heyra í þér Helga Vilborg mín og lesa um ykkur fjölskylduna. Við í kórnum söknum þín mjööög mikið og Óskar er alltaf eitthvað að tala um þig eð a spyrja um þig. Þitt pláss stendur autt þar til þú kemur heim :) og við hlökkum til.
  Hey... ég bið rosalega vel að heilsa Ragga Schram og Kíu.

  Þú ert frábær og ég vildi að ég gæti verið með stelpuna mína í kórnum hjá þér, hún er engin smá söngfulgl.

  Guð blessi ykkur rosalega mikið og veri með ykkur.

  Kær kveðja Ágústa

  By Blogger agusta, at 8:26 e.h.  

 • Takk fyrir öll kommentin- þetta yljar manni um hjartarætur!
  Bestu batakveðjur til Hilmars- ég þekki þetta af eigin raun alveg hrikalega skelfilegt að láta taka úr sér hálskirtlana!

  Til hamingju líka Bryndís og fjölsk. með minnsta manninn ykkar það væri nú ekkert smá gaman fyrir grallarana að hittast!-

  Gaman að heyra frá þér Sigurbjörg, vonandi allt gott af ykkur að frétta, sendu mér endilega netfangið þitt á ethiopia2005@hotmail.com

  Allataf jafngaman að fá kveðju frá Gullu grallara, bið að heilsa hinum skvísunum

  Kjersti takk for hilsen- det er ganske lenge siden jeg tjekket helgavilborg- adressen, men jeg gjör det snart, adressen vi bruker mest er ethiopia2005@hotmail.com. Hils til alle vi kjenner der i Oslo!

  Takk takk Ágústa, skila kveðju frá þér og ég bið líka að heilsa kórgenginu!

  Blogga fljótlega- vorum að koma frá Awasa þar sem við erum búin að vera í viku

  Bestu kveðjur til allra
  HVS

  By Blogger Sverrisson, at 5:14 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home