Helga Vilborg og Stjáni Sverris

mánudagur, maí 29, 2006

Nýtt blog

Vegna vandamála með blogsíðuna höfum við ákveðið að skipta um bloggsíðu. Slóðin á nýju síðuna er www.helgavilborg.blog.is.

mánudagur, maí 15, 2006

8.- 15. maí

8. maí

Litli kaffi karlinn er veikur. Fékk hita í nótt og er óttalega slappur. Hann er búinn að vera slappur í maganum undanfarið og með endalaust kvef og er svo að fá jaxla í ofanálag. Maður þarf samt alltaf að vera á varðbergi, enn meira hér en heima þegar þau fá hita litlu skinnin, því það getur alltaf verið eitthvað annað. Ég bara vona að þetta sé einhver venjuleg pest.
Bóndinn á svo afmæli á morgun, verður 32 ára. Það er nú ekki búið að gera neinar stórkostlegar ráðstafanir, enda erfitt þegar litli maðurinn er svona lasinn. En eitthvað gerum við nú, kanski ég baki allvega súkkulaðiköku í kvöld þegar hann fer í boltann.

Við erum byrjuð aftur í skólanum eftir langt og gott páskafrí. Síðasta vika var ekki nema þrír dagar vegna þess að það var frí fyrsta maí og svo var eþíópskur frídagur þann 5. Það var fínt að byrja rólega en nú er allt komið á fullt aftur. Það er ekki nema mánuður eftir, tíminn flýgur alveg áfram.

Við fengum gesti í grill á föstudaginn. Það voru Craig og Allison og strákarnir þeirra og önnur bandarísk hjón, Jake og Erin og börnin þeirra tvö. Þau starfa fyrir sömu kristniboðssamtök og Craig og Allison og eru einnig að fara að starfa meðal Gumus fólksins. Þetta var mjög vel heppnað kvöld þrátt fyrir að það færi að hellirigna einmitt þegar við ætluðum að fara að borða úti á palli. Þá var bara að drífa allt inn. Við borðuðum svo svínakjöt og pylsur og grillaða banana í eftirrétt. Gestirnir höfðu aldrei smakkað svoleiðis áður og þótti alveg sérlega ljúffengt. Er þetta kanski íslensk uppfinnining?

Sl. fimmtudag kom ég við í bankanum til að hitta litlu vinina hans Kristjáns. Í síðustu viku kom það upp á að móðir Gabrexhiabers væri á leiðinni norður til Tigrai þaðan sem þau koma og vildi hafa Gabri með sér. Þeir voru í miklu uppnámi yfir þessu og endaði með því að Kristján fór til þeirra og komið var á fundi með móður hans og einum kennara í skólanum. Niðurstaðan varð sú að Gabri átti að fá að búa hjá nágranna þeirra þar til móðir hans kæmi til baka efir tvo mánuði svo hann gæti sótt skólann. Eitthvað breyttist þetta nú því á fimmtudaginn hringdi Mickias alveg miður sín því Gabre væri á leiðinni með móður sinni til Tigrai um kvöldið. Ég fór því og hitti hann og við spurðum móður Mickiasar hvort Gabri mætti búa hjá þeim þennan tíma ef við borguðum fyrir hann uppihald og játti hún því. Ég fór því með Mickiasi heim til Gabri en þá höfðu þau farið um morguninn svo við vorum of sein. Mickias greyjið var mjög miður sín en hann er duglegur og heldur áfram að stunda skólann. Ég komst líka að því að móðir Gabrexhiabers á von á barni og er það eflaust hluti af skýringunni hvers vegna hún fór. Þessi fjölskylda þarf á fyrirbæn að halda. Líf þeirra er síður en svo auðvelt en svona er líf svo ótalmargra hér í Addis. Margir koma utan að landi til að freista gæfunnar en þurfa svo að búa við mikla fátækt og neyð.
Við hugsuðum eftir á að kanski var bara best að hann fór með móður sinni. Þau eru mjög náin og eflaust þarf hún á honum að halda við þessar astæður. Við höfum heyrt að þau komi til baka eftir tvo mánuði en vitum svo sem ekkert. Þá kanski fær Gabri tækifæri til að byrja aftur í skólanum. Eins og Eþíóparnir segja þá veit það Guð einn.

