Helga Vilborg og Stjáni Sverris

föstudagur, apríl 28, 2006

Heimsókn frá Íslandi og fleira

16. mars

Ætli ég reyni nú ekki loksins að fara að koma þessu á netið. Við vorum nú ekki alveg orðin jafnhress og ég hélt um daginn en núna loksins erum við að ná okkur en þá er Jóel tekinn við. Þetta virðist nú samt ekki leggjast jafn illa á hann eins og foreldrana. Dagbjartur Elí fór að kasta upp í gærkvöld en það var bara einu sinni svo ég held það hafi ekki verið neitt. Líklega hefur hann bara gleypt jarðaberin sem ég gaf honum í gær af of mikilli áfergju. Hann er alveg vitlaus í ávexti, sérstaklega banana og jarðaber að ekki sé minnst á plómur. Hann tryllist ef hann sér skál með plómum og á það til að borða tuttugu stykki í einum rykk (reyndar frekar litlar, en samt...!). Þótt hann líti út fyrir að vera algjört matargat þá er hann það ekki, burtséð frá því hversu sólgin hann er er í ávexti. Það er eiginlega óttalegt vesen að gefa honum að borða. Hann er alltaf svo upptekinn af einhverju öðru. Það er ekki nema það séu eins og ég segi, ávextir og kanski injera (sem er aðal fæða Eþíópanna). En ekki kvartar maður nú yfir að hann vilji borða ávexti!!

Eftir rúmar tvær vikur koma mamma og pabbi til okkar og við erum farin að hlakka mikið til. Þá verður nú glatt á hjalla, ekki síst hjá litla fólkinu. Þau telja dagana og nota til þess fingurna, fín stærðfræðiæfing það.

Jæja ætli ég láti þá ekki staðarnumið í bili.

Guð geymi ykkur!



24. apríl

Nú skulda ég langt blogg!!!
Ég var eiginlega komin með hálfgerðan bloggleiða og svo er netsambandið svo stopult búið að vera undanfarið. En annars eru bara engar fréttir góðar fréttir er það ekki ?

Við erum búin að hafa það alveg rosalega gott með mömmu og pabba í heimsókn. En áður en ég segi frá því verð ég aðeins að segja frá Melodie Grand prix sem er söng/ hæfileikakeppni sem haldin er á norska skólanum ár hvert. Að þessu sinni var það 25. mars. Leikskólinn var með fyrsta atriðið og tóku Margrét Helga og Jóel að sjálfsögðu þátt. Þau voru búin að vera að æfa lag ú Karíusi og Baktusi nokkrar vikur á undan og áttu svo öll að mæta klædd upp sem Karíus og Baktus. Þetta voru ekkert smá krúttlegir Karíusar og Baktusar. Ég var búin að segja Margréti Helgu og Jóel að þau þyrftu að syngja hátt og snjallt svo allt fólkið myndi heyra í þeim og þau gerðu það sko, sungu manna hæst. Þeim fannst þetta alveg rosalega spennandi og hlökkuðu til í margar vikur á undan!

Mamma og pabbi komu svo laugardaginn 1. apríl, alveg voðalega föl á vangan eitthvað en úr því hefur nú aldeilis ræst og við sendum þau til vetrarríkisins kaffibrún og sælleg! Sunnudaginn annan apríl var páskaguðsþjónusta á norska skólanum þar sem litli sæti kórinn okkar söng. Þau stóðu sig alveg svakalega vel og litla konan mín söng einsöng í hljóðnema eins og hún hefði aldrei gert neitt annað og alveg alsæl með sjálfa sig “Var þetta ekki gott hjá mér amma?” spurði hún á eftir.

4. apríl heldum viðs svo til Awassa þar sem við áttum fimm góða daga ásamt apaköttum og híenum. Það var mikið buslað í sundlauginni og svo var spilað og lesið eins og í góðri sumarbústaðarferð á Íslandi. Annars höfum við bara verið hér í Addis. Farið út að borða, í fjallgöngu á Menagesha, í sund á Sheraton og bara haft það rosalega huggulegt. Mamma og pabbi hafa gist á gestahúsi danska kristniboðsins DEM (Danish Ethiopia Mission) sem er hér á næstu lóð. Það er alveg ægilega huggulegt og þar sem íbúðin okkar er heldur lítil var það vel þegið. Krökkunum hefur líka þótt spennandi að fá að gista hjá ömmu og afa.

Við héldum páskana hér heima. Páskadaginn byrjuðum við á hátíðarmorgunverði með Nóa og Siríus páskaegg í eftirrétt. Svo fórum við í kirkju þar sem ég sá um alla tónlistina ásamt Ellen og Alf Åge Hansen ( við erum síðan að fara að halda tónleika hér 30. apríl) Seinnipartinn grilluðum við svo íslenskt lambalæri sem rann ljúflega niður með eþíópsku blandi (Mirinda appelsíni og malti). Í eftirrétt var svo dýrindis ís sem afi keypti sem minnti mjög á heimalagaða ísinn hennar ömmu Borgu þannig að þetta var allt saman alveg dásamlegt.

