Helga Vilborg og Stjáni Sverris

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Ráðstefna í Awasa

22.febrúar

Þá erum við komin heim eftir vikudvöl á kristniboðaráðstefnu í Awasa. Þar er frístaður NLM (hef nú örugglega talað um það áður) þetta er alveg yndislegur staður og frábært að fara þarna til að slappa af. Ráðstefnan var nú svosem ekki mikil afslöppun, stíft prógram frá morgni til kvölds en þó gafst nú færi á að fara aðeins í sund í hádegishléinu. Krökkunum fannst þetta alveg æðisleg. Jóel sagist alltaf vilja eiga heima í Awasa, alla dagana! Þeim fannst líka alveg rosalega gaman að hitta Friðrik Pál aftur, það voru miklir fagnaðar fundir. Það vara líka prógram fyrir krakkana allan tíman á meðan fullorðnafólkið sat á fundum. Það var í umsjá biblíuskólanema frá Fjellhaug (skólinn sem Kritján var á í Noregi í fyrra). Þau eru hér í fimm vikna ferð og hjálpa til við ýmislegt fyrir kristniboðið. Margréti Helgu og Jóel fannst þetta helst til mikil dagskrá, vildu fá meiri tíma til að vera úti að leika. Ég var ekkert voðalega stíf á því að þau þurftu allan tíman að tak aþátt ídagskránni þar sem við vorum með Asnakú með okkur, aðallega til að vera með Dagbjart Elí.
Helsta umræðuefni ráðstefnunnar var heilsustarfið sem er einn mikilvægasti þátturinn í kristniboðsstarfinu. Núna er hafið mikið starf í Sómalílandi sem þar sem meirihluti íbúa eru múslimar. Það eru mörg vandamál á stöðvunum sérstaklega vegna skorts á læknum og öðru menntuðu heilbrigðisstarfsfólki. Ég skildi nú ekki mikið af því sem fram fór þar sem öll praktísk mál eru rædd á ensku og mörg lykilorð sem vantar í minn orðaforða. Stundum sat ég heilu fundina og skildi hvorki upp né niður í neinu. Það var ákveðið að breyta þessu yfir á ensku fyrir tveimur árum síðan vegna Finnanna en það eru ekki allir á eitt sáttir um það. Biblíulestrarnir á morgnana voru þó á norsku og mest öll kvölddagskrá líka.
Það var nú gott að komast aðeins út fyrir borgina og anda að sér frísku lofti! Við komum svo aftur heim á laugardaginn var. Það var ágætt að hafa einn dag heima áður en skólinn byrjaði. Krakkarnir fóru svo í leikskólann og við í skólann á mánudaginn. Ég var alveg hrikalega þreytt í gær og fyrradag og varla að ég gæti fylgst með í skólanum. Ég hef örugglega verið eitthvað hálflasin líka svo ég ákvað að vera heima í dag til að hvíla mig.

Svona af því að ég var að tala um híenur síðast þá verð ég að bæta því við að við fórum í híenusafarí í Awasa. Það er alltaf dáldið um híenur þarna og á nóttunni heyrir maður í þeim. Það er mikið af hestum þarna og ef einhver þeirra slalsast eða veikist eru híenurnar ekki lengi að átta sig á því. Eitt kvöldið hafði drepist hestur rétt fyrir utan lóðina. Við fórum ásamt Torleif Kiserud sem er læknir í Jinka á bíl til að skoða híenustóðið og þetta var enginn smá fjöldi. Bara rétt fyrir utan girðinguna, alveg örugglega svona 50- 60 híenur, jafnvel fleiri! Þetta eru ekki beint geðsleg dýr en gaman að sjá þetta.

