Helga Vilborg og Stjáni Sverris

fimmtudagur, mars 16, 2006

Margrét Helga ræður

13. mars

Þá kem ég mér loksins að þvó að setjast niður og skrifa. Sl. tvær vikur hafa verið hálfundarlegar og ekki beint auðveldar. Þriðjudaginn 28. febrúar hringdu mamma og pabbi til að segja mér að Didda frænka hefði látist fyrr um daginn. Þetta gerðist mjög skyndilega og var því óneytanlega áfall þótt Didda hafi verið orðin fullorðin. Hún var alveg einstök frænka og við söknum hennar svo sárt. Mér hefur líka fundist svo erfitt að vera svona fjarri, geta ekki verið með að kveðja og líka erfitt að hafa ekki fjölskylduna til að rifja upp minningar og deila sorginni með. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt Diddu frænku og það var gott að hún fékk að fara, eins og amma orðaði það, beint heim í himininn án þess að vera veik eða þurfa að þjást. Hún fékk að njóta lífsins fram á síðasta dag. Hún var alltaf svo kát og glöð og tók okkur alltaf fagnandi þegar við komum í heimsókn. Ég veit líka að hún bað fyrir okkur á hverjum degi og það er ég svo óendanlega þakklát fyrir. Daginn sem Didda dó fór litli Dagbjartur Elí að ganga. Ég hugsaði að það hefði nú glatt hana að heyra það. Hún fylgdist svo vel með og gladdist yfir hverju framfaraskrefi barnanna. Núna fær Didda að ganga í dýrðinni með frelsaranum.

Þessar vikur hafa líka einkennst af veikindum okkar hjóna. Það hefur plagað okkur einhver leiðinda magapest sem ég held hafi byrjað hjá mér fyrir tveimur vikum með uppköstum og látum og hélt svo áfram í þessari viku. Kristján kom svo veikur heim af fótboltaæfingu sl. mánudag. Þetta var ekki beint skemmtilegt ástand. Sem betur fer hafa börnin ekki veikst. Ég er nokkurnvegin búin að ná mér þótt ég sé enn fremur þreklítil eftir að hafa lítið sem engu komið niður af mað en Kristján er ekki alveg orðinn góður. Svona er þetta við erum eflaust að venjast flórunni. Þetta virðist nú hafa verið einhver pest því fleiri en við hafa verið veikir af kristniboðunum.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég er búin að missa töluvert mikið úr skólanum vegna veikinda minna og barnanna núna eftir jól þannig að það tekur dálitla orku að ná upp aftur. Einbeitingin hefur heldur ekki verið upp á marga fiska hjá mér að undanförnu. Ég reyni bara að taka hlutunum eins og þeir eru og ekki gera of miklar kröfur til sjálfrar mín. Ég hef líka fengið að sleppa síðasta tímanum núna í nokkrar vikur þar sem ég var orðin svo uppgefin af þreytu. Það munar um að sitja 25 tíma í viku í stað 30. Ég sé svo bara til seinna hvort ég breyti þessu. Mér finnst amk ekki létt að vera mamma þriggja smábarna og í 100% námi í nýju landi osfrv.! En Guð er með okkur og hann leiðir okkur í gegnum þetta. Þrátt fyrir allt hefur mér nú bara gengið nokkuð vel að læra málið. Ég læri líka heilmikið þá daga sem ég er heima með því að spjalla við húshjálpirnar. Þær eru bara alveg þrælgóðir kennarar!

Annars er ég líka alltaf af og til að spila, bæði í kirkjunni (ILC) og í kristniboðssamhengi. Svo er ég með Ten sing einu sinni í mánuði, barnakórinn annan hvern fimmtudag og svo erum við aftur farin að hittast til að syngja saman. Það heldur mér gangandi að vera í þessu tónlistarstússi og er mér nánast lífsnauðsynlegt.