Mamma átti svo afmæli 18. apríl. Við byrjuðum daginn á að syngja fyrir utan gluggan hjá ömmu og færa henni pakka og myndir sem krakkarnir höfðu teiknað. Svo fórum við öll saman út að borða á veitingastað sem heitir Top Vew. Krökkunum finnst svo gaman þar því þar er svo skemmtilegt leiksvæði.

Við fórum líka í nokkur heimboð. Fyrst til fjölskyldu Almas sem er eþíópsk vinkona mömmu sem býr á Íslandi. Það var tekið á móti okkur eins og höfðingjum með dýrindis kræsingum. Á Eþíópsku páskunum sem voru viku á eftir okkar var okkur boðið í mat heim til Asnakú, barnfóstrunnar okkar og svo í dag fórum við heim til Fantanesh, húsjálparinnar okkar. Að sjálfsögðu var allstaðar boðið upp á injera og wodd sem er þjóðarréttur Eþíópa. Alveg hrikalega góður matur, en injeran gerir það að verkum að maður verður alveg sprengsaddur lengi á eftir það er eins og það blási út í maganum á manni. Við fórum líka í heimsókn til Mörtu vinkonu minnar en þar var okkur boðið í kaffi.

26. apríl

Þá held ég áfram....

Mamma og pabbi voru að fara áðan. Kveðjustundirnar verða bara erfiðari og erfiðari. En þetta fylgir. Við erum mjög þakklát fyrir þennan tíma sem við höfum átt saman, við erum öll búin að njóta þess mjög vel. Margrét Helga átti erfitt með að sleppa ömmu sinni í morgun og við grétum saman mæðgurnar á eftir. Svo tókst okkur að dreyfa aðeins huganum við leik í dúkkuhúsinu.

28. apríl

Jæja, eitthvað ætlar það að ganga hægt hjá mér að skrifa. Það kanski breytir ekki miklu þar sem ég kemst hvort eð er ekki á netið. Það er búið að vera mjög lélegt samband undanfarnar vikur.

Annars er búið að vera fínt að fá frí úr skólanum. Flestir eru orðnir frekar þreyttir en nú er bara einn mánuður eftir. Síðustu dagana fyrir páskafrí var einskonar verklegt nám. Við fengum þrjá daga þar sem við áttum að finna okkur verkefni sem helst tengist því sem við erum að fara að vinna við eftir málaskólann, en fyrst og fremst til að æfa okkur að tala amharísku. Ég fór einn dag og fylgdist með tónlistarkennslu á seminarinu. Reyndar fer allt þar fram á ensku en ég var búin að fá leyfi til að nota einn dag í þetta þar sem áætlað er að ég taki yfir hluta af kennslunni þar. Annan daginn var ég svo heima hjá Mörtu þar sem ég spjallaði við fjölskylduna og lærði meðal annars að baka injera hjá mömmu hennar. Það varð nú ekki beint fallegt injera en ég reyndi þó! Svo borðuðum við nýbakað injera með berberre (krydd sem er mikið notað í matargerð hér) sem er bara alveg hrikalega gott. Annars var ég bara heima og spjallaði við húshjálpirnar. Mér finst ég oft bara mest læra á að vera heima og spjalla við þær. Þær eru mjög meðvitaðar og duglegar að leiðrétta mig og hjálpa mér að læra. Önnur þeirra talar nánast enga ensku og hin er mjög stíf á að tala bara amharísku þótt hún kunni smá ensku en það er bara gott fyrir mig. Ég er allavega búin að læra heilmikið af þeim.

Kristján ákvað að fara niður í bæ og spjalla við tvo skóburstunardrengi sem hann hafði kynnst. Hann kannaði aðeins aðstæður þeirra og ákvað svo að hjálpa þeim að fara í skóla. Eftir talsverða leit fann hann skóla handa þeim þar sem kennslan er í eftirmiðdaginn svo þeir geta unnið á daginn. Hann keypti líka handa þeim skó og skólatösku og bækur fyrir skólann. Þeir voru auðvitað alsælir en þeir halda áfram og reyna að sjá hvað þeir geta fengið meira. Núna hringja þeir nánast daglega til að biðja Kristján um hitt og þetta og að hann komi og hitti þá. Það er ekki á hverjum degi það kemur útlendingur og bíðst til að borga fyrir þá skólagöngu og kemur fram við þá sem jafningja.
Þið megið gjarnan muna eftir þessum drengjum í bænum ykkar. Þetta er verkefni sem hvergi nærri er lokið. Þessir drengir búa við mjög þröngan kost og eru báðir föðurlausir. Þeir sem vilja heyra nánar um verknámið okkar ættu að verða sér úti um eintak af næstu Kristniboðsfréttum. Annars hvet ég nú bara alla til að gerast áskrifendur. Áskriftin er ókeypis og þá fær maður reglulega fréttir af kristniboðinu. Upplýsaingar má finna á www.sik.is .