4. febrúar var haldið upp á eins árs afmæli minnsta mannsins með pompi og prakt. Það vara fullt hús gesta, afmæliskaka , rjómapönsur og fleira góðgæti á boðstólum. Hann var alsæll með þetta allt saman, fannst voða gaman að láta syngja fyrir sig.
Hann er tvisvar sinnum búinn að sýna tilburði í þá átt að fara ganga en svo hefur alltaf eitthvað sett strik í reikninginn, fyrst varð hann veikur svo þegar við komum til Awasa hætti hann aftur alveg við allt saman. Það var ekki alveg nógu öruggt. En í fyrradag stóð hann í fyrsta skipti sjálfur upp á miðju gólfi óstuddur og í dag virðist hann aftur vera farinn að gera tilraunir til að ganga. Hann þrammar um allt með því að halda í einn fingur á manni en þorir ekki að sleppa alveg. Hann er farinn að skilja svo margt og er farinn að sýna mjög ákveðnar skoðanir. Nú er litli regntíminn svo það rignir af og til á daginn. Í gærmorgunn setti ég hann í nýju stígvélin og regnbuxurnar því það var allt svo blautt úti. Hann var nú ekki par ánægður með að þurfa að vera í svona miklum fötum enda ekki vanur því. Seinna um daginn kom svo hellidemba og þá vildu stóru systkinin fara út til að sulla í pollunum. Þá var nú komið annað hljóð í strokkinn hjá herra Dagbjarti Elí. Hann vildi vera eins og þau og náði í stígvélin sín og gaf Fantanesh merki um að hann vildi líka fá sína regnkápu. Það var alveg hrikalega fyndið að fylgjast með honum. Hann var ekkert smá krúttlegur þegar hann var kominn í gallann og stígvélin og skottaðist úti í pollunum. Hann elskar að vera úti og þegar Asnakú kemur á morgnana fer hann rakleiðis og nær í sandalana sína sem er merki um að hann vill fara út að leika.
Hann er líka farinn að mótmæla á kvöldin þegar hann á að fara að sofa en er nú samt yfirleitt fljótur að gefa sig því hann er svo þreyttur eftir að hafa verið úti allan daginn.

Jónas Þórisson, formaður Kristniboðssambandsins lenti í Addis 3. feb. Kristján fór og náði í hann út á flugvöll og svo borðaði hann kvöldmat með okkur. Áætlað var að hann færi með flugi til Jinka eldsnemma á laugardagsmorguninn þar sem Raggi Schram ætlaði að sækja hann og fara með hann til Omo Rate. Fluginu var hins vegar seinkað um sólarhring svo Jónas kom bara í afmælisveislu hér og bauð okkur svo út að borða um kvöldið. Hann var svo með okkur hluta af ráðstefnunni í Awasa og áttum við gott spjall þar Íslendingarnir.

Ætli ég fari þá ekki að segja þetta gott í bili, ég man ekki eftir neinu fleiru markverðu í bili, bæti því bara við næst ef ég man eftir því - takk fyrir kommentin alltaf gaman að sjá að fólk man eftir okkur!

Enda þetta á orðunum sem voru yfirskrift kristniboðaráðstefnunnar :
“Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins til þess að ég fái hlutdeild með því. Vitið þér ekki að þeir sem hlaupa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þér hljótið þau”. 1. Kor.9:23-24

5 Comments:

 • Hæ hæ!
  Gaman að fá loksins fréttir af ykkur, manni var farið að lengja eftir að heyra eitthvað. Sniðugt að heyra að Dagbjartur sé farinn að standa upp á miðju gólfi, Tómas er einmitt byrjaður á því líka. Þeir verða flottir gaurarnir þegar þeir verða komnir af stað, hehe.
  En hafiði það sem allra best og þið megið nú endilega vera duglegri að blogga(o:
  Kveðja,
  Bryndís Erla og co.

  By Anonymous Nafnlaus, at 9:47 e.h.   • Gott að allt gangi vel. Var farin að lengja eftir fréttum frá ykkur.
  Annars allt gott að frétta, búin að sauma einn Sollu stirðu kjól og er hálfnuð með annan lítinn. Algjört Sollu æði á mínu heimili.

  Kv. Nína og fjölsk.

  By Anonymous Nafnlaus, at 9:33 f.h.  

 • Gaman að lesa þetta og líka að skoða myndirnar á http://gallery.askur.org/fyrogflamme
  Kærar kveðjur frá AFA

  By Anonymous Nafnlaus, at 4:02 e.h.  

 • Kæru vinir.
  Ég fylgist alltaf með en hef alltaf gleymt að kvitta fyrir. Það er gott að allt gengur vel og þið hafið það gott. Gaman líka að skoða myndasíðuna ykkar.
  Köbenkveðjur, Svava María o.fjösk.

  By Anonymous Nafnlaus, at 7:11 e.h.  

 • Við kíkjum oft á síðuna ykkar.

  Mikill munur á menningarheimum okkar þ.e. Florida eða Eþíópíu.

  Munið bara að það að fara í kirkju gerir mann ekki kristinn, ekki frekar en að standa í bílskúr gerir mann að bíl.

  Kveðjur
  Gylfi

  By Blogger Floridagengið, at 5:29 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home