Börnin eru hin sprækustu, eins og ég sagði áður er DE farinn að ganga og hann er farinn að skilja svo mikið og er alltaf að myndast við að reyna að segja ný orð. Hann er nú ekki jafnfljótur til og systkini hans voru en það er nú kanski ekki skrítið þegar barnið er með 4 tungumál í kringum sig allan daginn. Ég fann líka 9. tönnina í dag. Það virðist vera sem hann sé að fá jaxl í efrigóm. Margrét Helga skoppar um alla daga eins og Lína langsokkur. Hún vill hafa Línu-fléttur og vera í pilsi og í sinhvorum sokknum alla daga. Henni finnst það ægilega flott. Móðirin vonar að það gangi fljótt yfir. Hún elskar að láta lesa fyrir sig og nú erum við að lesa Öddu eftir Jennu og Hreiðar í annað skiptið. Jóel hefur ekki alveg jafnmikið úthald í svona bækur með næstum engum myndumm, ekki ennþá, hann er nú líka bara þriggja ára. Systir hans á það nú til að vera nokkuð stjórnsöm við hann og um daginn sagði hann við mig: “Mamma Margrét Helga hún ræður öllu af því hún er svona (svo rétti hann fram fjóra fingur til að sýna hve gömul MH er). Hún ræður líka yfir dótinu mínu.” “Nei” sagði ég “Þú ræður alveg yfir dótinu þínu” Nei, Margrét Helga ræður” “ Þú ræður nú líka alveg einhverju” Sagði ég þá við hann. “Nei, ég kann það ekki” sagði þá litli stubbi. Þau eru dáldið ólík með það systkinin að það þarf ekki að kenna henni neitt því hún kann allt, að hennar eigin sögn en hann aftur á móti segist ekki kunna neitt. Hún er nú samt farin að vilja leyfa mér að kenna sér að skrifa nafnið sitt. Þau þekkja bæði nánast alla stafina og núna erum við að reyna að byrja að tengja saman í orð. Ég fékk líka lánaða myndlestrarbók í skólanum og það er mjög gaman að skoða hana með þeim. Ég var eiginlega alveg hissa á hversu mikinn orðaforða þau hafa. Þau, sérstaklega Margrét Helga, tala nú reyndar stundum eins og gamalt fólk en ekki eins og lítil börn því þau læra íslenskuna auðvitað bara af okkur og svo af því að lesa bækur.

16. mars

Ætli ég reyni nú ekki loksins að fara að koma þessu á netið. Við vorum nú ekki alveg orðin jafnhress og ég hélt um daginn en núna loksins erum við að ná okkur en þá er Jóel tekinn við. Þetta virðist nú samt ekki leggjast jafn illa á hann eins og foreldrana. Dagbjartur Elí fór að kasta upp í gærkvöld en það var bara einu sinni svo ég held það hafi ekki verið neitt. Líklega hefur hann bara gleypt jarðaberin sem ég gaf honum í gær af of mikilli áfergju. Hann er alveg vitlaus í ávexti, sérstaklega banana og jarðaber að ekki sé minnst á plómur. Hann tryllist ef hann sér skál með plómum og á það til að borða tuttugu stykki í einum rykk (reyndar frekar litlar, en samt...!). Þótt hann líti út fyrir að vera algjört matargat þá er hann það ekki, burtséð frá því hversu sólgin hann er er í ávexti. Það er eiginlega óttalegt vesen að gefa honum að borða. Hann er alltaf svo upptekinn af einhverju öðru. Það er ekki nema það séu eins og ég segi, ávextir og kanski injera (sem er aðal fæða Eþíópanna). En ekki kvartar maður nú yfir að hann vilji borða ávexti!!

Eftir rúmar tvær vikur koma mamma og pabbi til okkar og við erum farin að hlakka mikið til. Þá verður nú glatt á hjalla, ekki síst hjá litla fólkinu. Þau telja dagana og nota til þess fingurna, fín stærðfræðiæfing það.

Jæja ætli ég láti þá ekki staðarnumið í bili.

Guð geymi ykkur!

4 Comments:

 • Hæ Helga mín!
  Vona að fjölskyldan sé öll að hressast. Ég samhryggist þér vegna andláts Diddu, ég man vel eftir henni. Það verður gott og gaman að fá mömmu þína og pabba og frábært fyrir börnin. Við förum heim í páskafrí eftir viku og erum farin að hlakka til. Ertu búin að kíkja á bloggið okkar? Bestu kveðjur frá Köben, Svava María o.fjsk.

  By Anonymous Nafnlaus, at 9:21 f.h.  

 • hæhæ Helga mín!

  Bíddu hvað eru börnin þín eiginlega orðin gömul? Kunna alla stafina og ég veit ekki hvað og hvað... greinilegt að þau hafa góðan kennara á heimilinu (þúst mömmu sem vill setjast niður með þeim og kenna)

  En af kórnum er þetta að frétta að við sungum á árshátið á föstudaginn og það hefði nú verið gaman að hafa þig með þar... tókum "lín on mí" joyful, "O happy day" og ameising greis í útgáfunni sem gospel kompaníið tók það... það voru mjög góðar viðtökur sem við fengum hjá blindfullum gestunum og stóðu þau upp og klöppuðu... já já en við heyrumst bara og Guð blessi ykkur og varðveiti... gefi ykkur styrk og nýjan kraft, góða heilsu og mikin eldmóð!!!

  Bæbæ Þín kórvinkona Ágústa

  By Blogger agusta, at 3:39 f.h.  

 • Halló, vildi segja gleðilega páska elsku þið öll!
  Gott að heyra hvað þið eruð dugleg. Ef ég man rétt var það frekar ég sem réð en ekki Sindri, og var það trúlega öllum fyrir bestu :-) En í alvöru þá kom Sindri sæmilega óskaddaður úr þeim samskiptum.

  By Anonymous Nafnlaus, at 4:46 e.h.  

 • vona ég.

  By Anonymous Nafnlaus, at 4:46 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home