Ég get líka fært gleðifréttir. Kristján fór með Yilma, vaktmanninn okkar sem er veikur á Kóreanska spítalann í CT scan einmitt daginn sem ég skrifaði síðast. Ekkert sást á myndunum þannig að líklega er þetta ekkert alvarleg. Gabríel Lende, norski læknirinn, sagði að líklegast væri þetta veirusýking í taugum og ekkert hægt að gera annað en hvílast. Þó er öruggara að taka blóðprufur til að sjá hvort eitthvað kemur fram en þetta virðist að minnsta kosti ekki vera jafnalvarlegt og leit út í fyrstu. Þið megið samt halda áfram að biðja fyrir honum og fjölskyldu hans, að hann nái fullum bata.

12. maí

Það gengur illa að komast á netið þannig að það líður lengra á milli þess sem ég get sett færslur á síðuna. Eins og er er ekki hægt að komast inn. Svona er þetta bara hér.
Ég ákvað að fara ekki í skólann í dag því ég hef ekki sofið neitt af ráði undanfarna fimm sólarhringa. Dagbjartur Elí er búinn að vera veikur, var með yfir 40 stiga hita tvær nætur í röð en var loks hitalaus í gærmorgun. Hann er samt langt frá að vera alveg frískur og er voða grátgjarn og sefur illa bæði á nóttunni og daginn. Þetta er einhver víruspest, virðist vera, í honum og svo eru jaxlarnir mikið að plaga hann. En þetta gengur nú allt yfir.
Hin tvö eru spræk og hress og eru núna í leikskólanum. Það var síðasta barnakórsæfingin í gær en þau eiga að syngja í kirkjunni á sunnudaginn og svo á 17. maí (þjóðhátíðardegi norðmanna) sem haldinn verður hátíðlegur með pompi og pragt.
Þeim fannst nú frekar fáránlegt að ekki skyldi vera nein veisla fyrir pabba á afmælisdaginn. Þau voru mjög spennt yfir að pabbi ætti afmæli og vildu fá að vera í fínum fötum. Þau teiknuðu myndir handa pabba og sungu afmælissönginn og svo borðuðum við góðan morgunverð en svo voru þau alltaf að bíða eftir gestunum. Það varð nú ekkert úr því að bjóða neinum þar sem minnsti maðurinn var svo lasinn en við borðuðum afmælisköku fjölskyldan sem Margrét Helga og Jóel fengu að skreyta.
Margrét Helga er mjög mikið að velta vöngum yfir lífinu og tilverunni. Hún spyr mikið um dauðann og talar mikið um Diddu frænku. Við höfum spjallað um að þegar fólk deyr þá er það í rauninni bara líkaminn sem deyr sem er hulstrið sem við búum í hér á jörðinni. Sálin sem erum við sjálf fær að búa á himnum með Jesú. Við höfum líka lesið mikið bók sem heitir “ég og afi tölum saman um dauðann” sem er mjög góð útskýring fyrir börn um dauðann. Mér fannst svo merkilegt að fyrstu dagana eftir að Didda dó var hún alltaf að teikna myndir af Jesú á krossinum. Við spjölluðum dálítið um það hvers vegna Jesús dó á krossinum og svo spurði ég hann hvað hefði svo gerst, hvort Jesús hefði bara dáið. “Nei hann lifnaði upp!” sagði hún þá brosandi.
Í gærkvöld vildi hún svo vita nákvæmlega hvernig börnin yrðu til. Hún las stundum heima á Karlagötunni bók með mömmu sem fjallar um líkamann, beinabókin kallar hún hana. Þar hafði hún nú eitthvað lesið um þetta með börnin og ýmislegt fleira um líkamann sem hún hefur mikinn áhuga á. Enda ætlar hún að verða hjúkrunarfræðingur eins og amma Magga.