Svo höfum við fengið í hendur annað verkefni sem er fyrirbænarefni líka. Einn af vaktmönnunum okkar er mjög veikur. Hann hefur undanfarið verið með mikinn höfuðverk en alltaf komið til vinnu. Svo einn daginn ætlaði ég varla að þekkja hann því hann var allt í einu allur orðinn skakkur í andlitinu. Ég fór að grennslast fyrir um þetta og spyrja hitt vinnufólkið og þá kemur í ljós að hann getur ekki einu sinni lokað öðru auganu meðan hann sefur. Hann virðist hafa farið til einhvers læknis sem sagði að þetta væri vegna kulda, gefið honum einhverjar pillur og sent hann heim. Mér fannst þetta nú dálítið undarleg sjúkdómsgreining og talaðu um þetta við Tuulu sem er nággranni okkar, læknir. Af lýsingunni að dæma sagði hún að þetta gæti verið hvað sem er, æxli, berklar , hvað sem er og því væri CT scan , nauðsynlegt. Hún sagði þó að best væri að tala við Gabriel Lende sem er norskur taugaskurðlæknir sem starfar á Kóreanska spítalanum. Ég gerði það og hann sagði það sama að CT scan væri nauðsynlegt. Ég fékk svo leyfir hjá NLM til að senda hann á Kóreanska og svo hjálpuðu hinar vaktirnar mér að ná í hann og nú bíðum við efir honum. Þessi vaktmaður heitir Yilma og er giftur og á þrjú börn.

Við erum þakklát fyrir að Guð vill nota okkur. Við getum auðvitað aldrei hjálpað öllum en biðjum Guð að sýna okkur hvað hann vill að við gerum. Það getur stundum verið erfitt og lýjandi að keyra um götur bæjarins því allsstaðar sér maður neyðina. Við bara biðjum Guð að gefa okkur visku þannig að við getum mætt fólkinu með kærleika hans. Ég bið ykku aftur að muna eftir Yilma og fjölskyldu hans og eins drengjunum tveimur Mickias sem er 10 ára og Gabrexhiaber 11 ára (sem hefur aldrei áður fengið tækifæri til að ganga í skóla) og fjölskyldum þeirra.


Af krökkunum er allt gott að frétta. Þau eru búin að jafna sig eftir kveðjustundina. Þau fóru í leikskólann í dag og virðast bara nokkuð sátt. Margrét Helga er dugleg að tjá tilfinningar sínar í orðum sem er mjög gott. Jóel á ekki eins auðvelt með það. Enda er hann yngri og knski skilur ekki eins og hún allt saman. Í fyrrakvöld þegar hann var að fara að sofa sagði hann allt í einu við mig:” Mamma er afi hérna? Ég heyri í honum.” Nei, sagði ég “ afi og amma eru farin heim til Íslands, nú eru þau á leiðinni í flugvélinni” Þá sagði hann allt í einu með grátstafina í kverkunum,” Mig langar svo að fá afa” Þetta voru eiginlega fyrstu viðbrögðin hans. Þrátt fyrir allt eru þau mjög ánægð hér og líður vel en auðvitað sakna þau allra heima, annað væri varla eðlilegt.
Minnst maðurinn stækkar og dafnar og verður bara meira krútt með hverjum deginum. Hann er alltaf að segja eitthvað nýtt, ýmist á íslensku eða amharísku en megnið af því sem hann hefur að segja skilur nú enginn ennþá, hann hefur allavega alltaf frá alveg rosalega miklu að segja. Svo er hann orðinn vitlaus í kaffi. Pabbi hans ákvað að leyfa honum að smakka til að hann sannfærðist um að þetta væri ekkert gott en annað kom nú á daginn. Drengurinn er vitlaus í kaffi. Þetta er verst þegar við erum í heimsókn hjá eþíópskum vinum því þar er ávalt boðið upp á kaffi og því fylgir sérstök kaffiseremónía sem er alveg sérstök fyrir Eþíópíu. Þá veit minn sko alveg hvað er í gangi og það þíðir ekkert að plata hann með því að setja saft í bolla eða eitthvað svoleiðis, hann vill bara almennilegt kaffi!!

Jæja þá er ég loksins komin inn á netið svo ég reyni að koma þessu á síðuna..