Jóel er alltaf að æfa sig eins og pabbi því hann ætlar að verða sterkur. Hann hleypur hring eftir hring á lóðinni og “lyftir sér” svo á stöng á rólunni og svo geriri hann armbeygjur í stofunni. Svo spyr hann “mamma er ég ekki rosalega duglegur?” Svo þarf auðvitað að fara í sturtu eftir allar æfingarnar! Fyrir nokkrum vikum var varla nokkur leið að koma drengnum ógrátandi í bað en nú vill hann helst fara í sturtu tvisvar á dag!

Nú er staðfest að við fáum húsið sem við vonuðumst eftir á seminarlóðinni. Það verður rosalegur munur. Þar er stór stofa, fimm herbergi, þvottahús, bílskúr, gott eldhús með búri, nóg skápapláss og stór, fallegur garður. Þetta verður algjör lúxus. Ég ætla fljótlega að fá að fara og mæla gluggana svo ég geti farið að sauma gardínur. Svo þurfum við að fara að huga að því að kaupa þá húsmuni sem okkur vantar. Hér erum við bara með það helsta í láni.

Jæja nú loksins er ég komin á netið, sjáum hvort ég kemst inn á síðuna...

15. maí
Ekki hefur mér enn tekist að koma þessu áleiðis á þessa blessuðu heimsíðu okkar. Annaðhvort er bara ekki hægt að komast á netið og þá sjaldan kemst ég af einhverjum ástæðum ekki inn á síðuna. Ég held því bara áfram að skrifa dagbók og svo verður bara að koma í ljós hvenær þetta kemst fyrir auðu almennings.

Helgin var bara nokkuð viðburðarrík hjá okkur.
Á föstudagskvöldið fengum við pössun og fórum tvö út að borða hjónin eftir að hafa tekið á því í ræktinni. Ragnhild vinkona okkar var svo elskuleg að passa og finnst krökkunum ekki leiðinlegt að vera með henni. Við ákváðum að prófa stað sem við höfum aldrei farið á áður og urðum sko ekki fyrir vonbrygðum. Maturinn var himneskur, þjónustan til fyrirmyndar og allt svo hreint og snyrtilegt sem er nú ekkert alveg sjálfsagt hér í þessari borg. Svo var þetta bara alveg hræódýrt.Fjórréttuð máltíð fyrir okkur tvö kostaði jafnmikið og hálfur aðalréttur fyrir einn myndi kosta heima. Þetta var alveg frábært kvöld.

Á laugardaginn voru Ten- sing tónleikar. Það var æfing allan daginn og ég æfði með þeim fyrstu tvo tímana frá 10- 12. Svo voru tónleikarnir sem voru mjög vel heppnaðir kl. 4. Margrét Helga og Jóel voru með mér og fannst gaman að fá að leika við krakkana á casa inces (tónleikarnir voru í kapellu norska skólans) Svo á sunnudaginn söng barnakórinn í alþjóðlegu kirkjunni auk þess sem ég spilaði við messuna. Krakkarnir stóðu sig alveg frábærlega en spilamenskuna ætla ég ekki að ræða hér. Ekki annað en að tónlistarmálin í kirkjunni þarfnast fyribænar.

Barnakórinn á svo að syngja í guðsþjónustunni á 17. maí auk þess sem ég stjórna fullorðinskór og spila í kirkjunni. Það verður mikið um dýrðir á norska skólanum og allur dagurinn hjá mér á morgun fer í æfingar og pönnukökubakstur því ég var beðin að koma með íslenskar pönnukökur. Við urðum reyndar frekar svekkt að heyra í dag að okkur er ekki boðið í norska sendiráðið seinna um daginn af því að við erum hvorki norskir ríkisborgarar né vinnum á norska skólanum eða eigum börn þar (leiskólinn telur ekki) – en svo er nú það það er ekki sama Jón eða séra Jón!Ekki meri um það.


Jæja LOOOOKSINS er ég komin inn á síðuna. Ég þarf reyndar skoða eitthvað þetta með kommentin mér sýnist það ekki virka eins og er, sjáum hvað mér tekst að gera.

Ég bið Guð að blessa ykkur öll sem lesið og bið ykkur að muna eftir okkur í bænum okkar. Ég hef líka enn meiri gleðifréttir að færa af Yilma, vakmanninum okkar því hann er á góðum batavegi- takk fyrir að biðja með okkur.